Fjarskipti

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 14:43:01 (4500)

1996-04-10 14:43:01# 120. lþ. 115.3 fundur 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:43]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gagnrýndi það með réttu í ræðu minni að heppilegast og skynsamlegast hefði verið að þau þrjú frv. sem snúa að þessum málum öllum hefðu komið fram samtímis í þinginu þannig að umræðan hefði getað farið fram með heildstæðum hætti. Það breytir því ekki að ég get vel áréttað, ef hæstv. ráðherra líður þá betur, að ég þakkaði sérstaklega fyrir að ráðuneytið og Póstur og sími skyldu hafa frumkvæði að því á sínum tíma að gefa þingmönnum í samgn. kost á að kynna sér fyrirkomulag þessara mála erlendis. Ég get ítrekað það hér og nú. Það breytir ekki því að frv. það sem frá hæstv. ráðherra og hans starfsmönnum kom var rýrt í roðinu. Þar vantaði svör við ýmsum grundvallarspurningum sem vakna. Og þær vöknuðu einmitt vegna þess að þingmenn margir hverjir sáu ýmislegt sem þörf er á að fá svör við og skoða mjög rækilega í ágætri ferð til Noregs og Danmerkur á hausti liðnu.

Hvað varðar vangaveltur hans um einkavæðingu eða ekki einkavæðingu lýsti ég því hér yfir í umræðum um Póst og síma og raunar aftur áðan að það eru ekki trúarbrögð af minni hálfu hvers konar rekstrarfyrirkomulag er á þjónustustofnunum á borð við Póst og síma. Við eigum að viðhafa þann rekstur sem heppilegastur er og ódýrastur fyrir þegnana og veitir besta þjónustu. Það er ekki flóknara en svo. Spurningin er hins vegar þessi: Hvað er átt við með þessum frv.? Er hér verið að einkavæða eða er ekki verið að einkavæða? Seinni ræða hæstv. ráðherra gefur engin svör við því. Ég er engu nær. Eins og ég gat um, er um í 1. gr. þessa frv. um fjarskipti og 2. gr. frv. til laga um formbreytingu Pósts og síma opin heimild til ráðherra. Það var hins vegar merkileg yfirlýsing af hans hálfu, sem ég þakka fyrir, að hann lítur svo á að ef stofnuð verði dótturfyrirtæki Pósts og síma hf., sem ég tel allar líkur á, þá taki skilyrðið um að Alþingi komi við sögu ef um sölu verður að ræða einnig til þess. Ég hlýt þá einnig að álykta með hliðsjón af þessu að hæstv. ráðherra líti þannig til að réttarstaða starfsmanna breytist ekki á einn eða neinn hátt þótt þeir verði hugsanlega ráðnir af Pósti hf. sem er í eigu Pósts og síma. Er það réttur skilningur, hæstv. ráðherra?