Iðnaðarlög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 15:31:29 (4514)

1996-04-10 15:31:29# 120. lþ. 115.4 fundur 405. mál: #A iðnaðarlög# (EES-reglur) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:31]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er a.m.k. alveg á hreinu að hv. þm. kann ekki að skammast sín fyrir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það liggur nú fyrir og ég segi honum það til hróss. (ÖS: Né annað.) En auk þess er það svo með ýmislegt í fortíðinni að því verður ekki breytt eins og hv. þm. veit, þar á meðal hinum merka urriðastofni í Þingvallavatni sem við vildum báðir gjarnan getað kallað til lífsins á ný því þar var um að ræða merkilegar skepnur með gen sem nú eru horfin. Hv. þm. hefur frætt mig um að þetta hafi verið í raun og veru merkilegri skepnur og meira tjón þar af leiðandi orðið fyrir lífríkið, en jafnvel geirfuglinn og er þá langt til jafnað.

Það sem ég var að fjalla um áðan í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði og öll þessi frv. er auðvitað fyrst og fremst það að mér finnst það niðurlægjandi fyrir Íslendinga að taka við þessum frv. án þess að við getum neitt í málinu gert annað en að taka við þeim. Ef hv. þm. fylgdist með umræðum um Evrópskt efnahagssvæði á sínum tíma þá var þetta m.a. eitt aðalgagnrýnisefnið burt séð frá hinum efnahagslegu þáttum í málinu. Ég man að ég tók þannig til orða, það varð dálítið misskilið en ég ætla samt að endurtaka það og það er þetta: Að þessu leytinu til þá finnst mér staða ríkis í Evrópusambandinu skömminni skárri en í EES af því að í EES ráðum við engu en menn ráða þó einhverju að nafninu til á hinum stað. Það er þetta sem ég er að tala um. Ég tel að það sé slæmt fyrir Ísland og Íslendinga og aðrar þjóðir sem búa við þessar aðstæður og ég tel að það sé mjög mikilvægt að halda til haga. Mér finnst að við eigum að hafa það stolt, ekki aðeins fyrir því sem við höfum gert heldur líka fyrir Alþingi, að við segjum: Við metum hvert einasta mál sjálfstætt sem Íslendingar þegar þau koma hér á dagskrá og það skulum við líka ræða í forsetakosningabaráttunni hvort sem það verður krossapróf eða eitthvert annað próf hv. þm. (ÖS: Við ræðum það ekki sem geirfugla.) (SvG: Ekki urriða.)