Reynslusveitarfélög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 15:58:34 (4517)

1996-04-10 15:58:34# 120. lþ. 115.6 fundur 390. mál: #A reynslusveitarfélög# (félagslegar íbúðir, atvinnuleysistryggingar) frv. 78/1996, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:58]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi vangaveltur fjárlagaskrifstofu um 3. gr. þá var í upphaflegu frv. ákvæði sem varðaði skipulags- og byggingarlög. Nú er frv. um skipulags- og byggingarlög til meðferðar í þinginu og í umhvn. og ef það yrði að lögum yrði þessi grein óþörf. Ég ætla að biðja formann félmn. að fylgjast með því og hafa samráð við umhvn. um það hvort að það mál er að sigla áfram. Ef það mál strandaði og yrði ekki afgreitt frá þinginu í ár þá þyrfti að taka þessa breytingu upp í þetta frv.

Varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga eru menn að prófa sig áfram. Sveitarfélögin sækja eftir auknum verkefnum og ég sé ákveðna kosti í því að sveitarfélögin fái aukin verkefni ef þau treysta sér til og við erum að prófa okkur áfram. Það er búið að gera mjög athyglisverðan samning við Hornafjörð um heilbrigðis- og öldrunarþjónustu í Austur-Skaftafellssýslu. Það er búið að gera samning við Akureyrarbæ um málefni fatlaðra á Eyjafjarðarsvæðinu og báðar þessar tilraunir eru mjög athyglisveðar og geta orðið okkur lærdómsríkar. Ég bind hina bestu von um að þarna séum við að feta inn á rétta braut. Það er hugsanlegt að einhverjir agnúar komi upp og þá verðum að hætta við þetta eða taka það til endurskoðunar um næstu aldamót. En ég held að sveitarfélögin eigi að hafa skilyrði til þess að geta veitt betri þjónustu þeim sem þjónustunnar eiga að njóta þegar vegna nálægðar og staðþekkingar.

Um félagslega húsnæðiskerfið vil ég segja að ég hef mjög haldið fram þeirri hugmynd sem þarna er verið að útfæra og vil ég láta skoða hana. Í fyrsta lagi yrði að flokka fólkið, þ.e. fólk sem á annað borð ætti rétt á því að komast inn í kerfið. Það fengi fjármuni eins og ég lýsti áðan til þess að velja sér íbúð sjálft við hæfi eða eftir því sem það teldi sig þurfa eða hafa getu til, gæti endurbætt hana. Hún þyrfti ekki að vera frágengin eftir þeim kröfum sem nú er gert við félagslegar íbúðir. Margt af þessu er ungt fólk og margt af því á lítið nema sinn eigin vinnukraft og það er eiginlega sorglegt að horfa upp á það að því sé meinað að leggja fram þennan vinnukraft til þess að laga í kringum sig eða lagfæra íbúðir eða jafnvel að byggja. Þeir sem á annað borð pössuðu inn í félagslega kerfið fengju að velja sér íbúðir og með því ynnist ýmislegt, það mundi væntanlega styrkja eignatilfinninguna sem hefur skort í félagslega kerfinu. Mörgum finnst þeir eignast hægt í félagslega kerfinu. Þetta mundi styrkja það og menn væru að sumu leyti frjálsari með þessu kerfi þannig að ég er mjög hrifinn af þessu.

Varðandi búseturéttarkerfið, sem kemur mjög vel út í þeirri athugun sem gerð var, er þess að geta að búseturéttarkerfið kemur vel út fyrst og fremst vegna þess að íbúar í búseturéttaríbúðum eiga rétt á húsaleigubótum. Ef þær væru teknar af þá væri búseturéttarkerfið ekki nálægt því eins gott og skaraði ekki fram úr öðrum. Nú verður lögum samkvæmt að endurskoða lögin um húsaleigubætur. Ég hef haft áhuga á því að koma þeim yfir á sveitarfélögin. Ég veit ekki hvort það gengur upp. Í öllu falli getum við ekki haft húsaleigubótakerfið eins og það er, þ.e. mér finnst það geti ekki verið valfrelsi sveitarfélaganna hvort þau taki það upp. Annaðhvort verður það að vera alls staðar eða ekki. Og í öðru lagi finnst mér að það ætti að ganga út yfir allt leiguhúsnæði og líka leiguhúsnæði í eigu sveitarfélaga.

Ég er ekki sammála athugasemd frá fjárlagaskrifstofunni um það að þetta muni þyngja á Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég held að meginatriðið, herra forseti, sé að atvinnuleitandi sé virkur í atvinnuleit og ég hef trú á því að þetta sé tilraunarinnar virði.