Reynslusveitarfélög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 18:03:39 (4518)

1996-04-10 18:03:39# 120. lþ. 115.6 fundur 390. mál: #A reynslusveitarfélög# (félagslegar íbúðir, atvinnuleysistryggingar) frv. 78/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[18:03]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða frv. til laga um breyting á lögum um reynslusveitarfélög. Ég hef verið sem sveitarstjórnarmaður nokkur áhugamaður um reynslusveitarfélög og finnst það mjög áhugaverð og góð nýbreytni í okkar stjórnsýslu að við gefum okkur tíma til þess að reyna tiltekin verkefni í mismunandi sveitarfélögum eftir atvikum þannig að við vitum betur út í hvað við erum að fara þegar við skiptum verkum með ríki og sveitarfélögum. Þetta er e.t.v. þeim mun mikilvægara hjá okkur en það er annars staðar þó að við leitum reyndar fyrirmynda annars staðar frá, að hjá okkur er það þó ólíkt þeim sem við leitum fyrirmynda hjá að okkar sveitarfélög eru hlutfallslega mörg og fámenn. Þess vegna getum við aldrei alveg munstrað eftir þær hugmyndir eða þær tilraunir eða þær niðurstöður sem menn fá á hinum Norðurlöndunum varðandi verkefni sveitarfélaga annars vegar og ríkis hins vegar þó við getum í mörgum tilfellum lært mikið af þeim og höfum í mörgum tilfellum nýtt okkur þeirra reynslu.

Hér er strax komið fram frv. til laga um breyting á lögum um reynslusveitarfélög enda þó ekki sé mikið farið á þau að reyna. Ráðherra gerði grein fyrir því áðan hvaða sveitarfélög voru valin sem reynslusveitarfélög og hvernig verkefni skiptast á milli þeirra. Það er búið að gera einhverja samninga og mig langar til þess á meðan ég er að reifa þetta almennt að víkja að því að þegar frv., sem síðar varð að lögum, kom til 2. umr. hinn 5. maí 1994, þá komst Ingibjörg Pálmadóttir, hæstv. núv. ráðherra, þáv. hv. þm., sem hafði skrifað undir meirihlutanefndarálit í félmn., þannig að orði, með leyfi forseta, að hún styddi þetta mál vegna þeirra breytinga sem hún vitnar í og hafi orðið á síðustu dögum og eins og hún segir orðrétt ,,að fagnefndir Alþingis fái að fjalla um hvern samning fyrir sig.``

Ég hef skoðað það sem framsögumaður meiri hluta sagði við þessa umræðu og þar kemur ekki fram neitt um þessa breytingu og hana er ekki að finna í lögunum þannig að hún hlýtur að hafa verið í nefndaráliti. En ég vildi gjarnan vita, ef ráðherrann gæti upplýst um þetta ákvæði, hvort það er tiltækt eða kunnugt honum eða hans fólki í ráðuneytinu, hvort það hafi orðið eitthvert samkomulag um það að fagnefndir Alþingis fengju að fjalla um hvern samning fyrir sig, þá samninga sem gerðir eru um reynslusveitarfélög eða hvort hér er átt við einstök verkefni því að það mun hafa verið krafa stjórnarandstöðunnar á sínum tíma að jafnvel hver einstakur verkefnissamningur kæmi fyrir þingið og væri ræddur hér og samþykktur. --- Nú gengur í salinn sá hv. þm. sem var einmitt framsögumaður meirihlutaálitsins á sínum tíma og vil ég því leyfa mér, herra forseti, að ítreka það sem ég sagði. Hv. þáv. þm. og núv. hæstv. ráðherra Ingibjörg Pálmadóttir skilyrti sinn stuðning við frv. á sínum tíma við 2. umr., en þar skrifaði hún upp á meirihlutaálit með fyrirvara, að fagnefndir Alþingis fengju að fjalla um hvern samning fyrir sig. Það væri áhugavert ef ráðherrann ekki hefur vitneskju um hvernig þetta var hugsað, ef hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kynni að útskýra svolítið nánar um við hvað var átt því að það væri þá mikilvægt að menn færu að gera sér grein fyrir því vegna þess að nú er verið að gera þessa samninga bæði við sveitarfélögin og um einstök verkefni. Þetta var það sem ég vildi reifa í upphafi. En auk þess sem ég sagði áðan um mismun íslenskra sveitarfélaga og þeirra sveitarfélaga sem við þekkjum til á hinum Norðurlöndunum og hafa verið að reyna fyrir sér með nýja stjórnsýsluhætti, þá er sá munur einnig á hjá okkur og á hinum Norðurlöndunum að mun stærri hluti þeirra verkefna sem snúa að umönnun fólks, ýmis nærverkefni, er á vettvangi ríkisstjórnar og í rauninni verkefni ríkisins, heldur en er annars staðar. Það er mun minni hluti hér sem er verkefni sveitarfélaga og eins og ég gat um áðan, er líklegt að meginástæða þess sé sú að sveitarfélögin hjá okkur eru mörg og fámenn. Þó svo að þau hafi þróað ýmiss konar samkomulag sín í milli til þess að bæta úr þeim vanköntum sem fylgja því að taka að sér stór verkefni, lítil sveitarfélög og fámenn, þá hefur það ekki fyllilega nægt þannig að nú er í gangi, eins og menn hafa orðið varir við, mikil hrina sameiningar, þ.e. menn eru víða um land að kanna kosti sameiningar og er ekki ólíklegt að hér eins og hefur gerst annars staðar reki flutningur grunnskólans á eftir fulltrúum sveitarfélaganna í því að skoða þau mál af meiri alvöru en áður hefur verið. Því að það er alveg ljóst að svo viðamikið verkefni sem allur rekstur grunnskólans er með því mannahaldi sem því fylgir vex mönnum eðlilega í augum í minnstu sveitarfélögunum.

En það sem ég vil helst gera að umræðuefni um frv. sjálft er 1. gr. það sem snýr að húsnæðismálum. Það er vegna þess að mér er ekki fyllilega ljóst hvert sú tilraun, sem þar er verið að opna á að gerð verði, á að leiða, þ.e. mér finnast ýmsir endar þar vera illa eða ekki hnýttir og verð þess vegna að fá að spyrja nokkurra spurninga sem ég annaðhvort fæ þá svör við núna ef hæstv. ráðherra hefur þau eða mun leita frekar eftir í hv. nefnd.

Eins og ég skil þessa grein, og hef lesið greinargerðina með henni, þá sýnist mér að hér sé verið að fitja upp á því nýmæli að veita einstaklingum félagslegt lán, þ.e. að einstaklingar geti fengið 90% lán, væntanlega 90% kaupverðs þeirrar íbúðar eða þess húss sem viðkomandi einstaklingur kýs að kaupa á almennum markaði. En í stað þess að hér sé búinn til nýr lánaflokkur Húsnæðisstofnunar sem lánar þessum einstaklingum beint 90% eða á kjörum félagslegs húsnæðiskerfis, þá á að nota sveitarfélögin sem millilið í þessum viðskiptum. Mér er ekki alveg ljóst af hverju þarf að blanda sveitarfélögunum í málið.

Nú er það yfirlýst markmið þessa frv. að það eigi að einfalda alla framkvæmd með tilheyrandi sparnaði og vitnað í það að umsvifin í kringum félagslegu eignaríbúðirnar hafi verið talsverð hjá húsnæðisnefndunum. Það kemur ekkert fram um það í frv. að húsnæðisnefndirnar eigi að hafa nokkur afskipti af þessum lánveitingum. Það kemur ekki fram að sveitarfélagið geti haft yfir höfuð nokkur áhrif á þessar lánveitingar. Það sem maður les út úr frv. er að viðkomandi einstaklingur getur fengið 90% lán frá sveitarfélaginu, ef Húsnæðisstofnun lánar sveitarfélaginu og sveitarfélag lánar honum, eða að hluta til beint frá Húsnæðisstofnun og sveitarfélag lánar að hluta. Þess vegna hlýt ég að endurtaka spurningu mína: Er ekki í rauninni verið að búa til nýjan lánaflokk? Er ekki verið að búa til nýjan lánaflokk þar sem verið er að lána einstaklingum beint á kjörum félagslega íbúðakerfisins? Og þarf að blanda sveitarfélögunum hérna inn í? Mér sýnist reyndar að það eina hlutverk sem sveitarfélögunum er ætlað í þessu kerfi sé það að bera ábyrgð á þeim viðskiptum sem kunna að verða með húsnæði undir þessum formerkjum. Nú eiga þau viðskipti að fara fram á markaði, þ.e. þessi einstaklingur á að kaupa sér sitt hús á markaði og hann á að sjá um það sjálfur og hann á aftur að sjá um söluna á því á markaði. Þarna sýnist mér að sveitarfélagið geti ekki komið að, en eigi að síður á sveitarfélagið að bera ábyrgð á þessum viðskiptum á markaðnum. Mér sýnist að sveitarfélögin eigi að bera ábyrgð á markaðnum og ég vil þá spyrja í framhaldi af því: Hvaða áhrif reikna menn með að þetta hafi á þessi viðskipti? Hvaða áhrif hefur það á viðskiptin á markaðnum ef seljandi í öðru tilfellinu og kaupandi í hinu vita að það er einhver þriðji aðili sem ber í raun ábyrgð á þessum viðskiptum? Viðkomandi einstaklingur ber ekki ábyrgðina. Það er sveitarfélagið sem situr uppi með skellinn ef mismunur verður á kaupverði og söluverði. Mér finnst þetta skipta verulegu máli og þetta veldur mér svolitlum áhyggjum. Það sem undirstrikar að þetta sé hugsað nákvæmlega svona, þ.e. að viðskiptin fara fram af aðilum án atbeina sveitarfélags sem ber þó ábyrgð á þeim viðskiptum, er það sem segir í athugasemd við 1. gr., með leyfi forseta:

[18:15]

,,Einnig skal hér bent á að líklegt er að tilraunaleið þessi geti, þegar fram í sækir, að einhverju leyti greitt fyrir því að sveitarfélag geti selt íbúð sem illa gekk að selja í gamla kerfinu. Þannig geti sveitarfélag selt einstaklingi, sem fengið hefur lán samkvæmt nýju leiðinni, íbúð sem sveitarfélag hefur áður keypt inn samkvæmt kaupskyldunni, enda hafi lán við Húsnæðisstofnun verið gert upp.``

Hér segir sem sagt að ef sveitarfélag, sem fengið hefur lán hjá Húsnæðisstofnun, lánar síðan einstaklingi 90% af kaupverði íbúðar, verði auðveldara að selja hana en í dag þegar viðkomandi getur líka fengið 90% af kaupverði íbúðar. Af hverju er það auðveldara? Það er væntanlega vegna þess að sveitarfélagið á að taka á sig einhver tiltekin afföll af íbúðinni þar til hún kemst á svokallað markaðsverð. Viðkomandi einstaklingur sér þá frekar hag í að kaupa hana en íbúð á markaðnum. Þannig sýnist mér að menn ætli sér að selja íbúðir eða gefa möguleika á því að selja út úr kerfinu íbúðir sem eru inni í félagslega kerfinu. Ég velti því fyrir mér, bæði í þessu tilfelli og eins í því tilfelli þar sem einstaklingur kaupir íbúð á frjálsum markaði og selur hana aftur. Hugsanlega verður söluverðið lægra en kaupverðið og þarna myndast ákveðinn mismunur. En í báðum tilfellum er gert ráð fyrir að sveitarfélag beri ábyrgð á slíku og taki á sig tapið á þessum viðskiptum. Ég hlýt að spyrja og hlýt að velta því fyrir mér af hverju þessi fjögur sveitarfélög sækjast beinlínis eftir þessari stöðu. Ég átta mig ekki alveg á því hvað þau sjá við þessa stöðu sem er eftirsóknarvert.

Ég átta mig heldur ekki á því af hverju þessi breyting, þ.e. sú breyting að viðskiptin fara fram á markaðnum og húsnæðisnefndin kemur ekki að málinu með sama hætti og áður, á að þýða að sveitarfélagið hafi meira ákvörðunarvald. Í rauninni kemur ekki fram hvar ákvörðunarvaldi sveitarfélagsins á að sjást stað nema þegar það er gert ábyrgt fyrir vangoldnum greiðslum eða gagnvart íbúðaverði sem þarf að lækka eða þegar einstaklingur ekki getur staðið í skilum.

Það eru þessar spurningar, herra forseti, sem hafa leitað á mig eftir að ég hef skoðað 1. gr. Ég hef borið þessar vangaveltur mínar undir aðila sem hefur unnið mikið með þetta kerfi og hann skilur þetta líka svona. Sé það rangt hlýtur að þurfa að umorða greinina þannig að hún skiljist. Eins og staðan er núna er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að það eina sem þarna er verið að breyta sé það að sveitarfélögin eigi að bera ábyrgð á málum sem þau geta haft sáralítil áhrif á og tæpast ætlast til að þau hafi mikil á hrif á. Það á réttlæta að þau geti breytt sínum samþykktum eða aðkomu að húsnæðismálum. Ég þarf sem sagt aðeins betri útskýringar áður en ég fæ skilið af hverju atbeina sveitarfélags er þarna þörf. Af hverju er ekki stofnaður sérstakur lánaflokkur á vegum Húsnæðisstofnunar þannig að Húsnæðisstofnun lánaði í öllum tilfellum þessum einstaklingum beint en ekki í gegnum sveitarfélag eða að hluta til beint og í gegnum sveitarfélag? Ég skil sem sagt ekki af hverju Húsnæðisstofnun lánar ekki beint. Nema eini tilgangurinn sé sá að gera sveitarfélögin ábyrg þannig að Húsnæðisstofnun hafi allt sitt á þurru.

Þetta eru spurningar sem mig langar að fá svör við.