Reynslusveitarfélög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 18:27:19 (4522)

1996-04-10 18:27:19# 120. lþ. 115.6 fundur 390. mál: #A reynslusveitarfélög# (félagslegar íbúðir, atvinnuleysistryggingar) frv. 78/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[18:27]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns kýs ég að koma inn á svar hæstv. félmrh. til hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Hún spurði um álit félmn. varðandi það að málið kæmi fyrir þingið. Í fyrsta lagi er alveg ljóst að það var ekki gengið út frá því að samningar kæmu til samþykktar hjá Alþingi. Það þótti allt of þungt í vöfum. En þetta þótti svo þýðingarmikið og stórt mál. Það var talið mikilvægt að þingið fylgdist með framvindu þess og að samningar væru kynntir á þingi um leið og þeir lægju fyrir. Ég verð satt best að segja að skoða hvernig þetta var orðað. Ég gerði það ekki fyrir þessa umræðu en ég held að ég hafi orðað það svo í félmn. að þegar samningum lyki mundi málið koma til kynningar í félmn. Við höfum litið svo á að samningarnir yrðu kynntir þar alveg óháð þessari skýrslu. Hvort þetta er vegna þess að þannig hefur verið rætt um málið í félmn. eða ekki, er þetta hlutur sem ég hef gengið út frá. Við verðum þá að skoða það og eins verðum við að kanna, ef ekki er ljóst að þannig hafi mál verið sett fram í þinginu, hvort ráðuneytið er á móti því að samningarnir komi til kynningar. Það er sannarlega allra hagur, ráðherra, sveitarfélaganna, þingsins og félmn. að góð samvinna sé um framvindu þessa máls. Við ætlum að nýta reynsluna af því hvernig til tekst hjá sveitarfélögunum með þau verkefni sem reynslusveitarfélögin fá. Við ætlum að nýta hana til hugsanlegra lagabreytinga síðar meir og taka má mið af henni við stórar stjórnsýslubreytingar. Þess vegna er ákaflega mikils virði að félmn. og þingið hafi góða þekkingu á því sem verið er að gera.

Skýrslugerðin, sem gerð er tillaga um, er einmitt ætluð til þess að þingið fylgist betur með hvernig til tekst. Þetta finnt mér mikilvægt. Hafi þetta ekki verið ljóst, held ég að við í félmn. og ráðuneytið, og ég varpa þeirri ósk til ráðherra að við skoðum það að þannig verði farið með málið. Ég hef gengið út frá því að þannig komi mál til kynningar.

[18:30]

Varðandi það mál sem hér er á dagskrá vil ég segja, virðulegi forseti, að ég hef verið alveg staðráðin í því frá upphafi að vera jákvæð gagnvart öllum þeim verkefnum sem sveitarfélögin fá til sín og það verði mjög mikilvægt eins og ég var að lýsa hér að kynna sér reynsluna af því og að í stórum og e.t.v. umdeildum málum sé þetta leiðin til að átta sig á í hve ríkum mæli ríkið geti flutt verkefni til sveitarfélaga. Ég hef alltaf haldið því fram úr þessum ræðustól að sveitarfélögin séu almennt mjög bær til að gera betur en ríkið í flestum þeim verkefnum sem oft hafa --- illa þýtt --- verið kölluð nærverkefnin í stjórnsýslunni. Það er afar áhugavert að fá að fylgjast með því hvernig tekst til og það er mjög áhugavert hve mörg sveitarfélög óskuðu eftir verkefnum og það er líka mjög áhugavert hve fjölbreytt verkefnin eru og hvað var óskað eftir ólíkum viðfangsefnum. Þetta held ég að sé sú óskastaða sem við, sem unnum að því að þessi leið yrði farin með sveitarfélög, sáum að gæti komið upp. Þó að málin hafi gengið aðeins hægar en búist var við í upphafi eigum við ekki að hengja okkur í það en líta á einmitt alla þessa góðu kosti. Ég er alveg sannfærð um að takist það vel til þá verði þessi litla byrjun til þess að það verði stórfelldar breytingar í stjórnsýslunni frá ríki til sveitarfélaga.

En svo erum við með þetta frv. Vissulega ætla ég að halda mig við það að vera jákvæð gagnvart þeim verkefnum sem sveitarfélögin fá og alls ekki að hafna neinu fyrir fram enda svo heppin að vera í nefndinni sem fær verkefnin til umfjöllunar, þ.e. fylgist með framvindu þeirra. Þetta frv. kemur inn á tvö viðfangsefni, þ.e. lögin um atvinnuleysistryggingar og lögin um Húsnæðisstofnun hvað varðar félagslegar íbúðir. Ég ætla að víkja fyrst að Atvinnuleysistryggingasjóðnum og koma síðar að Húsnæðisstofnun en þar finnst mér að þurfi aðeins að staldra við og að minnsta kosti taka undir þær spurningar sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir vék að vegna þess að þar er líka í raun og veru farið inn á miklar grundvallarbreytingar sem ég ætla að koma að síðar.

En fyrst að breytingunni á lögum um atvinnuleysistryggingar. Mér finnst afar jákvætt að sveitarfélögin telji með þessari breytingu að þau hafi möguleika á að bjóða atvinnulausum að stunda nám í lengri tíma en átta vikur og að það skapist tækifæri og svigrúm til að skipuleggja námsúrræði fyrir atvinnulausa sem auki raunverulega starfsmöguleika þeirra. Ég hef sagt að við sem lendum í fyrsta sinn í því að búa við langtímaatvinnuleysi eigum að hafa eitt að leiðarljósi og það á að vera: Enginn óvirkur á bótum. Í því á hins vegar ekki að felast valdbeiting. Í því á ekki að felast að sá sem verður atvinnulaus lendi í því að vera skikkaður í eitthvað eða sé orðinn sú annars flokks persóna að viðkomandi sé settur til einhvers konar starfa vegna þess að hann á að vinna fyrir þjóð sína heldur felst í því leiðarljósi að ef ekki er um atvinnu að ræða og ef ekki er unnt að skapa atvinnutækifæri með ýmsum úrræðum --- og þá legg ég áherslu á að skapa þau þannig að ávallt sé reisn einstaklingsins í fyrirrúmi --- þá á að skipuleggja fræðslu og aftur fræðslu. Þess vegna finnst mér að þetta sjónarmið sé gott og mun styðja það. Hins vegar er sagt í greinargerðinni að það séu uppi hugmyndir um að sveitarfélögin bjóði upp á slíkt nám í samvinnu við framhaldsskóla en að það sé ljóst að það verði að gæta þess að slíkt nám sé ekki í samkeppni við almennt lánshæft nám og því verði það skipulagt með þarfir hvers og eins í huga.

Vikið er að því að 80% atvinnulausra sé á aldrinum 16--25 ára. Stjórnarliðar hafa talið að það eigi bara að stýra málum þannig að unga fólkið fari inn í framhaldsskólana. En þá gleymist eitt stórt atriði en það er að mjög stór hópur flosnar upp úr skóla. Hann finnur sig ekki í framhaldsskólanum. Það er ekki vegna þess að þeir sem kenna í framhaldsskólunum séu endilega slakir. Þetta gerist í framhaldsskólum um allt land. Þetta er vegna þess að þetta unga fólk var ekki í stakk búið, það er eitthvað varðandi framhaldsskólann, eitthvað varðandi kerfið sem gerir það að verkum að þetta unga fólk sem flosnar upp, finnur sig ekki. Það er mjög alvarlegt mál þegar ungt fólk er komið út á vinnumarkað ótímabært og með mjög fáa möguleika fram undan. Það er staðreynd að margt þetta unga fólk hefur fundið tækifæri sín í gegnum starfstengt nám, í gegnum starfsmenntun í atvinnulífinu, sem er mjög gott mál og ráðherra þekkir vel til, og í gegnum þau úrræði sem hefur verið boðið upp á í gegnum verkalýðsfélög, í gegnum MFA, í gegnum þá fræðslu sem þar er. Það nám sem hefur verið boðið upp á fyrir ungt fólk í Tómstundaskólanum, sem verkefni frá MFA, hefur skapað ótrúlega möguleika og við í félmn. höfum farið og kynnt okkur þessa starfsemi að hluta. Við eigum eftir að gera það betur og ég vil þess vegna brýna ráðherrann með að ef sveitarfélögin vilja leita leiða fyrir atvinnulaust ungt fólk sé ekki verið að festa sig við að það verði að vera í gegnum samvinnu framhaldsskólanna, að það sé víðsýni í þeirri leið vegna þess að það á að nota þau úrræði sem búið er að ná árangri með og það er óumdeilt að þarna hefur verið náð árangri. Þetta tel ég að við í félmn. eigum að skoða mjög vel og mun leggja það sem ég get í það.

Ég ætla þá, virðulegi forseti, að víkja að hinum þættinum sem ég hef meiri áhyggjur af og það eru húsnæðismálin. Ég ætla að leyfa mér að vísa aðeins í setningu úr viðtali í sjónvarpinu fyrir skömmu þar sem talað var við formann húsnæðisnefndar í Reykjanesbæ, Skúla Þ. Skúlason, þar sem hann endar það viðtal á að segja eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Umræðan um félagslega íbúðakerfið hefur verið alveg skelfileg. Við skulum minnast þess að þetta kerfi er búið að þjóna landsmönnum síðan 1929. Það eru 10.000 fjölskyldur í landinu sem njóta öryggis í félagslega íbúðakerfinu en umræðan, óvönduð umræða um eignaupptöku og ég veit ekki hvað annað hefur náttúrlega hrætt þessar fjölskyldur og það er verið að skapa mjög óþarfa vandamálaumræðu því hún á sér ekki alls staðar stað.`` Ég nefni þetta vegna þess að ef upplýsingar mínar eru réttar þá er þetta samflokksmaður ráðherrans og ég held að það sé mjög mikilvægt að fara að orðum þessa ágæta manns vegna þess að við eigum að leysa vandann sem hefur komið upp í félagslega kerfinu. Við eigum líka að horfa á hvernig hann hefur orðið til og við eigum ekki að kenna kerfinu um það sem er vandi sem sveitarfélögin hafa skapað þó að ég taki undir að hann verði að leysa. Þegar við skoðum, virðulegi forseti, hvernig íbúðir skiptast og auðar íbúðir skiptast og hlutfall skiptist á milli svæða og kaupstaða, þá sjáum við alveg hversu mikill mismunur þetta er og að sum sveitarfélög hafa verið ansi frek til fjárins að gera kröfur um að fá úthlutað og að byggja upp og oft frekar með annarra þarfir en einstaklinganna í huga. Þessi sveitarfélög eru núna að lenda í vanda af því að þau hafa ekki farið stíft eftir þeirri kröfu sem er í lögunum að það skuli gera könnun um þörfina fyrir félagslegar íbúðir, þ.e. hve margir þurfa, hvað áætlað er að þurfi að byggja mikið til þess að sinna þessari þörf því að við vitum um gegnumstreymið og stundum hefur e.t.v. ekki vantað íbúð nema fyrir einn til þess að það sé byggt. En nóg um það.

Í fyrra í febrúar var í mikilli samvinnu hér í þingsal breytt lögunum. Það mál fór hratt í gegnum þingið eins og gjarnan verður þegar þingmenn verða samhuga í því að gera góðar breytingar. Þá var varðandi félagslegar íbúðir aukin ábyrgð sveitarfélaga og sjálfsforræði og tekið á ýmsum málum sem talinn var vandi sveitarfélaganna eftir störf nefndar sem hafði fjallað þar um. Þá var einmitt opnað á það að heimilt væri að selja félagslegar eignaríbúðir á markaði ef þær stæðu auðar og ef þær hentuðu ekki sem félagslegar íbúðir. Meira að segja var ákveðið að veita sérstök lán til framkvæmdaraðila sem yrði greitt síðar þegar íbúð yrði seld. Þess vegna, virðulegi forseti, beini ég því til hæstv. ráðherra hvort þurft hafi að gera svo miklar breytingar eins og hér er lagt til til að heimila sölu út úr kerfinu.

Til viðbótar því sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir nefndi bendi ég á að einn vandi húsnæðisnefnda og sveitarfélaganna hefur verið sá að reynt hefur verið að hjálpa fólki til sjálfshjálpar með að úthluta því eignaríbúðum, ekki síst meðan það var kannski eini kosturinn. Síðan hefur þetta fólk e.t.v. fengið 100% lán, aðrir erfiðleikar hafa steðjað að eða eitthvað gert það að verkum að fólk hefur misst íbúðina. Það er vissulega vandi sem það sveitarfélag hefur axlað vegna þess að við þekkjum það að ef fólk verður húsnæðislaust þá hefur sveitarfélagið leyst þar úr málum. Þegar miklar skuldir hafa verið gerðar upp og fólk orðið gjaldþrota hefur tapið lent á Byggingarsjóði verkamanna. Hér er verið að leggja til mikla grundvallarbreytingu hvað það varðar að sveitarfélag geti selt einstaklingi íbúð og jafnvel selt sveitarfélagi íbúð sem það á, hefur áður byggt í kerfinu og á markaðsverði, þá muni sveitarfélagið bera kostnaðinn. Það stendur hér í greinargerðinni:

,,Þannig geti sveitarfélag selt einstaklingi, sem fengið hefur lán samkvæmt nýju leiðinni, íbúð sem sveitarfélagið hefur áður keypt inn samkvæmt kaupskyldunni, enda hafi lán við Húsnæðisstofnun verið gerð upp. Þar sem einstaklingurinn kaupir á markaðsverði getur svo farið, í þeim sveitarfélögum þar sem markaðsverð er lægra en innkaupsverðið samkvæmt kaupskylduákvæðum, að sveitarfélag hafi af þessu kostnað sem nemi þessum mismun. Svo mun vera ástatt í a.m.k. þremur af þeim sveitarfélögum sem hyggjast fara þessa tilraunaleið. Auk þess eru kostirnir fyrir einstaklinginn þeir að geta valið sér íbúð og e.t.v. endurbætt íbúðina sjálfur smám saman og lækkað skuldabyrði sína því enn frekar.``

Þar með erum við komin að hinu grundvallaratriðinu sem ég minntist á í upphafi. Það var grundvallaratriði með lögunum frá 1929 um félagslegar íbúðir eða verkamannabústöðum, sem það hét þá, að láglaunafólk kæmist í mannsæmandi íbúðir sem það réði við af launum sínum án þess að basla, án þess að þurfa að vera í einhverju ókláruðu eða lélegu af því vonin hefði verið til að geta gert betur og þess vegna hefur alla tíð verið lögð áhersla á að fólk sem fengi úthlutað íbúðum í félagslega kerfinu færi inn í fullstandsettar íbúðir. Þá er ég ekki að segja flottar eða fínar, fullstandsettar í góðu lagi og það er til fyrirmyndar hvernig mörg sveitarfélögin hafa staðið að þeim málum og þegar fólk fer út úr íbúðinni þá skipti það ekki máli hvernig viðkomandi skildi við hana. Íbúðin er í góðu ásigkomulagi þegar hún fer til næsta manns. Þess vegna hræðist ég það að hér sé opnað á það að með félagslegu láni geti kaupandi, sem telur að hann hafi ekki ráð á miklu, langar til að hafa meiri umráð yfir íbúðinni, vill taka lítið lán, fer kannski inn í lélega íbúð eða ókláraða íbúð, ætlar að vinna sjálfur og minnka skuldabyrði sína, stendur kannski upp eftir að hafa farið út í einhverjar breytingar sem urðu dýrari þannig að hann ræður ekki við neitt og missir íbúðina. Og hvað þá? Jú, þá er vandinn orðinn sveitarfélagsins.

[18:45]

Virðulegi forseti. Ég minni ráðherrann á að það er svo slæmt að á Ísafirði eru til íbúðir, þriggja herbergja íbúðir í sambýlishúsi, sem svo mikill fjármagnskostnaður kom á við byggingu að kostnaður og kaupverð einstaklings eru 11 millj. Við sjáum hvað gerist ef lausnin fyrir sveitarfélögin á að vera sú að selja óhagkvæmar íbúðir út úr kerfinu á markaðsverði og bera þar með kostnaðinn. Sjáið þið ekki hvert við erum að fara? Ég veit að Ísafjörður er ekki eitt af þessum tilraunasveitarfélögum. En það hlýtur að felast í tilrauninni að fara nýjar leiðir, leiðir sem e.t.v. verður hægt að fara síðar hjá öðrum sveitarfélögum. Þess vegna læt ég í ljósi áhyggjur yfir þessu ákvæði, en ég ætla ekki að ganga lengra. Ég mun skoða þetta mál mjög vel í nefnd og kalla eftir viðbrögðum sveitarfélaga og annarra um þýðingu og afleiðingar þessa.

Í lokin, virðulegi forseti. Ég veit að innan ASÍ hefur verið umræða um það ástand sem oft hefur verið málað mjög svart og víða er vandamál en annars staðar alls ekkert vandamál. Það hefur verið talað um að kerfið sé þunglamalegt og á því sé ríkisstimpill. Í stað þess að menn fari út í að skoða hvað hægt er að gera í stjórnsýslunni í kerfinu er farin sú leið að fara bara út úr kerfinu og lána beint. Ég veit að hugmynd hefur verið uppi um félagsleg íbúðarlán sem verði nýr lánaflokkur, fari til einstaklings og verði ekki eins og kaupskyldan. Valið er einstaklingsins en ákveðin skilyrði sem húsnæðisnefndir setja og varða ástand íbúða og lánið flytjast e.t.v. áfram. Í sambandi við húsnæðismálin er nefndur sá möguleiki, og þetta hlýt ég að flétta saman, að selja íbúð til einstaklinga sem eru yfir tekjumörkum þegar íbúðir losna á staðnum. Ég veit að það er í frv. sem rætt verður á eftir, en þá á það ekki að varða vextina. Það hlýtur að vera að reynslusveitarfélag, og það er minn punktur, geti nýtt sér það ákvæði laganna sem gildir fyrir alla þannig að breytingar sem gerðar verða á lögunum um Húsnæðisstofnun og eru í frv. sem verður rætt á eftir komi til afnota fyrir sveitarfélögin sem líka eru reynslusveitarfélög. Hvað þýðir þetta frelsi með úthlutun, lán og vexti sem eiga ekki að breytast þótt tekjur segja annað? Ég hef áhyggjur af því hvað hægt er að lesa út úr þessum frumvörpum, virðulegi forseti, og mun leggja mikla áherslu á að það verði skoðað mjög vel í nefnd.