Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 11:23:22 (4529)

1996-04-11 11:23:22# 120. lþ. 116.4 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[11:23]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það vekur óneitanlega furðu að skoða þetta frv. sem hér liggur fyrir, ekki síst með tilliti til gildandi lagareglna. Og eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir benti réttilega á áðan, þá er það frv. sem hér liggur fyrir í raun og veru algjörlega tilgangslaust. Það felur ekki í sér nokkra einustu breytingu sem skiptir máli og allra síst það mikla breytingu að ástæða sé til þess að setja fram sérstakt lagafrv. vegna hennar.

Hv. þm. benti á að 1. og 2. mgr. í greininni sem fjallaði um þetta áður sé í raun og veru óbreytt og sömuleiðis sú síðasta. Það er bætt inn ákvæði sem segir að telji innheimtumaður að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi gjaldanda við skuldheimtumenn skuli hann gefa fjármálaráðherra skýrslu um málavöxtu o.s.frv., og að ákveðnum skilyrðum þurfi að vera fullnægt til þess að heimilt sé að samþykkja nauðasamning. Þarna virðist vera meginástæðan fyrir því að frv. er lagt fram, að setja inn ákvæðið um nauðasamning, um það að heimilt sé að samþykkja nauðasamning.

Á það var líka bent réttilega áðan að eins og greinin er í dag hefur þetta verið heimilt. Það er ekkert því til fyrirstöðu að þetta sé gert. Ég vil því taka undir það sem hér hefur komið fram að þetta frv. ásamt þeim frumvörpum sem hér hafa komið fram áður og eiga að leysa greiðsluvanda heimilanna eru algjör friðþægingarfrumvörp og ekkert annað, lögð fram í þeim tilgangi að klúóra pínulítið yfir öll stóru kosningaloforðin sem Framsfl. fyrst og fremst gaf fyrir kosningar og áttu að leysa vanda heimilanna í landinu. Þau hafa síðan komið hér fram hvert á fætur öðru og eru beinlínis hlægileg þegar maður fer að skoða efnislegt innihald þeirra með tilliti til þeirra loforða sem voru gefin.

Í athugasemdum með frv. er vísað til greiðsluvanda heimilanna og stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um það efni, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Stuðla verður að því að einstaklingar sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum, hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum.`` Þar segir síðan í framhaldi: ,,Þetta frumvarp miðar að því að ráða bót á þessum vanda, en samhliða er í sama skyni lagt fram af dómsmálaráðherra frumvarp til laga um réttaraðstoð við einstaklinga til að leita nauðasamninga og af félagsmálaráðherra frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga.``

Það segir að þetta sé fyrst og fremst tilgangur þessara frumvarpa, að leysa greiðsluvanda heimilanna, það sé verið að uppfylla þau loforð. Þessi frumvörp eiga það sameiginlegt að vera eingöngu sýndarmennskufrumvörp, eins og hér hefur komið fram, til þess að uppfylla gefin loforð fyrir kosningar sem ekki virðast vera efni til að efna og ekki virðist hafa verið innstæða til fyrir.

Á það var bent í umræðunum fyrr í vetur, þegar hin málin tvö sem áttu að bjarga heimilunum í landinu voru rædd, hvers konar blekkingaleikur var þar á ferðinni. Loforðin um greiðsluaðlögun, um félagslega gjörgæslu þeirra sem hafa átt í fjárhagslegum erfiðleikum, m.a. vegna klúðurslegra aðferða stjórnvalda við sífelldar breytingar á lögum og reglum vegna húsnæðiskaupa, breyttust heldur betur í meðförum ríkisstjórnarinnar. Greiðsluaðlögunin á að vernda þessi fórnarlömb kerfisins fyrir því að lenda í hakkavél hins opinbera innheimtukerfis. Hún breytist í heimild einstaklinga til þess að leita nauðasamninga. Og hvað þýðir það? Það þýðir að einstaklingunum er heimilt að semja við sína lánardrottna um mögulega niðurfellingu og frestun á greiðslum. En ef hins vegar skuldarinn getur ekki staðið við þær skuldbindingar sem oft og tíðum gerist t.d. þegar fólk missir atvinnu, þá fer þessi skuldari eins og allir aðrir inn í hina almennu hakkavél innheimtukerfisins sem ég vil kalla svo og þar af leiðandi er ekki um eitt eða neitt félagslegt úrræði að ræða með nauðasamningunum eins og loforðin sem gáfu tilefni til með greiðsluaðlögun. Það er grundvallarmunur á þessu tvennu og það er beinlínis hlægilegt að ætla að efna loforð um greiðsluaðlögun með því að veita einstaklingum heimild til þess að leita nauðasamninga. Það er allt annar hlutur. Ef nauðasamningurinn fellur úr gildi þá raknar við réttur lánardrottna skuldarans til að krefja hann um efndir samningskrafna eins og samningurinn hefði aldrei verið gerður. Það er um grundvallarmun að ræða á þessum tveimur úrræðum og þar af leiðandi eru þau á engan hátt sambærileg.

Hver eru rökin fyrir því að ríkisstjórnin getur ekki uppfyllt loforð Framsfl. um greiðsluaðlögun? Jú, rökin eru þau að hér séu séríslenskar aðstæður, það séu sérstakar aðstæður hér á Íslandi. Úrræði af þessu tagi þyki ekki henta íslenskum aðstæðum. Þá er einnig bætt við að greiðsluaðlögun yrði kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð og legði miklar byrðar á þau stjórnvöld sem færu með þetta verkefni. Ég spyr framsóknarmenn að því hvort þeir hafi virkilega haldið það þegar þeir voru að lofa greiðsluaðlögun fyrir kosningar að hún mundi ekki kosta neitt? Stóð til að það ætti koma hér á kerfi greiðsluaðlögunar sem væri ókeypis? Hvernig í ósköpunum dettur mönnum slíkt í hug?

Í umræðunum á sínum tíma þegar fjallað var um greiðsluaðlögunina eða um nauðasamningaúrræðið var því aldrei svarað af hæstv. ráðherra hverjar þessar séríslensku aðstæður væru. Það er einfaldlega vegna þess að það eru engar séríslenskar aðstæður sem skipta mestu máli. Þetta er spurning um pólitískan vilja og það er alveg greinilegt að Framsfl. hefur verið beygður í þessu máli og fær ekki framgengt sínum kosningaloforðum. Það er svo einfalt mál.

[11:30]

Það er vissulega rétt sem hér hefur komið fram að önnur eins sýndarmennska hefur varla sést í pólitík á Íslandi eins og sú sem hér birtist og Framsfl. hefur orðið ber að í tengslum við loforðin um lausnir á greiðsluvanda heimilanna. Enda hafa hv. þingmenn flokksins varla látið sjá sig í þingsölum og ég verð að segja eins og er að ég mundi líka fela mig ef ég væri staðin að slíkri sýndarmennsku. Það er eins og kjósendur hafi líka loksins áttað sig á blekkingaleiknum. Það sýna fylgistölur Framsfl. í síðustu skoðanakönnunum þar sem um línulegt fylgistap er að ræða. Ég held að það sýni fyrst og fremst að það er ekki endalaust hægt að lofa og bjóða gull og græna skóga fyrir kosningar en þegar kemur að efndunum er komið með einhver sýndarmennskufrumvörp. Það er beinlínis fyrir neðan virðingu Alþingis að leggja fram frv. eins og þetta sem hefur nákvæmlega engan tilgang annan en þann að reyna að bjarga öðrum aðila stjórnarflokkanna fyrir horn vegna loforða sem hann gaf fyrir kosningar.