Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 11:31:35 (4530)

1996-04-11 11:31:35# 120. lþ. 116.4 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[11:31]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það hefur liðið nokkur tími á milli fyrri hluta þessarar 1. umr. og síðari hlutans sem fer hér fram í dag. Það gerir umræðuna kannski nokkuð erfiðari enda eru ekki allir viðstaddir sem þá tóku til máls. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurðist fyrir um það á sínum tíma hvað fælist í nauðasamningum einstaklinga. Því er til að svara að þeir eru auðvitað sams konar réttarúrræði og fyrirtæki hafa notað. Þetta gengur út á það að lagt er fram frv. sem bústjóri stendur að. Frv. gengur yfirleitt út á að lækka skuldirnar um ákveðna prósentu þar sem höfuðstóllinn er lækkaður. Til þess að frv. sé samþykkt eru sett tvö skilyrði, ef ég man rétt. Það þekkja kannski aðrir lögfræðingar í salnum betur en ég. Annars vegar að ákveðinn fjöldi lánardrottna samþykki og hins vegar að sá hópur sem stendur að samþykktinni þurfi að eiga ákveðið hlutfall af skuldum eða lánum viðkomandi bús. Þetta eru meginreglurnar og ástæðan fyrir því að einstaklingar hafa lítið notað þetta réttarúrræði er að sjálfsögðu að þetta kostar ákveðna fjármuni. Þeir hafa yfirleitt talið að það svari ekki kostnaði að leita eftir slíku úrræði og þá hefur gjaldþrot víðast blasað við.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir og reyndar fleiri hv. þingmenn í kjölfar ræðu hennar gerðu að umtalsefni að það frv. sem hér er til umræðu hefði í raun og veru enga þýðingu. Allt sem í frv. væri væri heimilt að gera í dag og í raun, eins og hv. þm. sagði, væri hér um þrengingu að ræða ef eitthvað er. Af þessu tilefni er ástæða til að rifja upp forsendur þess að 2. mgr. 111. gr. laganna var sett á sínum tíma. Vorið 1989 samþykkti Alþingi frv. Kjartans Jóhannssonar, þáv. þingmanns, um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem bætt var við 111. gr. sem nú er 2. mgr. þessarar greinar. Greinargerðin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Fyrir Alþingi liggur vitneskja um að fjármálaráðherrar hafa tekið sér vald sem þeir ekki hafa að lögum til að leyfa einstökum aðilum að greiða háar fjárhæðir opinberra gjalda með skuldabréfum til lengri eða skemmri tíma og með mismunandi kjörum að öðru leyti eftir geðþótta ráðherra.

Með þessu hefur verið brotið gegn sjálfri meginstefnu allrar skattalöggjafar að allir þegnar þjóðfélagsins, sem eins stendur á um, hljóti sömu meðferð og þá eingöngu samkvæmt lögum eins og kveðið er á um í stjórnarskrá lýðveldisins.

Með vitneskju þessa getur Alþingi ekki annað en tekið þetta mál til meðferðar með því að setja í lög skýr ákvæði um innheimtu á opinberum gjöldum og hvernig bregðast megi við þegar um vanskil er að ræða.``

Öllum þeim sem þá sátu á þingi var ljóst af hverju frv. var samþykkt. Það hafði gerst í desembermánuði 1988 að þáv. fjmrh., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, flutti skýrslu í þinginu, ef ég man rétt, þar sem fram kom að hann hefði gert slíka samninga og það var efast um að þeir stæðust lög. Frægasta umræðuefnið á þeim tíma var sjálfsagt samningurinn vegna Svarts á hvítu og vegna Nútímans. Þessi tvö mál urðu talsverð blaðamál og síðan endaði málið með því að þessi tillaga Kjartans var samþykkt en hún hafði verið flutt árið áður.

Það er rétt að það er ekki bannað berum orðum í skattalögum að taka þátt í nauðasamningum. Á hinn bóginn vek ég athygli á því að í 111. gr. eins og henni var breytt 1989 er kveðið á um að það skuli vera stefna við skattheimtu að allir gjaldendur sem eins er ástatt um hljóti sams konar meðferð. Þetta var forsendan í breytingunni. M.a. með vísan til þessarar stefnu hefur fjmrn. haft þá stefnu að synja þátttöku í nauðasamningum og þessi afstaða var einnig í tíð forvera míns í starfi eða a.m.k. frá því að lögin tóku gildi 1989. Nú vill svo til að forveri minn í starfi er fráfarandi formaður Alþb. úr sama flokki og hv. síðasti ræðumaður. Þáverandi aðstoðarmaður þess ráðherra var Svanfríður Jónasdóttir þannig að henni hlaut að vera þetta betur kunnugt en nokkrum öðrum hv. þm.

Þetta byggir á því að menn geti sagt með góðri samvisku að eins sé farið með alla. Hin leiðin væri sú að samþykkja alla nauðasamninga eða láta geðþótta ráðherra ráða því hvenær nauðasamningur er gerður. Eðli málsins samkvæmt gæti það aldrei gengið að samþykkja allar nauðasamningaumleitanir. Það fæli í sér að menn léku sér að því að greiða ekki skattinn í þeirri vissu að fá nauðasamning við ríkið af því að sú regla yrði þá algild. Hin leiðin, að láta geðþóttann ráða, er einfaldlega ekki boðleg nú á tímum opinnar stjórnsýslu og þeirrar sanngjörnu kröfu um að allir séu jafnir gagnvart stjórnvöldum, þar með talið gagnvart skattheimtumönnum. Með vísan til þessa er það mat mitt að nauðsynlegt sé að skýr lagaheimild verði sett um það hvernig standa eigi að afgreiðslu á nauðasamningsmálunum ef á annað borð á að breyta frá þeirri stefnu að taka ekki þátt í slíkum samningum sem fjmrn. hefur ekki talið sér fært og það frá tímum hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Frv. felur í sér sanngjarnar og eðlilegar reglur um hvernig staðið skuli að þessu. Ef menn vilja láta geðþótta fjmrh. hafa meira vægi en kveðið er á um í þessu frv. er það þeirra mál. Ég ítreka hversu mikilvægt það er fyrir hinn almenna skattgreiðanda að hann hafi þá tryggingu að allir séu jafnir fyrir lögunum. Í þessu frv. er reynt að veita þá tryggingu. Tryggingin felst í því að settar verði hlutlægar reglur um hvernig skuli staðið að afstöðu skattheimtumanna til nauðasamningaumleitana. Sérstaklega er kveðið á um atbeina Ríkisendurskoðunar sem auk þess að veita umsögn um nauðasamningaerindi mun árlega taka saman skýrslu fyrir þingið um afgreiðslu slíkra erinda.

Þetta er mergurinn málsins og skýrir vonandi fyrir hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls um þetta efnisatriði hvernig á þessari breytingu stendur.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði réttilega að í fjórum tilvikum af fimm kæmu gjaldþrotabeiðnir frá fulltrúum ríkissjóðs. Og það er alveg rétt hjá honum að skuldir heimilanna hafa aukist á undanförnum árum. Ég bendi honum á, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að meginástæðan fyrir þeirri skuldaaukningu er sú að ríkisstjórnir hafa á undanförnum árum breytt húsnæðislánakerfinu og fyrir vikið hefur skuldsetning innan þess kerfis orðið miklu meiri en áður. Nú er meira að segja svo komið að húsbréfaskuldir eru stærri stokkur en skuldir vegna spariskírteina ríkissjóðs hér á landi og ríkisverðbréfa. Það er til umhugsunar fyrir fólk sem ræðir um þetta kerfi hvernig þróunin hefur verið, en einhvern tíma kemur vonandi að því að þessi markaður mettast.

Ég ætla ekki að taka þátt í leikfimi hv. þingmanna um það hvað sagt var fyrir kosningar eða eftir kosningar. Ég bendi einungis á að ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson telur að ég hafi ráðherra Framsfl. í vasanum, eins og helst var á honum að skilja, þá gildir nákvæmlega það sama um ráðherra Alþfl. í fyrri ríkisstjórn. Þar gilda nákvæmlega sömu rökin vegna þess að á þeim tíma hafði Alþfl. það á sinni stefnuskrá að fara í svokallaða greiðsluaðlögun. En ávallt þegar málið var skoðað, bæði í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og eins í tíð núv. ríkisstjórnar, kom í ljós að þetta úrræði er ekki eins auðvelt og það sýnist. Ég skora á hv. þingmenn þegar kemur að nefndarstörfum í hv. nefnd að kanna mjög rækilega hvernig þetta er gert á Norðurlöndunum. Þá kemur í ljós hvaða vandamál eru uppi þegar greiðsluaðlögunin getur ekki náð til veðskulda sem eru kannski að stærstum hluta til skuldir sem fólk skuldar í sínum búskap.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir flutti ræðu og sagði að þetta frv. væri tilgangslaust. Ég hef sýnt fram á að svo er alls ekki. Ég hef lýst því nákvæmlega af hverju það er og vona ég að menn hafi tekið eftir því. Til viðbótar skal þess getið að til þess að tryggja að menn hafi aðgang að nauðasamningsleiðinni er gert ráð fyrir því í frv. dómsmrh. að það geti fengist styrkur frá ríkinu til þess að fara þá leið með svipuðum hætti og nú tíðkast þegar um gjafsókn er að ræða af hálfu ríkisins. Um það verður að sækja og það verður að meta hvort efni séu til þess. En það ætti að opna leið fyrir nauðasamninga einstaklinga.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, geta þess að það er mjög ósanngjarnt að ráðast á félmrh. og Framsfl. í þessu máli. Það hefur gleymst að geta þess af hálfu hv. stjórnarandstæðinga að félmrh. hefur, auk þess að beita sér fyrir flutningi þessarar þriggja frumvarpa sem nú hafa verið rædd á Alþingi, tekið að sér að efna til víðtæks samstarfs við banka, sparisjóði, húsnæðislánastofnanir og aðra þá sem eiga útistandandi lán hjá einstaklingum og reynt að samræma aðgerðir sem eiga sér stað á hverjum degi í þessum stofnunum til þess að létta á greiðslubyrði einstaklinganna. Þetta þarf að koma fram. Að þessu hefur verið unnið sem aldrei fyrr og það er þannig í þessum málum að það er ekki eingöngu verið að fást við þau í einhverjum lögum sem verið er að setja á Alþingi á hverjum tíma. Þetta eru hlutir sem eru að gerast á hverjum einasta degi í bankakerfinu og húsnæðislánakerfinu. Þeir sem hafa lent í slíkum erfiðleikum vita að það er affarasælast og auðveldast þegar um er að ræða bein samskipti og beina samninga á milli skuldarans og lánardrottinsins.

Ég vona, virðulegi forseti, að það sem ég hef sagt hafi a.m.k. skýrt hvers vegna nauðsynlegt er að flytja þetta frv. og breyta lögunum til þess að fjmrn. geti beitt þeim úrræðum sem hér er verið að benda á. Ég er ekkert að undrast að um þetta sé spurt en mér fannst að gefnu tilefni eðlilegast að lýsa því nákvæmlega eins og ég hef gert í ræðu minni.