Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 11:47:30 (4532)

1996-04-11 11:47:30# 120. lþ. 116.4 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[11:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyndi að skýra þetta í ræðu minni. Túlkunin og framkvæmd laganna er frá þeim tíma sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir var aðstoðarmaður fjmrh. í ráðuneytinu. Það er óumdeilanlegt. Reglurnar urðu til á valdaferli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að það eru margoft gerðir samningar um greiðslur á skuldum og um það gilda nokkuð fastar reglur af hálfu ráðuneytisins. Meira að segja gæti það hafa gerst einhvern tíma að um nauðasamningaþátttöku hefði verið að ræða þótt einstaklingur ætti í hlut. En til þess hefur ekki komið einfaldlega vegna þess að einstaklingar hafa ekki notað þá aðferð. Þeir hafa ekki talið sig hafa efni á því.

Varðandi fyrirtækin hélt ég líka að hv. þm. vissi að fjmrn. útilokar og greiðir atkvæði gegn frumvörpum þegar um er að ræða nauðasamninga innan réttarins ef um er að ræða vörslu skatta ýmis konar eins og t.d. virðisaukaskatt eða staðgreiðslu tekjuskatts, en hefur látið það afskiptalaust með því að greiða ekki atkvæði ef aðrir lánadrottnar eru það margir og eiga það stóran hlut í búinu að þeir hafa viljað samþykkja frv. til lækkunar á slíkum skuldum. Þá hefur ríkið setið hjá, en stundum greitt atkvæði gegn því. Ríkið verður alveg eins og aðrir aðilar að slíku búi að sætta sig við niðurstöðuna. Þetta veit ég að hv. þm. þekkir frá þeim tíma sem hann starfaði í fjmrn. Ég minni á að það var ein undantekning sem mikið veður var gert út af og það var vegna frystihúss á Stokkseyri. En það voru síðustu leifar þess að menn voru í slíkum geðþóttaákvörðunum sem oft hafa verið gagnrýndar á grundvelli jafnræðisreglunnar.