Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 11:51:27 (4534)

1996-04-11 11:51:27# 120. lþ. 116.4 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[11:51]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. komist ekki út úr þeirri klemmu sem hún hefur komið sér í. Þær reglur sem voru mótaðar á þeim tíma sem hún var í fjmrn. gilda enn og þær eru þær að ríkið greiðir ekki atkvæði með nauðasamningum, ekki heldur nauðasamningum fyrirtækja ef um skuldir er að ræða hjá ríkinu. Hins vegar verður ríkið að sjálfsögðu (SvanJ: Þetta frv. breytir því ekki.) að sætta sig við niðurstöðuna ef hún verður eins og meiri hlutinn leggur til þegar um það er að ræða. Ástæðan fyrir því er að fjmrn. hefur á undanförnum árum, nánar tiltekið frá árinu 1989, ekki talið sig geta tekið þátt í nauðasamningum einstaklinga. Þótt ekki hafi á það reynt stendur skýrum stöfum að allir einstaklingar eigi rétt á sams konar meðferð á grundvelli jafnræðisreglunnar. Þetta var regla sem var sett á sínum tíma áður en ég kom í ráðuneytið. Til þess að losa um þessa reglu þarf að breyta lögunum og þess vegna er verið að breyta þessum lögum. Það hef ég sagt áður og það liggur alveg skýrt fyrir. Ég vona að hv. þm. og reyndar aðrir hv. þingmenn átti sig á því að það er nauðsynlegt að breyta þessum lögum til þess að framkvæmdin geti orðið á grundvelli jafnræðisreglunnar sem við viljum hlíta.