Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:13:05 (4541)

1996-04-11 12:13:05# 120. lþ. 116.5 fundur 394. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:13]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Nokkrar spurningar komu frá hv. þm. Í fyrsta lagi við ég taka fram að hagstæðum kjörum verður lýst í reglugerð sem birt mun verða. Hugmyndin er sú að 30% af verði eignarinnar verði lánað og þá geta hagstæð kjör birst annars vegar í tímanum og hins vegar í vöxtunum. Það sem hér er átt við er fyrst og fremst það að samsetning skulda sem hvíldi þá á íbúðinni verði svipuð og um aðrar eignir á sömu stöðum. Það þýðir að hagstæðu kjörin munu taka mið af þeim hagstæðu kjörum sem gilda í dag hjá t.d. Húsnæðisstofnun ríkisins hvort sem um er að ræða húsbréf eða gömlu lánin og það fer eftir aldri eignarinnar. (JBH: Getur þetta þá verið mismunandi í umdæmum?) Því get ég ekki svarað en það þarf m.a. að taka tillit til aldurs hússins því hugmyndin er að líkja eftir því hvernig skuldasamsetningin hefði verið á viðkomandi húsi ef það væri á frjálsum markaði.

Í öðru lagi varðandi 1.000 íbúa markið er auðvitað hægt að selja íbúðir þar sem fámenni er meira og það er hægt að gera með þeim hætti að óska eftir heimildum á fjárlögum hverju sinni. Það varð einhvers staðar að segja einhverja viðmiðunarreglu þannig að það er ekki verið að útiloka neitt. Um hækkun húsaleigunnar sem hv. þm. talaði um þá er sú breyting gerð að það er miðað við markaðsleigu en ekki eins og er núna í lögum að það sé miðað við fasteignamat eða brunabótamat. Ég held að allir hljóti að skilja að það er eðlilegri viðmiðun. Ég vona, hv. þm., að þetta skýri hvers vegna frv. er í anda stefnu ríkisstjórnarinnar. Það hefur í sjálfu sér ekkert með að gera það sem hv. þm. blandaði saman við, þ.e. greiðsluerfiðleikum almennings.