Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:15:18 (4542)

1996-04-11 12:15:18# 120. lþ. 116.5 fundur 394. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:15]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kemur skýrt fram í afstöðu fjmrn. varðandi þetta frv. að þar er talað um 3% vexti. Það á að niðurgreiða vexti gagnvart tilteknum einstaklingum sem eiga viðskipti við ríkið. Ég vil fá að vita af hverju á að gera það gagnvart þessum eina hóp. Ég spyr enn og aftur: Af hverju þetta á þá ekki að gilda gagnvart heimilunum í landinu sem eiga við fjárhagserfiðleika að etja? Þeim var lofað úrlausn sinna mála eins og við höfum rætt fyrr í dag og áður. Mér finnst vera miklu meiri ástæða til að hæstv. fjmrh. upplýsi betur og geri það við þessa umræðu hvernig er háttað þessum húsaleigugreiðslum. Hvaða upphæðir hér er um að ræða þegar talað er um að hægt sé að hækka leiguna um 30--50% til að færa hana nær markaðsverði. Ég vil þá fá upp á borðið hvers konar viðskiptahættir þarna eru á ferðinni. En það er fullkomlega óeðlilegt, herra forseti, að verið sé að setja í lög að það eigi hygla tilteknum hópi í viðskiptum við ríkið með lægri vöxtum en gengur og gerist á almennum markaði. Hér er talað um 3% vexti. Það gengur ekki. Það getur enginn fengið lán með þessum vöxtum í dag. Af hverju á það þá að gilda um þennan málaflokk? Við getum útfært þessa stefnu á miklu víðtækara sviði. Ef þetta er hin nýja efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er gott að vita það. En það er augljóst af þessu frv., það kemur skýrt fram enn og aftur, hverjir eru vinir ríkisstjórnarinnar í reynd.