Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:33:15 (4547)

1996-04-11 12:33:15# 120. lþ. 116.5 fundur 394. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða o.fl.) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:33]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þetta atriði með áhrif fríðinda af því tagi sem við erum að tala um hér, þá er það alveg ljóst að þau eru veruleg. Mér hefur sýnst það vera stefna ríkisvaldsins núna um allnokkurra ára skeið að reyna að jafna sem mest og draga sem mest úr ýmiss konar tilliti sem hefur verið tekið til starfsfólks ríkisins úti á landi. Þar má t.d. nefna ákveðna deilu sem kom upp varðandi hjúkrunarfræðinga á Akureyri á sínum tíma og það eru fleiri slík mál þar sem ýmist sveitarfélög og reyndar ríkið nýtti sér það að bjóða fólki upp á eins konar staðaruppbót eða sérstök kjör til þess að laða til sín starfsfólk. Og þó að hæstv. fjmrh. hafi sagt hér áðan að það gengi betur að ráða fólk til starfa, þá tengist það auðvitað því atvinnuástandi sem hér er. En ég hygg að þegar ástandið verður komið í nokkuð eðlilegt horf þá munum við standa aftur frammi fyrir því að straumurinn liggi allur hingað á suðvesturhornið, hvað sem tautar og raular og hvað sem mönnum finnst um það, og það kunni aftur að koma upp sú staða að það verði mjög erfitt að fá fólk til starfa úti á landi í hin ýmsu embætti og þá einmitt muni fyrst verulega um það að fríðindi af þessu tagi hafi verið felld niður.