Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:47:04 (4553)

1996-04-11 12:47:04# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:47]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjmrh. og ríkisstjórninni fyrir að leggja þetta frv. fyrir til umræðu. Ég held að þetta sé gott mál sem hér er hreyft og full ástæða til þess að ræða það mjög rækilega. Reyndar hafa mál af þessu tagi mjög oft komið til umræðu með einum eða öðrum hætti á undanförnum árum. Þau hafa verið rædd í tengslum við skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikninginn. Þau hafa verið rædd í tengsum við frv. til fjáraukalaga og skyld mál hafa mjög oft verið rædd í tengslum við skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings, m.a. man ég eftir því að yfirskoðunarmenn ríkireiknings létu það koma fram í skýrslu um ríkisreikninginn árið 1992 að þeir teldu óhjákvæmilegt að gerðir yrðu skýrir þjónustusamningar við stofnanir. Þá vorum við sem skrifuðum það skjal sérstaklega að hugsa um stofnanir fatlaðra. Við töldum að það þyrfti að gera um þau mál skýran samning. Nú má segja að kannski hafi þær stofnanir að einhverju leyti horfið út úr þessari mynd eða séu að hverfa út úr þessari mynd vegna þess að það er verið að tala um að þær færist að hluta til yfir til sveitarfélaganna.

En eftir stendur það að hér er hreyft mjög stóru grundvallaratriði í ríkisrekstrinum og mér finnst ástæða til að fagna því að það mál sé rætt hér. Ég vil hins vegar segja það að mér finnst frv. ótrúlega veikt miðað við það hvað málið er stórt. Ég hefði getað hugsað mér að sjá hér nokkuð ítarlegt frv. þar sem væri tekið á miklu fleiri þáttum þessa máls og að þetta frv. væri að einhverju leyti tengt frv. sem liggur fyrir að öðru leyti um fjárreiður ríkisins og er til meðferðar í sérnefnd í þessari virðulegu stofnun.

Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á því að áður en langur tími líður, þá er ég kannski að tala um tíu ár eða svo, þá spái ég að það verði þannig að ríkið muni gera þjónustusamninga við stofnanir um svo að segja alla þá þjónustu sem ríkið veitir. Ég spái því að horfið verði frá þessu gamaldagskerfi sem við höfum núna, sem í raun er svo að segja algjörlega stýrt frá fjmrn. Ég er nokkuð viss um að það verði horfið frá því og að með einum eða öðrum hætti muni menn taka upp þjónustusamninga. Það verða gerðir þjónustusamningar við heilbrigðisstofnanir, þjónustusamningar við menntastofnanir, þjónustusamningar við menningarstofnanir. Það verða gerðir þjónustusamningar á milli t.d. stofnunar eins og Tryggingastofnunar ríkisins og viðkomandi sjúkrahúsa. Það verða gerðir þjónustusamningar jafnvel við aðrar stofnanir sem mönnum sýnist kannski í fljótu bragði í dag að séu ekki vel til þess fallnar, ég nefni í því sambandi lögregluembættin. Ég held með öðrum orðum að það eigi að leggja í það mjög verulega og vandaða vinnu í ríkiskerfinu að skilgreina þá þjónustu sem stofnunum er ætlað að veita á hverjum tíma. Það hefur hins vegar ekki verið gert nægilega vel og þess vegna hafa þessar ríkisstofnanir oft lent í heilmiklum erfiðleikum. Ég tel að hér sé hreyft stóru máli. En eigi að afgreiða það núna á þessu þingi, sem ég sé svo sem ekki neina þörf á, þá þyrfti þetta að vera ítarlegra og ná til miklu fleiri þátta í málinu.

Staðreyndin er sú að reksturinn á þessum stofnunum og greiðsluaðferðirnar frá ríkinu til sumra þessara stofnana hafa stundum jaðrað við hneyksli. Það verður að segja það alveg eins og er. Ég geri ráð fyrir að einhverjir hér inni sem hafa hrærst í þessum málum lengi eins og ég muni eftir daggjaldakerfi sjúkrahúsanna eins og það var um tíma eða daggjaldakerfi hjúkrunarheimilanna eins og það var praktíserað um tíma. Ég tel að þar hafi runnið fjármunir frá ríkinu ótrúlega eftirlitslítið árum og áratugum saman. Þó að menn hafi kannski ekki leyst það með föstum fjárlögum, þá var það þó viðleitni til þess að taka á málinu, en vandinn var sá að það var aldrei gerður fyrir þessar stofnanir skýr þjónustusamningur nema um að það ætti að vera tiltekinn fjöldi af sjúklingum í tilteknum fjölda af rúmum. Það var enginn annar samningur gerður milli ríkisins, heilbrrn. og Tryggingastofnunar annars vegar og fjmrn. og viðkomandi stofnunar hins vegar. Þess vegna tek ég undir það að hér sé hreyft hinu þarfasta máli.

Ég vil hins vegar segja það líka að mér finnst það ljóður á málinu eins og það er lagt fyrir --- fyrir utan hvað það er veikburða miðað við það hvað þetta fjallar um stórt svið, mér finnst frv. veikburða, --- þá finnst mér það líka ljóður á málinu að ekki skuli hafa verið lögð dálítil vinna í að ræða það við viðkomandi stéttarsamtök. Ég heyrði það ekki í ræðu hæstv. fjmrh. hvort þetta hefur sérstaklega verið rætt við stéttarsamtökin. Það getur verið að það hafi verið gert, ég veit ekki um það, og spyr ráðherrann um það vegna þess að mér finnst að fjmrn. eigi að ræða svona rækilega við stéttarsamtökin og gera það í þaula og vanda sig við það. Það þýðir ekkert að vísa á einhverjar þingnefndir með svoleiðis hluti vegna þess að við vitum að samskipti fjmrn. við launamenn ríkisins ganga eftir tilteknum brautum og það er ekki hægt að skjóta einhverjum þingnefndum inn þar sem milliliðum. Það hlýtur að vera þannig að fjmrn. hafi þar með að gera bein og milliliðalaus samskipti.

Þetta eru þau tvö eða þrjú aðalatriði sem ég ætla að nefna, í fyrsta lagi það að ég tel þetta mikilvægt mál og ég tel gott að það er komið á dagskrá. Ég tel í öðru lagi að málið sé of veikburða eins og það er kynnt hér og þurfi að fara ítarlegar í það. Og ég tel í þriðja lagi að það þurfi að ræða svona mál við stéttarsamtök opinberra starfsmanna áður en því er ráðið til lykta.

Síðan ætla ég aðeins að víkja að nokkrum öðrum atriðum sem eru kannski aðallega spurningar til hæstv. fjmrh. og víkja þá fyrst að 2. gr. frv. Það stendur, með leyfi forseta, í síðasta málslið: ,,Samningstíminn skal að hámarki vera 10 ár.`` Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sér þetta ákvæði í tengslum við önnur lagaákvæði og þann veruleika að við erum að semja og samþykkja fjárlög til eins árs í senn. Ég veit að ríkið gerir samninga um greiðslur til langs tíma með fyrirvara um samþykki Alþingis eins og gengur. En hlýtur ekki þjónustusamningahugsunin að ýta undir það að menn reki af sér slyðruorðið í þessari stofnun og fari að gera fjárlög til lengri tíma? Ég held að það væri allt annar hlutur t.d. fyrir ríkisstofnanirnar ef þær vissu hvernig á þessum hlutum ætti að halda til lengri tíma. Ég vil sérstaklega spyrja hæstv. fjmrh. um þetta atriði. Við þekkjum það öll sem hér erum inni hvað það er erfitt fyrir ríkisstofnanir t.d. að fá framlög til framkvæmda sem eru kannski ákveðin segjum 20. des. árið áður og stofnunin á síðan að hella sér í framkvæmdirnar á næsta almanaksári. Þá hefur oft mjög margt farið úr böndunum, menn hafa ekki haldið nægilega vel á málum. Menn hafa viljað auðvitað nota peningana sem fjárveitingavaldið vildi láta þá hafa, en hafa ekki getað haft nægilega gott svigrúm til þess að gera áætlanir til lengri tíma.

Ég vil þess vegna spyrja alveg sérstaklega um þetta atriði. Ég vil líka spyrja af hverju þetta er að hámarki 10 ár en ekki eitthvað annað, m.a. með hliðsjón af því að í ýmsum öðrum frumvörpum sem hæstv. ríkisstjórn flytur eru menn að tala um aðrar tímasetningar, t.d. í frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þar er, ef ég man rétt gert ráð fyrir því að menn verði að hámarki ráðnir til fimm ára í senn, tilteknir embættismenn sem þar er verið að tala um.

Í öðru lagi vildi ég spyrja hæstv. fjmrh., ég heyrði ekki að hann nefndi það: Hvað eru margir svona þjónustusamningar í skilningi fjmrn. í gangi núna? Það eru taldir upp nokkrir í greinargerðinni, það er Hornafjörður, það er Náttúrulækningafélagið, það er Verslunarskólinn og fleiri. Ég held að þeir séu fleiri en þarna eru taldir upp. Ég spyr: Hefur ekki verið gerður svona samningur t.d. við Kvennaskólann um tiltekið skólahald á framhaldsskólastigi? Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort það er ekki rétt munað hjá mér að þeir séu fleiri þessir samningar heldur en þarna er talið upp.

Síðan vil ég nefna það við hæstv. ráðherra og spyrja hann að því hvort ekki séu fleiri með í undirbúningi þjónustusamninga heldur en hér eru nefndir eða hafa þegar verið gerðir. Með öðrum orðum: Hvaða þjónustusamningar eru í undirbúningi? Ég ætla að nefna hér sérstaklega menningarstofnanirnar af því að ég geri ekki ráð fyrir því að menn hafi hugsað allt of mikið um það. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það er ekki auðvelt að gera þjónustusamning við menningarstofnun, t.d. stofnun eins og Þjóðleikhúsið, en auðvitað er það hugsanlegt. Og það er t.d. hugsanlegt að gera einhvern samning við stofnun eins og t.d. Þjóðminjasafnið. Ég held satt að segja að menn eigi að velta þessu vandlega fyrir sér. Það væri skynsamlegt að draga þingnefndirnar inn í þetta mál þannig að þingmennirnir fengju þessa hugsun í fingurgómana svo að segja, af því að ég er sannfærður um að hér er verið að hreyfa máli sem mun setja mark sitt á ríkisreksturinn í vaxandi mæli á komandi árum. Þess vegna hreyfi ég þessu máli, hæstv. forseti.

Ég legg á það áherslu að lokum að ég tel að frv. eins og það er núna sé algjörlega ófullnægjandi og það verði að laga. Frv. verður að vera miklu ítarlegra ef það á að gera það gagn sem hæstv. ráðherra ætlast til og þess vegna skora ég á hv. þingnefnd, efh.- og viðskn. Alþingis, að leggja í það verulega vinnu að skoða rækilega alla þá samninga sem til eru, skoða þá samninga sem eru í burðarliðnum og velta því fyrir sér hvort ekki þurfi að skrifa þennan texta allan upp á nýtt vegna þess að frv. dugir ekki að mínu mati, hæstv. forseti, eins og það er, þó að ég meti það mikils að málið sé komið til umræðu eins og ég gat um áðan.