Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 15:00:22 (4556)

1996-04-11 15:00:22# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:00]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta frv. sem hér er til umræðu lætur lítið yfir sér við fyrstu sýn og menn gætu haldið að hér væri eitthvert lítið og laglegt mál frá fjmrn. En það var rétt sem fram kom í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar að hér er draugur upp vakinn sem við töldum okkur hafa kveðið niður fyrir áramót þegar beiðni kom fram frá ríkisstjórninni um eina dularfulla grein í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem á þeim tíma var algerlega óskiljanleg og óljóst hvað ríkisstjórnin var að fara fram á. En það var einmitt algerlega galopin heimild til þess að gera þjónustusamninga af ýmsu tagi án þess að nokkuð væri ljóst hvað þar lægi að baki. Ríkisstjórnin sá að sér og dró þetta til baka, enda var málið þannig fram sett að það stóðst engan veginn þá lagahefð sem hér er við lýði.

Hér er þetta mál komið, lítillega útfært af hálfu ríkisstjórnarinnar þó að það verði reyndar að segjast eins og er að þetta er mjög opin heimild sem verið er að biðja um. Hér er að mínum dómi um mál að ræða sem þarf að athuga mjög rækilega. Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að þetta frv. er angi af miklum krabba sem skríður um ríkiskerfið. Ég held að menn verði að fara að gera sér grein fyrir því hvílíkar gríðarlegar breytingar þessi ríkisstjórn og reyndar sú síðasta líka hefur verið að gera og er að gera á ríkiskerfinu án þess að tilgangurinn með þeim og hugmyndafræðin sem liggur að baki sé beinlínis rædd. Að mínum dómi er alveg ljóst hver hugmyndafræðin er. Hún hefur verið mjög vinsæl á Nýja-Sjálandi og leitt þar til mikilla þjóðfélagsbreytinga. Ég tel að mörg þau frv. sem við erum að ræða og eru til meðferðar á Alþingi núna muni leiða til mikilla þjóðfélagsbreytinga nái þau fram að ganga. Við höfum til meðferðar tvö stór frv. sem munu gjörbreyta öllum aðstæðum á vinnumarkaði ef þau ná fram að ganga í óbreyttri mynd. Þar er annars vegar um að ræða frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og hins vegar frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Þetta er allt angi af þeirri stefnu að draga úr áhrifum vinnandi fólks. Og einmitt þetta sem hér er verið að tala um og heitir því fallega orðalagi að auka sveigjanleika í ríkisrekstri vekur auðvitað margar spurningar um hvað verður um kjör fólks, hvað verður um vinnu fólks og hverjir það verða sem hafa völdin.

Við erum líka með frv. sem var ákaflega vel tekið hér vegna þess að það felur í sér margar góðar grundvallarbreytingar. Það er frv. sem fjallar um fjárreiður ríkisins. En þar liggur að baki þessi sama hugsun, að það eigi að líta á ríkið eins og fyrirtæki, það eigi að reka ríkið eins og fyrirtæki. En þarna er ekki saman að jafna. Ríkið er ekki venjulegt fyrirtæki. Það hefur allt aðrar skyldur en gengur og gerist um fyrirtæki og þess vegna verður rekstur þess aldrei eins og hjá fyrirtæki, litlu eða stóru úti í bæ.

Við erum jafnframt að fjalla um miklar breytingar á enn einu ríkisfyrirtækinu, þ.e. einkavæðingu Pósts og síma. Við erum á undanförnum árum búin að ganga í gegnum allmikla einkavæðingu og þetta frv. er að mínum dómi enn einn angi þessarar einkavæðingar. Og við eigum væntanlega von á því að fá frv. til laga um breytingar á lögum um Landsbankann og Búnaðarbankann þegar fram í sækir þó að það verði sennilega ekki á þessu vori.

Nú er það svo að þessar breytingar eru ekki allar af hinu illa, það er langt í frá. Ég get enn þá ítrekað þá skoðun mína að við eigum að skilgreina og skoða með jöfnu millibili hvert hlutverk ríkisins er og í hvaða rekstri ríkið á að vera. En við verðum að gera okkur grein fyrir því hvað það er sem við erum að gera, hverju er verið að breyta og hvaða tilgangi það þjónar. Þjóna breytingarnar almannahag eða eru þær fyrst og fremst í þágu einhvers afmarkaðs hluta samfélagsins? Koma þær einhverjum ákveðnum aðilum til góða? Auka þær völd þeirra sem völdin hafa fyrir? Gera þær hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari? Ég hef verið á undanförnum árum mjög gagnrýnin á einkavæðingarstefnu bæði fyrrv. ríkisstjórnar og þessarar vegna þess hvernig að málum hefur verið staðið þó að þar hafi vissulega verið um rekstur að ræða eins og t.d. Síldarverksmiðja ríkisins sem ég tel að engar forsendur hafi verið lengur fyrir ríkisrekstri og það hafi verið tími til kominn að breyta þeim rekstri. Málið snýst hins vegar um það hvernig að hlutunum er staðið og hverjum er verið að afhenda eignir. Hvernig verið er að afhenda eigur ríkisins er það sem er svo alvarlegt í þessu máli öllu. Síðan er hin hliðin sem snýr að starfsmönnum ríkisins sem þarf að hafa miklar áhyggjur af. Og það er hárrétt sem fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að einkavæðing hefur víða leitt til verri þjónustu og aukins atvinnuleysis. Hún hefur gert það. Bretland og Nýja-Sjáland eru dæmi um það þannig að menn verða að vita hvað þeir eru að gera.

Varðandi þetta frv. hér vil ég taka undir þá gagnrýni sem hefur komið fram að um mjög opnar heimildir er að ræða og mjög mikið valdaafsal frá löggjafarvaldinu, frá Alþingi yfir til framkvæmdarvaldsins. Maður hlýtur að spyrja: Hvað býr að baki? Hvaða þjónustu er verið að tala um? Hvaða þjónusta er það sem á að færa frá ríkinu til annarra aðila, hvort sem það eru einkafyrirtæki, félagasamtök eða sveitarfélög? Hver er stefnan í þessu? Það hlýtur að vera ákveðin ástæða fyrir því að ríkisstjórnin, í þessu tilviki hæstv. fjmrh., kemur fram með þetta frv. Og þessi ósk var komin fram áður. Það hlýtur eitthvað ákveðið að búa að baki. Ég veit reyndar að það hefur mikil vinna verið í gangi í fjmrn. varðandi ýmiss konar breytingar og umbætur á ríkisrekstrinum. Menn hljóta þar að vera með ákveðnar hugmyndir um það hvaða þjónustu á að færa frá ríkinu. Þar kemur einmitt að spurningunni sem ég var að velta upp í gær varðandi allt annað mál, frv. um reynslusveitarfélögin, auknar lagaheimildir vegna reynslusveitarfélaganna. Í þessu samhengi öllu hljótum við að þurfa að velta fyrir okkur eðlilegri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og jafnframt eðlilegri verkaskiptingu ríkisins og annarra aðila sem annast þjónustu, ekki bara einhverjum handahófskenndum tilfærslum bara af því að það er vilji hæstv. fjmrh. að einkavæða, einkavæða bara eitthvað. Það þarf að vera ákveðin stefna í þessum málum. Ég ítreka þær spurningar sem fram hafa komið: Um hvaða þjónustu er verið að tala? Mér finnst mjög mikilvægt að fá svar við því. Það er ekki hægt að sjá það af athugasemdum og greinargerð frv. Það eru nefnd ýmis dæmi um þjónustu sem ríkið greiðir og hefur verið færð til annarra og jafnvel nefnd dæmi um að viðkomandi aðilar hafi lent í vandræðum og það hafi ekki verið gerðir neinir samningar. Ég get vel skilið að það sé nauðsynlegt að tryggja að samningar séu til staðar, ef einhverjir taka að sér þjónustu, um hver beri ábyrgð og hvaða þjónustu eigi að veita. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er það hans meining að þetta sé fyrst og fremst til þess að koma skikki á þá þjónustu sem þegar hefur verið samið um? Hér eru nefnd dæmi t.d. um SÁÁ og fleira slíkt. Hver er meiningin með þessu? Við stöndum enn þá frammi fyrir þeim dularfullu spurningum sem spruttu upp fyrir áramót og engin svör hafa fengist við. Ég vona að hæstv. fjmrh. skýri þetta mál þó að það verði sennilega ekki til þess að auka stuðning við málið. Það er ekki þar með sagt.