Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 15:36:56 (4560)

1996-04-11 15:36:56# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:36]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi satt að segja að ég gæti gefið skýr og greið svör við þessari spurningu. Frá mínum bæjardyrum séð er ekkert nú sem bannar það án þessa frv. að gera samninga, Tryggingastofnun getur gert það, ef lög banna það ekki. Ef það stendur hvergi í lögum að einum eða öðrum tilteknum aðila sé falið samkvæmt lögum að sjá um bæklingalækningar, t.d. Ríkisspítölum eða öðrum spítölum þá er ekkert nú sem bannar að slíkt sé boðið út eða þá að það sé afhent einhverjum og borgað fyrir það með skattfé. Fjárlög íslenska ríkisins eru í raun og veru kannski einu lögin sem til eru um þetta. Þar er náttúrlega verið að afhenda fjármuni til tiltekinna nota hjá opinberum stofnunum. Þessi lög mundu hins vegar hafa þá þýðingu að þessu yrðu sett skilyrði. Skilyrðin yrðu þau að það yrði að fara fram útboð. Skilyrðin yrðu þau að það mætti ekki gera samning nema til tíu ára. Og skilyrðin yrðu þau að það yrði að taka mjög skýrt fram hvaða fjármunir ættu að fara til verkefnisins og hvaða gæðakröfur ætti að gera til framkvæmdarinnar. Ég held að þetta sé aðalatriði málsins. Ég get ekki svarað þessari spurningu nákvæmlega og þori a.m.k. ekki að svara henni eins og hún var borin fram um ,,orthopedicuna`` á læknamiðstöðvum.