Fjáröflun til vegagerðar

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 15:48:53 (4566)

1996-04-11 15:48:53# 120. lþ. 116.7 fundur 442. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (álagning, eftirlit o.fl.) frv. 68/1996, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:48]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum, nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum. Þetta frv. er að finna á þskj. 774, en það er 442. mál þingsins.

Með lögunum nr. 34/1995, um vörugjald á olíu, ákvað Alþingi á sinum tíma að frá og með 1. janúar 1996 yrði tekið upp vörugjald á gas- og dísilolíu. Fjmrh. skipaði síðan sérstaka samráðsnefnd sem átti að vera til ráðgjafar um undirbúning og framkvæmd laganna. Þannig fór að meiri hluti nefndarinnar lagði til að gildistöku þessara laga yrði frestað um tvö ár og tækju lögin ekki gildi fyrr en 1. janúar 1998. Þetta var reyndar öll nefndin að undanskildum fulltrúa Landssambands ísl. útvegsmanna. Ástæðan var sú að menn töldu að ný tækni í litun olíu gæti verið ódýrari kostur en lagt var til í lögum sem sett hafa verið en gildistökunni frestað.

Þess vegna gerðist það að með lögum nr. 120/1995, sem samþykkt voru sl. haust var gildistökunni frestað til 1. janúar 1998 og gildistími laganna frá 1987 framlengdur til sama tíma.

Um langan aldur hefur mikil gagnrýni komið fram á þungaskattskerfið og á það bent að væntanlega sé mikið um undanskot á skattinum. Undanskotin eru m.a. til komin vegna þess að auðvelt virðist að hægja á eða stöðva talningu á svokölluðum ökumælum. Eftirlit hefur ekki verið nægilegt og þá er erfitt að sanna ásetning eða gáleysi ökumanns ef í ljós kemur við eftirlit að mælabúnaður er í ólagi. Af þessum sökum hafa viðurlög við brotum ekki verið nægilega hörð og mjög mismunandi eftir umdæmum. Undanskot á þungaskatti hafa lækkað mjög eða dregið úr tekjum af þungaskatti og í raun einnig brenglað samkeppnisstöðu aðila í rekstri.

Það var af þessum ástæðum sem hafist var handa við endurskoðun á lögunum nr. 3/1987. Við þá endurskoðun varð fljótlega ljóst að gera þyrfti verulegar breytingar á lögunum til að tryggja viðunandi framkvæmd. Má þar í fyrsta lagi nefna að í lögunum er gert ráð fyrir að fjmrh. hafi víðtækt vald til ákvörðunar á fjárhæð þungaskatts, m.a. geti hann ákveðið lækkun og veitingu afsláttar af skattinum. Þetta samræmist ekki ákvæði 77. gr. stjórnarskrárinnar að áliti lögfróðra manna. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í lögunum að sami aðili, innheimtumaður ríkissjóðs, annist bæði álagningu og innheimtu skatta. Í þriðja lagi skortir með öllu ákvæði í núgildandi lög um skyldu ökumanna til skráningar á akstri og eftirlits með því að mælabúnaður sé í lagi. Í fjórða lagi er lítið fjallað um það í lögunum með hvaða hætti skuli haga eftirliti opinberra aðila með gjaldskyldum ökutækjum og hvaða viðurlögum skuli beitt ef ákvæði laganna eru brotin.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir breytingu á uppbyggingu þess kerfis sem þungaskatturinn er innheimtur eftir í dag og reynt að samræma það öðrum gjaldkerfum ríkisins. Gert er ráð fyrir því í frv. að innheimutmenn annist einungis innheimtu á þungaskatti. Álagning þungaskatts og ákvörðun viðurlaga verði hins vegar í höndum skattyfirvalda. Með þessari breytingu er reynt að tryggja að við ákvörðun þungaskatts verði gætt málsmeðferðarreglna skattaréttarins.

Þá er lagt til í frv. að álagning verði í höndum eins aðila, ríkisskattstjóra, í stað þess að skattstjórar hver í sínu umdæmi annast álagninguna. Ástæðan er einkum sú að það er gert ráð fyrir því að lögin muni einungis gilda um skamman tíma eða til loka næsta árs.

Þá er gert ráð fyrir því í frv. þessu að löggjafinn kveði á um öll atriði er varðar álagningu þungaskatts, breytingar á skatti eða niðurfellingu hans. Er þá valdið tekið úr höndum fjmrh. og fært til Alþingis. Mun ríkari skyldur eru lagðar á ökumenn til skráningar á akstri í akstursbók. Lagt er til að ökumanni ökutækis sem þungaskattur er greiddur af eftir akstri verði skylt í lok hvers dags, sem ökutæki er ekið, að lesa kílómetrastöðu af ökumæli og skrá í akstursbók. Eftirlit ökumanns verður því enn öruggara og á jafnframt að veita tryggingu fyrir því að talning ökumælis hafi ekki verið stöðvuð tímabundið.

Önnur regla gildir um bíla sem ekki eru atvinnutæki. Þar er lagt til að kílómetrastaða ökumælis og hraðamælis verði í þessum tilvikum skráð mánaðarlega í akstursbók.

Í frv. er gert ráð fyrir að níu greinar bætist við lögin. Í þeim er fjallað um endurákvörðun þungaskatts ef ekki er mætt til álestrar, beitingu álags, heimildir til að kæra álagningu og refsingu vegna brota á lögunum. Í lögunum nr. 3/1987 er ekki að finna neinar heimildir til endurákvörðunar þungaskatts ef í ljós kemur að þungaskattur hefur verið réttilega á lagður. Þá er kveðið á með skýrum hætti um heimildir til endurákvörðunar kílómetragjalds ef talið verður að akstur ökutækis hafi verið meiri en álestur af ökumæli gefur til kynna, t.d. vegna þess að mælir hafi verið óvirkur eða akstur ekki skráður í akstursbók. Þetta verður gert með hlutlægri endurákvörðun en ekki af huglægu mati. Jafnframt er kveðið á um heimild til endurákvörðunar ef gjaldþyngd ökutækis hefur verið skráð of lág miðað við notkun ökutækisins.

Þá er í öðru lagi lagt til að áætlaður verði þungaskattur ef ekki er mætt í álestur og skal áætlun að jafnaði svara til þess að ökutækinu hafi verið ekið 8.000 km á mánuði. Það er hin hlutlæga regla.

Varðandi álagið er gert ráð fyrir því að í stað dagsekta verði bætt við 1% álagi á fjárhæð skattsins fyrir hvern dag sem dregið hefur verið að koma með ökutæki til álestrar, í allt að 20 daga. Varðandi kæru og málsmeðferð er gert ráð fyrir því að hægt sé að kæra álagningu þungaskatts til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá því er skatturinn var ákvarðaður. Þá er gert ráð fyrir að hægt verði að kæra úrskurð ríkisskattstjóra og endurákvörðun á þungaskatti til yfirskattanefndar innan 30 daga frá póstlagningu úrskurðar eða endurákvörðunar.

Kveðið er skýrar á um heimildir til að beita refsingu og skal hún að lágmarki nema tvöfaldri og að hámarki tífaldri þeirri fjárhæð sem ætla má að dregin hafi verið undan. Ef skattrannsóknarstjóri ríkisins telur að brot varði ekki þyngri refsingu en sekt er kveðið á um að honum sé heimilt að ljúka máli með því að gefa eiganda eða umráðamanni ökutækis kost á að ljúka málinu með greiðslu sektar sem greiðist innan tveggja mánaða. Ef eigandi eða umráðamaður ökutækis brýtur gegn ákvæðum laganna án þess að talið verði að akstur hafi verið vantalinn skal ríkisskattstjóri ákvarða honum sekt að lágmarki 5.000 kr. en að hámarki 50.000 kr. Slík sektarákvörðun ríkisskattstjóra yrði kæranleg til yfirskattanefndar.

Virðulegi forseti. Í raun er verið að fjalla um lög sem eiga að gilda í skamman tíma. Meginástæðan fyrir flutningi málsins er að herða eftirlitið þannig að samræmi sé á milli þeirra sem aka, einkum vegna atvinnureksturs. Hér er verið að taka tillit til nýrra sjónarmiða sem hafa rutt sér til rúms í íslenskum rétti þar sem gerður er greinarmunur á milli álagningarvalds og síðan hinna sem hafa með refsingar og viðurlög að gera.

Það er tillaga mín, virðulegi forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.