Fjáröflun til vegagerðar

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 16:18:04 (4568)

1996-04-11 16:18:04# 120. lþ. 116.7 fundur 442. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (álagning, eftirlit o.fl.) frv. 68/1996, JBH
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:18]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Megintilgangurinn með álagningu skatta er að afla tekna til almannaþarfa í ríkissjóð. Til þess að skattlagning sé ásættanleg eða frambærileg þarf hún að fullnægja tilteknum skilyrðum að lágmarki. Sem dæmi um það má nefna að skattkerfi þarf að uppfylla ströng ákvæði um jafnræðisreglu, þ.e. að allir séu jafnir fyrir skattalögum sem við þau eiga að búa. Önnur nokkuð viðtekin regla er sú að skattlagning á að vera sanngjörn og ekki úr hófi fram og lögð á eftir efnum og ástæðum. Þriðja meginskilyrðið, ekki síst hjá fámennri þjóð með litla yfirbyggingu er að skattkerfi á að vera einfalt í framkvæmd og auðvelt til eftirlits og viðurlög við brotum skýr og afdráttarlaus.

Í ljósi þessa sem nú hefur verið sagt má nefna þetta dæmi sem hér er verið að fjalla um sem sígilt dæmi um gjörsamlega óhæfa skattlagningu vegna þess að það má heita að allar grundvallarreglur sem um þau mál eiga að gilda séu þverbrotnar. Fyrir þessu þarf ekki að hafa mín orð vegna þess að þetta er rækilega tíundað í greinargerð frv. Þar segir með leyfi forseta:

,,Því hefur verið haldið fram að mikið sé um undaskot á skattinum.`` Það þýðir auðvitað að sumir velta því af sér og yfir á aðra. ,,Í því sambandi hefur verið bent á að álestrarskrá ökumæla sýni að algengt sé að stórum vöruflutningabifreiðum, sem notaðar eru í atvinnurekstri, sé ekki ekið meira en sem svarar til meðalnotkunar einkabifreiðar. Undanskot séu mikil, enda sé auðvelt að hægja á eða stöðva talningu ökumæla, jafnvel án þess að mælabúnaður beri þess nein merki. Jafnframt hafi eftirlit ekki verið nægilegt. Þá sé erfitt að sanna ásetning eða gáleysi ökumanns ef í ljós kemur við eftirlit að mælabúnaður er í ólagi. Af þeim sökum hafi viðurlög við brotum ekki verið nægilega hörð og mjög mismunandi eftir umdæmum. Auk þess sé flókið og seinvirkt að áætla akstur og beita viðurlögum gagnvart þeim sem gerst hafi brotlegir. Undanskot á þungaskatti hafi lækkað mjög tekjur af þungaskatti og að auki brenglað verulega samkeppnisstöðu aðila í rekstri, skilvísum aðilum í óhag.``

Þetta er nokkurn veginn sá mesti reiðilestur sem ég minnist að hafa heyrt um eitt skattkerfi. Hér er allt í lamasessi. Hér er allt í ólagi frá upphafi til enda. Þetta er ærið tilefni til þess að hefjast handa um endurskoðun. Það er athyglisvert að Alþingi samþykkti lög um nýja gjaldtöku sem átti að koma í staðinn fyrir þungaskattinn, svokallað vörugjald á gas- og dísilolíu en áður en það kom til framkvæmda var ráðgjöf nefndar sem skipuð var til þess að fjalla um undirbúning og framkvæmd hlýtt. Hún komst að þeirri niðurstöðu að undirbúningi væri áfátt og lagði til frestun. Við það höfum við búið að þeirri lausn sem flestir hafa á annan áratug líklega litið á sem skynsamlegustu útfærsluna, verði frestað fram í ársbyrjun 1998.

Tilgangur hæstv. fjmrh. með því að flytja þetta mál er þess vegna að reyna að berja í brestina og koma einhverju lagi á þessa gersamlega misheppnuðu skattlagningu í þau tæp tvö ár sem við eigum eftir að búa við þessa skattlagningu, ef sett markmið nást.

Fyrir utan það sem upp var talið um ágallana á skattlagningunni í stóru og smáu er einnig rétt að nefna það að gagnrýnin fer í hinar hæstu hæðir í þeim atriðum sem tíunduð eru þessu til viðbótar vegna þess að því er beinlínis haldið fram að skattlagningin sé stjórnarskrárbrot. Það skýrist af því að hæstv. fjmrh. hefur samkvæmt gildandi lögum vald til ákvörðunar á fjárhæð þungaskatts og hann getur ákveðið lækkun og hann getur veitt undanþágur. Þetta er með öðrum orðum dæmi um það að Alþingi hefur framselt í hendur ráðherranum, eins og í gervallri landbúnaðarlöggjöfinni, skattlagningarvald Alþingis sem fullyrt er að er ótvírætt brot á 77. gr. stjórnarskrárinnar eins og henni var breytt síðast með breytingum á stjórnarskrárlögum 1995. Eðlilegri stjórnsýsluframkvæmd er ekki sinnt vegna þess að sami aðili, innheimtumaður ríkissjóðs, annast bæði álagningu og innheimtu. Síðan skortir með öllu ákvæði um skyldu ökumanna til þess að tryggja framkvæmd skattsins með skráningu á akstri og viðurkennt er að eftirlitið er allt í brotum. Og niðurstaðan er þessi sem sagt er í greinargerð, virðulegi forseti:

,,... undanskot leiða til þess að háar fjárhæðir skila sér ekki til ríkisins og raska jafnframt verulega samkeppnisstöðu þeirra sem standa heiðarlega að málum.``

Þeim heiðarlegu er með öðrum orðum refsað en hinir njóta þessarar gjösamlega misheppnuðu skattlagningar.

Það er ekkert nema gott um það að segja að hæstv. fjmrh. reyni að berja í brestina og það er gert með þessu frv. með því m.a. að taka á framkvæmdinni, að því er varðar stjórnarskrárbrotið, um að það sé Alþingi en ekki fjmrh. sem ákveði upphæð skattlagningarinnar, um aðskilnað framkvæmdarvalds að því leyti að innheimtumenn annist eingöngu innheimtu og að álagningin verði í höndum eins aðila, ríkisskattstjóra, að hert verði á eftirlitinu að því er varðar skráningu á akstri í akstursbók sem er forsenda skattlagningarinnar og að ríkisskattstjóri einn hafi heimild til að endurákveða fast gjald ef í ljós kemur að gjaldið hefur ekki verið réttilega á lagt. Auk þess er ákvæðum um viðurlög og refsingar breytt ef út af ber. Út af fyrir sig í ljósi þessa alls er ekki nema gott eitt um það að segja að reynt er að berja í þessa bresti.

Það sem helst veldur áhyggjum í ljósi forsögu málsins er hvort unnt er að treysta því að undirbúningi verði ekki áfátt þegar á að innleiða framkvæmd litunar á gasi og olíu þeim til hagsbóta sem eiga að vera undanþegnir skattinum. Spurning mín til fjmrh. er þessi: Getur hann frætt þingheim um það hvernig sá undirbúningur er á veg kominn? Getum við haft orð hæstv. ráðherra fyrir því að því megi treysta að þetta millibilsástand sem við eigum að búa við fram að ársbyrjun 1998 verði ekki framlengt eins og svo oft hefur því miður borið við á undanförnum árum?