Fjáröflun til vegagerðar

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 16:44:16 (4571)

1996-04-11 16:44:16# 120. lþ. 116.7 fundur 442. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (álagning, eftirlit o.fl.) frv. 68/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:44]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki ástæða til að svara meira því sem fram hefur komið. Þetta eru frekar hugleiðingar og skoðanaskipti í þessu mikilvæga máli. Ég held að ástæðan fyrir því í Evrópusambandinu að menn hafa verið að finna aðrar leiðir en að blanda í olíuna sé stöðlunar- eða samræmingarárátta bandalagsins til þess að allir skattleggi hlutina eins. Ef eitthvað fer yfir landamæri þá eru það einmitt bifreiðar sem flytja þungan varning. Út af þungaflutningum á sjó tek ég undir það að það er vissulega þannig að það á að nýta þá sem mest. Ég tel að það sé gert í dag. Það sem meira er að það hefur ekki komið fram hugmynd enn þá a.m.k., ekki einu sinni úr fjmrn. þó ómaksins virði væri að kanna það, að leggja skatt á olíuna sem notuð er á sjó. Samkeppnin ætti því að vera skipunum í hag. Hitt er svo annað mál að þegar við höfum verið að setja verulegt fjármagn í uppbyggingu á vegum út á land þá höfum við gjarnan rökstutt það með því að segja að við spöruðum einhverja hluti eins og hafnargerð, við gætum nýtt þessa vegi til að keyra á þeim, þar á meðal þungan flutning eins og þann sem við höfum verið að ræða hér í dag. Ég held að í framtíðinni verði þetta sambland af hvoru tveggja.

Ég vil enn ítreka þakkir mínar fyrir þessa umræðu sem ég tel að hafi verið ómaksins virði.