Tollalög

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 16:46:28 (4572)

1996-04-11 16:46:28# 120. lþ. 116.8 fundur 441. mál: #A tollalög# (yfirstjórn, málsmeðferð, tollskjöl) frv. 69/1996, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:46]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Frv. þetta er liður í áformum sem fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að kveða skýrar á um hlutverk, ábyrgð og verkaskiptingu milli æðri sem lægri stjórnsýslustiga innan tollakerfisins til að gera það skilvirkara. Jafnframt að tryggja borgurum betur en nú rétt til að fá efnislega umfjöllun sinna mála m.a. þegar ágreiningur rís um tollmeðferð vöru. Með frv. eru settar skýrar reglur um upplýsingaskyldu tollyfirvalda um hvaðeina sem snýr að tollafgreiðslu. Lagt er til að einfölduð verði tollafgreiðsla ýmiss smávarnings m.a. í pósti jafnframt því sem gert er ráð fyrir að tollmeðferð við inn- og útflutning á vörum í atvinnuskyni verði alfarið sniðin að nútímaupplýsingatækni og tölvuvæddum tollafgreiðsluháttum komið á í því skyni á árinu 2000.

Ég skal taka strax fram að frv. er eins og sjá má nokkuð flókið og í því eru mörg atriði sem þarf að kanna sérstaklega í nefnd. Ég mun ekki fara ofan í hvert einasta smáatriði enda tel ég það ekki við hæfi við 1. umr. málsins en ég legg áherslu á að ég tel að hv. nefnd verði og eigi að sjálfsögðu að kanna þetta mál til mikillar hlítar.

Við gildistöku tollalaga, nr. 55/1987, var ákveðið að stofna nýtt embætti, embætti ríkistollstjóra. Sérstakt heimildarákvæði var jafnframt sett í lögin þar sem gert var ráð fyrir að ákveða mætti að tollstjórinn í Reykjavík gegndi starfi ríkistollstjóra auk starfa sinna sem tollstjóri. Þetta fyrirkomulag var einungis hugsað sem liður í undirbúningi að stofnun sjálfstæðs embættis sem hefði með höndum yfirstjórn framkvæmdar tollheimtu og tolleftirlits og eftirlit og boðvald gagnvart einstökum tollstjórum. Ljóst var að ekki gengi til lengdar að eitt hliðsettra stjórnvalda, tollstjórinn í Reykjavík, hefði bæði eftirlit með eigin gerðum og annarra tollstjóra og því var fyrirhugað að þessi skipan mála væri tekin til endurskoðunar að fenginni nokkurri reynslu. Nú að tæpum níu árum liðnum frá setningu tollalaga er fengin nokkur reynsla af þeirri skipan tollstjórnarinnar og ýmsum þeim lagafyrirmælum sem þá voru lögfest. Verður að telja í ljósi fenginnar reynslu að nauðsynlegt sé að gera á lögunum ýmsar breytingar bæði að því er varðar yfirstjórn tollamála og einstök ákvæði er mæla fyrir um tolleftirlit, álagningu, innheimtu og úrlausn ágreiningsmála.

Grundvallaratriði í allri stjórnsýslu er að réttarstaða þeirra sé skýr sem framfylgja eiga eða hlíta þeirri löggjöf gildir sem á hverjum tíma um tollamál. Gildir það jafnt um sambandið á milli æðra og lægra setts stjórnvalds og um samskipti borgaranna við þessi stjórnvöld. Eins og áður sagði var sá kostur valinn við setningu tollalaganna árið 1987 að heimila ráðherra að fela tollstjóranum í Reykjavík að hafa eftirlit með og boðvald yfir hliðsettu stjórnvaldi. Jafnframt var ákveðið að setja upp tollgæsluna í heild sinni undir yfirstjórn ríkistollstjóra og fela líkt og áður sérstökum tollgæslustjóra stjórn hennar. Reynslan hefur leitt í ljós að staða þessara aðila er stjórnunarlega og stjórnskipulega óæskileg svo og valdmörk milli þeirra óljós. Sé á annað borð talin ástæða til þess að færa yfirstjórn vissra þátta tollamála sem stjórnunarlega eiga undir fjmrn. frá ráðuneytinu og fela öðru stjórnvaldi ætti tvímælalaust að fela hana sjálfstæðu embætti og kveða nánar í lögum á um verkefni sem það bæri ábyrgð á svo og kveða skýrt á um stöðu lægra settra tollyfirvalda gagnvart slíku embætti.

Á þessu stigi er lagt til að einungis verði gerðar þær breytingar að embætti ríkistollstjóra verði gert að sjálfstæðu embætti sem fari með yfirstjórn tollheimtu og tolleftirlits og hafi jafnframt eftirlit með störfum tollstjóra sem fari með stjórn þessara mála hver í sínu tollumdæmi, þar á meðal stjórn tollgæslu. Þegar stjórn þessara verkefna hefur verið færð heim í héruðin eins og er reyndar gert ráð fyrir í lögum nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, er ekki lengur grundvöllur fyrir því að gerður sé sérstakur greinarmunur á einstökum stöðum innan ríkistollstjóraembættisins eins og nú er.

Tollgæslumál eru aðeins einn þáttur tollamála sem tollstjórar sinna og eiga eins og önnur eftirlitsstörf að heyra undir ríkistollstjóra. Ber því að skipa tollgæslumálum þannig að þau verði eðlilegur hluti verkefna sem heyra undir embætti ríkistollstjóra. Því er lagt til að horfið verði frá því innan ríkistollstjóraembættisins að þar starfi sérstakur embættismaður sem beri starfsheitið tollgæslustjóri og starfið verði þess vegna lagt niður.

Fram hafa komið athugasemdir við þá tilhögun að tolleftirlit og rannsóknir tollamála sé á einni hendi. Í frv. er ekki gerð tillaga um breytingar á þeirri tilhögun en samkvæmt gildandi lögum er bæði eftirlit og rannsóknir falin ríkistollstjóraembættinu. Þó að rannsóknarþátturinn sé falinn sérstökum embættismanni, tollgæslustjóra, starfar hann undir stjórn ríkistollstjóra. Þær hugmyndir hafa verið ræddar og breyta núverandi skipan á þann hátt að taka rannsóknarþátt tollamála frá ríkistollstjóra líkt og gert var á árinu 1992 í skattamálum. Hefur m.a. verið skoðað hvort ekki sé æskilegt að færa rannsóknarþáttinn undir embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í frv. er ekki lagt til að sú leið verði farin að sinni en til skoðunar hefur verið sá möguleiki að sameina vissa þætti í tolla- og skattamálum. Slíka kerfisbreytingu þarf hins vegar að kanna mjög ítarlega og verður hún ekki gerð á einni nóttu.

Á árinu 1992 tók umboðsmaður Alþingis að eigin frumkvæði til athugunar skilyrði stjórnsýslukæru til ríkistollanefndar. Tilefnið var að umboðsmaður hafði orðið þess var við athuganir á kvörtunum og ábendingum sem honum höfðu borist hve þröng kæruheimild innflytjenda væri samkvæmt tollalögum. Í frv. eru lagðar til breytingar á lögunum í samræmi við tillögur umboðsmanns Alþingis. Mikilvægt er að framkvæmd tollalaga sé með þeim hætti að réttaröryggi borgaranna sé tryggt komi til ágreinings m.a. um tollmeðferð vöru. Einnig varðar miklu að skýrt sé kveðið á um réttaráhrif bindandi upplýsinga sem tollstjórar veita um tollflokkun vara. Þá er ekki síður mikilvægt að öllum sé ljós sú almenna upplýsingaskylda sem hvílir á tollyfirvöldum vegna tollmeðferðar vara og í öðru tilliti.

Það er mikilvægt fyrir aðila að geta átt málsskotsrétt að fengnu áliti tollstjóra um tollflokkun. Niðurstaða um tollflokkun getur haft úrslitaáhrif á viðskipti og því mikilvægt að unnt sé að leita úrlausnar óháðs úrskurðaraðila.

Þegar síðasta heildarendurskoðun laganna, sem snertu tollamál, fór fram árið 1987 og heildarlöggjöf var gefin út um þann málaflokk með tollalögunum, nr. 55/1987, var tekið upp heimildarákvæði í lögin til þess að hægt yrði að taka upp tölvuvædda afgreiðsluhætti eftir því sem tæknilegar aðstæður sköpuðust. Tölvuvædd álagning aðflutningsgjalda hófst í upphafi árs 1988 og hefur reynst vel. Þessi áfangi var hins vegar aðeins sá fyrsti af mörgum í átt til breyttra tollafgreiðsluhátta sem hefur síðan verið unnið að. Þótt mikil hagræðing hafi náðst fram með nýju tollafgreiðsluháttunum er ljóst að markmiðinu um fullkomið tölvuvætt tollafgreiðslukerfi verður ekki náð nema breyting verði á viðhorfum allra, jafnt yfirvalda sem fyrirsvarsmanna fyrirtækja, til mikilvægis þess að hámarka nýtingu þess tölvubúnaðar sem fjárfest hefur verið í.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl 1995 er í fyrsta skipti á Íslandi tekin upp á vettvangi stjórnmálaumræðu ákvæði er varða beinlínis beitingu upplýsinga og fjarskiptatækni til að bæta stjórnsýsluna en þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Þjónusta ríkisins verði sniðin að nútímatækni t.d. með nettengingu þjónustustofnana og pappírslausum tollviðskiptum.``

Í frv. þessu sem tekur mið af nefndri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og áliti ráðgjafarnefndar fjmrn. um upplýsingar og tölvumál er lagt til að horfið verði frá hefðbundnum skriflegum tollskýrslum sem afhenda beri hjá tollstjóra. Í þess stað verði stefnt að því á næstu árum að taka upp alsjálfvirka tölvuvædda tollafgreiðsluhætti og aðilum sem stunda milliríkjaviðskipti eða vöruflutninga í atvinnuskyni verði gert skylt að senda upplýsingar um vöruviðskipti og vöruflutninga með skjalasendingum milli tölva. Gert er ráð fyrir að slíkir tollafgreiðsluhættir hvort sem þeir snerta tollafgreiðslu vara eða flutningsvara verði komnir á um aldamótin 2000. Þótt mikil hagræðing hafi náðst fram með þessu nýju tollafgreiðsluháttum er ljóst að markmiðið um fullkomlega tölvuvætt tollafgreiðslukerfi verður ekki náð nema breyting verði á viðhorfum allra eins og ég hef sagt áður.

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðulaust á þessu stigi að fjalla frekar um frv. en vænti þess að það fái ítarlega umfjöllun í hv. efh.- og viðskn. og ég geri tillögu um að málinu verði vísað til 2. umr. og þeirrar hv. nefndar. Ég bendi hv. þm. á að ég hef ekki nefnt ýmis atriði í ræðu minni sem ég tel ástæðulaust að vera að fjalla sérstaklega um við 1. umr. en ég óska þess sérstaklega að nefndin lesi frv. vel og kalli til sín þá aðila, bæði í fjmrn., þá sem vinna við tollafgreiðslu, fulltrúa þeirra sem hafa atvinnu af því að flytja inn og út úr landinu og fulltrúa starfsmannahópa því að í vissum tilvikum kann frv. að hafa áhrif á þá þó ekki sé það í neinum verulegum mæli að mínu áliti.