Tollalög

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 17:03:50 (4576)

1996-04-11 17:03:50# 120. lþ. 116.8 fundur 441. mál: #A tollalög# (yfirstjórn, málsmeðferð, tollskjöl) frv. 69/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[17:03]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. sagði að það er brýnt vegna málaferla að afgreiða vörugjaldsmálin eða þau tvö frumvörp sem tilheyra því máli sem er annars vegar frv. til laga um breytingu á lögum um vörugjald og hins vegar frv. til laga til breytinga á lögum um virðisaukaskatt. Það er bráðnauðsynlegt að afgreiða þau frumvörp hvernig sem það endanlega verður gert til þess að losa okkur úr viðjum dómsmálsins og standa við samninga við erlend ríki.

Auðvitað er brýnt að afgreiða tollamálið líka vegna þess að kvartað hefur verið undan framkvæmdinni og umboðsmaður Alþingis sem er fulltrúi þessarar stofnunar og hefur eftirlitshlutverki að gegna gagnvart framkvæmdarvaldinu hefur bent á að ekki sé gætt í lögunum að því að hirða um rétt borgaranna. Þetta er stórmál frá mínum bæjardyrum séð.

Eins kemur í ljós að lögin frá 1987 eru úrelt og tefja fyrir tæknilegum framförum í málinu. Þess vegna get ég ekki annað en svarað þannig að það er brýnt að afgreiða þetta frv. þó að mér sé ljóst að heimurinn ferst ekki þótt því verði frestað. En ég vil ekki að svar mitt sé tekið svo að menn telji að ég sé að biðja um það, óska eftir því eða mælast til þess að málinu sé frestað. Ég held að þegar menn skoða málið þá sjái þeir að málið er brýnt.