Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 17:38:01 (4581)

1996-04-11 17:38:01# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[17:38]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. þeim sem hæstv. forseti lýsti í kynningu sinni. Mun ég fyrst víkja sögunni að frv. til laga um breyting á lögum um vörugjald og síðan um virðisaukaskattinn.

Fyrra frv., frv. um vörugjaldið, er flutt í tilefni af athugasemdum sem Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur gert við álagningu vörugjalds hér á landi. Stofnunin telur að lög nr. 97/1987, um vörugjald, samræmist ekki að öllu leyti ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Hefur stofnunin gert athugasemdir við tvö atriði í álagningu vörugjalds. Annars vegar sérstakt 25% álag á gjaldstofn innfluttrar vöru og hins vegar mismunandi greiðslufresti á vörugjaldi af innfluttum vörum og innlendum framleiðsluvörum. ESA hefur nú kært málið til EFTA-dómstólsins. Af hálfu Íslands hefur stofnuninni verið tilkynnt að gerðar verði breytingar á lögum um vörugjald til að mæta þessum athugasemdum. Reyndar hefur þeim nú þegar verið sent bréf og frumvarpi ríkisstjórnarinnar lýst í því bréfi.

Samkvæmt gildandi lögum ber að greiða vörugjald af tilteknum vörum sem eru fluttar til landsins eða eru framleiddar hér á landi. Gjaldið reiknast sem verðgjald þ.e. sem tiltekið hlutfall af verði vöru. Gjaldflokkar eru sjö og er hlutfall gjaldsins 6, 11, 16, 18, 20, 25 eða 30% af verði. Gjaldstofn innfluttra vara er tollverð þeirra samkvæmt tollalögum auk 25% áætlaðrar heildsöluálagningar. Gjaldstofn af innlendum framleiðsluvörum er hins vegar heildsöluverð vöru, þ.e. það verð sem greitt er eða greiða ber við sölu á vöru til smásala.

Greiða ber vörugjald af innfluttum vörum við tollafgreiðslu þeirra. Gjalddagi vörugjalds af innlendum framleiðsluvörum er hins vegar fimmti dagur þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna sölu eða afhendingar á því tímabili. Þetta var lýsing á núgildandi fyrirkomulagi í lögum.

Í frv. eru lagðar til ýmsar breytingar á álagningu vörugjalds sem miða að því að tryggja að jafnræðis sé gætt við álagningu vörugjalds á innfluttar vörur annars vegar og innlendar framleiðsluvörur hins vegar. Þannig er í fyrsta lagi lagt til að vörugjald verði lagt á ýmsar vörur í formi magngjalds í stað verðgjalds. Það þýðir að gjaldið reiknast sem tiltekin fjárhæð vegna tiltekins magns vöru mælt í kílógrömmum eða lítrum. Gert er ráð fyrir að magngjald verði lagt á sælgæti, drykkjarvörur, sykur og fleiri matvæli og að gjaldið reiknist sem krónur á hvert kílógramm eða á hvern lítra vörunnar. Fjárhæð gjaldsins verður miðuð við að gjald á þessar vörur lækki að jafnaði. Þá er gert ráð fyrir að magngjald verði lagt á hjólbarða og einangrunarefni.

Með álagningu magngjalds er tryggt að jafnræðis sé gætt við álagningu óháð því hvort vara er framleidd hér á landi eða erlendis, en það er grundvöllur samstarfsins sem á sér stað á milli Íslands og annarra ríkja á EES-svæðinu, að þessa jafnræðis sé gætt. Reyndar má segja að það sama gildi um samninginn sem byggir á GATT-samkomulaginu.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að vörugjald verði fellt niður af nokkrum vöruflokkum, t.d. málningu og litavörum, veggfóðri og af minni rafmagnsvörum til heimilisnota. Á þetta legg ég sérstaka áherslu vegna þess að þessar vörur, einkum málningarvörur, litavörur og veggfóður, eru vörur sem notaðar eru til byggingarframkvæmda.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að vörugjald verði áfram lagt á sem verðgjald á ýmsar vörur ef ekki er unnt að leggja á magngjald. Í slíkum tilvikum er gert ráð fyrir að samræmis verði gætt við álagningu vörugjalds á innfluttar vörur og innlendar framleiðsluvörur. Lagt er til að gjaldflokkum verði fækkað úr sjö í fjóra og að hlutfall gjaldsins verði 15, 20, 25 og 30%. Gjaldstofn innfluttrar vöru verður í þessum tilvikum tollverð að viðbættum tollum en án áætlaðrar heildsöluálagningar. Gjaldstofn innlendrar framleiðsluvöru verður verksmiðjuverð hennar í stað heildsöluverðs hennar eins og verið hefur.

Í fjórða lagi er lagt til að greiðslufrestur vegna vörugjalds af innfluttum vörum og innlendum framleiðsluvörum verði samræmdur með því að greiðslufrestur verði lengdur af innfluttum vörum en styttur af innlendum framleiðsluvörum.

Gert er ráð fyrir að uppgjörstímabil allra gjaldskyldra aðila verði tveir mánuðir og gjalddagi 15. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Þá er gert ráð fyrir að uppgjörstímabil færist til frá því sem nú er þannig að t.d. desember og janúar myndi eitt uppgjörstímabil í stað janúar og febrúar áður.

Ég tel ekki ástæðu til að rekja breytingar sem fólgnar eru í einstökum greinum frv. en vísa í því sambandi til greinargerðar með frv.

Á árinu 1995 námu tekjur af vörugjöldum um 2,9 milljörðum kr. Þar af námu tekjur af innflutningi rúmum 2 milljörðum kr. en tekjur af innlendri framleiðslu um 900 millj. kr. Gera má ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs muni lækka nokkuð við þær breytingar sem felast í frv. Áætlað er að tekjur af innflutningi lækki um nálægt 80 millj. kr. og nemi tæpum 2 milljörðum kr. en síðan er reiknað með að tekjur af innlendum framleiðsluvörum lækki meira, eða um 270 millj. kr. og verði því um 630 millj. kr. Í heild er því áætlað að tekjur ríkissjóðs af vörugjaldinu einu út af fyrir sig lækki um 350 millj. en að auki má reikna með að virðisaukaskattur af þessum vörum lækki um rúmlega 100 millj. kr. þannig að tekjutapið í heild verður um 450 millj. kr.

Til að mæta þessu tekjutapi er gert ráð fyrir að dregið verði úr endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við íbúðarhúsnæði þannig að í stað þess að skatturinn verði endurgreiddur að fullu eins og nú er verði einungis 60% hans endurgreidd. Frv. þessa efnis liggur fyrir og verður hér til umræðu ásamt þessu frv.

Þá skal tekið fram að ríkisstjórnin stefnir að frekari lækkun vörugjalda í tengslum við samræmingu á tryggingagjaldi á milli atvinnugreina. Ríkisstjórnin mun undirbúa slíka samræmingu og vörugjaldslækkun á næstunni og kemur hún væntanlega til framkvæmda á næstu árum. Í þeim áfanga er reiknað með lækkun á magngjaldi, lækkun á hæstu flokkum verðgjalds og fækkun á vörugjaldsskyldum vörum.

Ég vil láta það koma fram, virðulegur forseti, í framsöguræðu minni að í raun er verið að breyta meiru í þessu frv. heldur en nauðsynlegt er vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA. Ástæðan er sú að nokkurrar óánægju hefur gætt í röðum iðnrekenda, fyrst og fremst vegna þess að ákveðnar matartegundir, sykurvörur alls konar, sælgæti og gosdrykkir, liggja eftir í efri virðisaukaskattsflokknum. Talsverður þrýstingur hefur verið á stjórnvöld að breyta virðisaukaskattinum og færa þessar vörur á milli flokka eða í neðri flokkinn og í upphafi var gerð tillaga um það til ráðuneytisins að fara þá leið. Ef eingöngu væri verið að breyta lögum til þess að þóknast ESA og koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunarinnar þá hefði verið nóg að taka einungis á áætluðu heildsöluálagningunni sem er 25% annars vegar og að samræma gjaldfrestinn hins vegar á milli innlendu og innfluttu vörunnar.

[17:45]

Ég geri ráð fyrir því að í framtíðinni muni þessi tvö kerfi, virðisaukaskattskerfið og vörugjaldskerfið, renna saman í eitt kerfi. Það er til einföldunar og bóta. Ástæðan fyrir því að ekki tekst að gera það nú eins og það sýnist auðvelt er að skattar hér á landi af neyslu, þjónustu og vörum eru mun hærri en í okkar nágranna- og samkeppnislöndum. Skattkerfið íslenska er enn talsvert öðruvísi en í nágrannalöndunum. Í fyrsta lagi er skatthlutfall hér á landi af vergri landsframleiðslu lægra en í nágranna- og viðskiptalöndunum og síðan er samsetning skattteknanna öðruvísi. Í því sambandi má benda á að tæplega helmingur skatttekna íslenska ríkisins eru skattar af vörum og þjónustu, tekjur af tollum, vörugjaldi og virðisaukaskatti. Hins vegar eru tekjuskattar hér tiltölulega lágir en áberandi er hversu lág tryggingagjöldin eru hér á landi, þ.e. gjöld sem falla á launakostnað fyrirtækjanna. Það er rétt sem á hefur verið bent að víðast annars staðar hafa menn verið að færa sig í þá átt að draga úr sköttum á launakostnað fyrirtækjanna og það hefur verið nefnt til sögunnar gegn þessu frv. að við séum að fara í þveröfuga átt. Ég minnist á þetta hér vegna þess að ef við berum saman tryggingagjaldið hér við tryggingagjaldshlutfallið annars staðar í Evrópu þá er það víðast hvar þrisvar til fjórum sínnum hærra í okkar nágrannalöndum ef Danmörk er undanskilin en þar er tryggingagjaldið mjög lágt en tekjuskatturinn hins vegar miklu hærri að hlutfalli til heldur en hér á landi. Þetta vil ég að komi fram vegna þess að ef menn ætla að steypa saman þessum tveimur kerfum þá er útilokað annað en að létta sköttum af neyslunni og færa yfir á aðra þætti í efnahagsstarfseminni. Hvernig það verður gert skal ég ósagt látið en ég tel að ekki sé hægt að víkjast undan slíkum breytingum því það er varla verjandi til frambúðar a.m.k. að virðisaukaskattshlutfallið sé miklu hærra hér á landi heldur en í viðskipta-, samkeppnis- og nágrannalöndum. Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi skýrt fram við þessa umræðu málsins.

Varðandi hitt frv. sem hér er til umræðu þá er lagt til að endurgreiðsla á virðisaukaskatti til byggjenda íbúðarhúsnæðis af vinnu manna á byggingarstað verði lækkuð í 60% af greiddum virðisaukaskatti eins og ég sagði áðan. Þessi breyting hefur í för með sér að byggjendur íbúðarhúsnæðis fá einungis 60% af greiddum virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað endurgreiddan í stað þess að fá hann endurgreiddan að fullu eins og nú er. Ég tek það fram að sá háttur sem hér er stundaður, að endurgreiða að fullu virðisaukaskatt af vinnu á byggingarstað, er séríslenskt fyrirbæri og þekkist ekki annars staðar. Þar sem menn hafa gripið til frádráttarreglna er það yfirleitt gert á vettvangi tekjuskattsins en ekki virðisaukaskattsins og samt eru þjóðir að reyna að hverfa frá frádráttarreglum tekjuskattsins.

Frv. er lagt fram í tengslum við vörugjaldsmálið og talið er að með breytingum á virðisaukaskattslöggjöfinni megi hækka tekjur um 450 millj. kr. og þær tekjur verða notaðar til að lækka vörugjöld frá því sem nú er. Það má gera ráð fyrir því að endurgreiðslur á virðisaukaskatti af vinnu manna við íbúðarhúsnæði muni lækka um 440 millj. kr. en áætlað var að heildarendurgreiðslur á árinu mundu nema um það bil 1.100 millj. kr. Þá er auðvitað gert ráð fyrir því að skil séu sambærileg.

Þrátt fyrir að frv. þetta muni hafa í för með sér töluverða lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna við íbúðarhúsnæði má gera ráð fyrir að niðurfelling og lækkun á vörugjöldum, þar á meðal af ýmsum byggingarvörum, t.d. málningu, einangrunarefni og lagnaefnum ýmiss konar, muni draga úr kostnaðaráhrifum.

Á þessari stundu sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessi frumvörp. Það er ljóst að nauðsynlegt er a.m.k. frá sjónarhóli ríkisstjórnarinnar að afgreiða þetta mál á þessu þingi því að ef málaferlum við íslenska ríkið heldur áfram þá er ekki víst að niðurstaða dómsins takmarkist við það mál sem lá til grundvallar heldur geta fleiri þættir verið teknir upp af dómstólnum. Ef niðurstaða dómstólsins yrði okkur í óhag þá gætu menn farið í skaðabótamál við ríkið á grundvelli dómsniðurstöðunnar ef þeir geta sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir fjárhagstjóni og aðrar þjóðir beitt Íslendinga refsingu sem hægt er að grípa til á grundvelli EES-samningsins, þar á meðal tollahækkunum eða gjaldhækkunum á útflutningi á okkar vörum, t.d. fiski. Þess vegna er mjög mikilvægt að komið sé til móts við þessar kröfur ESA og unnið að þeirri samræmingu sem er grundvallaratriðið í þessum frv.

Ég mæli með því, virðulegi forseti, að þessi frv. bæði fái venjulega meðferð, þeim sé vísað til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.