Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 18:24:16 (4584)

1996-04-11 18:24:16# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[18:24]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni, erum við að ræða býsna stórt mál sem þarf að afgreiða í hvaða mynd sem það verður þegar hv. efh.- og viðskn. hefur farið í gegnum það því að það er ljóst að þegar hafa komið fram veruleg mótmæli gegn þessu frv. og þeirri leið sem hér er farin.

Mér finnst nauðsynlegt í þessu samhengi að rifja upp sögu þessa máls því að hún er býsna merkileg og vekur margar spurningar. Ég hef einmitt átt þess kost að fylgjast með þessari sögu allt síðasta kjörtímabil og það sem af er þessu. Það varð ljóst við vinnslu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að það yrði að gera allverulegar breytingar á þeim lögum og reglum sem hér giltu um tolla og vörugjöld. Sú leið var farin að breyta allmörgum tollflokkum yfir í vörugjöld á sínum tíma auk þess sem gerðar voru ýmiss konar tilfærslur milli flokka, hækkanir og lækkanir. Mjög miklar breytingar voru gerðar að því er ég hygg 1994 þegar þau lög gengu í gildi. Það kann að hafa verið 1993 reyndar. Tíminn líður hratt og það er erfitt að henda reiður á því hvað gerðist á hverju þingi.

Hv. efh.- og viðskn. lagði á sínum tíma mikla vinnu í þessar breytingar og mér er það afar minnisstætt að fulltrúar fjmrn. voru margoft inntir eftir því hvort þessar breytingar mundu standast EES-samninginn. Þeir fullyrtu að svo væri. Ekki veit ég hvort þetta er bókað í fundargerðir hv. nefndar en mér er þetta afar minnisstætt, ekki síst vegna þess sem síðar gerðist. Það var hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem leiddi þessa vinnu á sínum tíma. En það var ekki fyrr búið að samþykkja þessi lög fyrr en hann fór á hinn vinnustaðinn, til Verslunarráðsins sem átti síðan frumkvæði að því að kæra þessi lög. Svona gerast kaupin á eyrinni á hinu háa Alþingi. Og það kom í ljós að samkvæmt áliti Eftirlitsstofnunar EFTA stóðust þessar breytingar ekki EES-samninginn.

Ég rifja þetta upp vegna þess að við höfum rekið okkur á nokkur dæmi þess að það sem fullyrt var að lagasetning stæðist samninginn um EES. Þar vitna ég t.d. til breytinga á áfengislögum og slíku. Það var fullyrt á sínum tíma að það þyrfti engar breytingar en annað kom í ljós og sú spurning vaknar hvort það kunni að vera fleira. Í sjálfu sér er það ekkert óeðlilegt. Þarna var um mjög miklar breytingar að ræða og alveg ljóst að það yrði að gera margvíslegar breytingar á markaðskerfi okkar og þar með tekjuöflun ríkisins vegna þess að við höfum að mörgu leyti búið við annað kerfi en er úti í Evrópu. Megininntak EES-samningsins er að ekki megi mismuna. En það er niðurstaða ESA eða Eftirlitsstofnunar EFTA að gildandi lög hér á landi valdi tvenns konar mismunun. Hún lýtur annars vegar að því hvernig þessi gjöld eru innheimt en hins vegar því að greinarmunur er gerður á innflutningi og innlendri framleiðslu. Frammi fyrir þessu stöndum við einfaldlega og það verður að bregðast við. Þá kemur að því hvernig ríkisstjórnin bregst við.

Áður en ég kem að því vil ég aðeins víkja að réttmæti gjalda eins og vörugjalda og tolla. Ég held að það verði ekki fram hjá því horft að skattar af þessu tagi eru á undanhaldi. Það er vegna þess hvað þeir geta valdið mikilli mismunun og einnig þess að það er í hæsta máta óeðlilegt að einstök ríki séu að skattleggja framleiðslu annarra þjóða. Menn mæta því auðvitað með því að skattleggja á móti. Við erum alltaf að berjast fyrir því að koma okkar fiski tollfrjálst inn á markaði hvar sem er í heiminum en erum þar á móti að stunda mjög mikla skattlagningu á framleiðslu annarra þjóða.

[18:30]

Ég er ekki nógu vel að mér í þeirri miklu umræðu sem á sér stað núna í Bandaríkjunum um skattlagningu en ég hef fengið í hendur gögn. Þar er mikil hreyfing á ferð sem gengur út á það að reyna að afnema tekjuskatt vegna þess hvað hann er óréttlátur. Það er fyrst og fremst ákveðinn hópur launafólks sem greiðir þann skatt. Þeir sem eru inni á þessari stefnu vilja í staðinn taka upp neysluskatta. Ég hef skilið það svo að þar væri fyrst og fremst verið að tala um virðisaukaskatt eða jafngildi þess sem við köllum virðisaukaskatt. Það sé miklu réttlátara að skattleggja neysluna og þá borga þeir sem neyta. Í því getur líka falist ákveðið mismunun. Hvað um þá sem ekki hafa efni á að neyta? Er ekki þar með verið að draga úr þeirra möguleikum til að njóta lífsins? Ég nefni þetta hér vegna þess að það eru töluverðar umræður í gangi úti í heimi varðandi réttmæti skatta af ýmsu tagi og hvaða skattar séu þá réttlátastir. Við höfum verið með tekjuskatta og eignarskatta og jafnframt með allverulega tolla, vörugjald, jafnframt virðisaukaskatt. Sú þróun sem hefur átt sér stað hér á landi á undanförnum árum er í þá veru að sköttum hefur verið létt verulega af atvinnulífinu og jafnframt velt yfir á launafólk. Það má segja að að sumu leyti hafi orðið nokkurt afturhvarf vegna þess að ríkisstjórnin viðurkennir að lengra verði ekki gengið í skattheimtu á launafólk. Ég held að það sé almenn skoðun að þar sé ríkið komið út á ystu nöf hvað varðar almennt launafólk. En þess hefur orðið vart fyrir síðustu áramót og einnig í sambandi við þetta frv. að eina leiðin sem ríkisstjórnin sér til þess að mæta tekjutapi sínu er þessi skattur á atvinnulífið sem kallað er tryggingagjald. Í því samhengi get ég ekki látið hjá líða að rifja upp þau miklu mótmæli sem komu fram í nóvember/desember á síðasta ári þegar á hinu háa Alþingi var unnið að 0,5% hækkun á tryggingagjaldi sem þá átti að skila heilum milljarði í ríkissjóð. Það var svo merkilegt með þá hækkun að henni var mótmælt úr öllum áttum m.a. af Alþýðusambandinu sem sagði sem svo að það væri miklu nær að veita atvinnulífinu eða fyrirtækjunum svigrúm til þess að hækka laun í stað þess að vera að skattleggja þau með þessum hætti.

Ég kom að því í umræðunni þá að sjávarútvegurinn benti m.a. á það hve tryggingagjaldið hefði þá þegar verið hækkað mikið. Það kom fram að með þessari 0,5% hækkun hafði tryggingagjaldið gagnvart sjávarútveginum verið hækkað um 45% á fimm árum. Hér er sem sagt verið að tala um hækkun til viðbótar til þess að mæta þessu tekjutapi. Ein helsta röksemdin í mótmælum atvinnulífsins við lok síðasta árs var einmitt það að tryggingagjaldið væri skattur af því tagi sem ekki tæki neitt tillit til afkomu fyrirtækja. Þar verða allir að borga sína prósetnu hvernig sem staðan er. Það vakna því auðvitað spurningar varðandi réttmæti þessa gjalds og jafnframt það að atvinnugreinar skuli greiða mismunandi gjald en fyrir því hafa verið ákveðin rök. Það er því alveg ljóst að sú leið sem ríkisstjórnin hyggst fara til þess að mæta því 800 millj. kr. tekjutapi sem verður vegna breytinga á lögum um vörugjald á eftir að kosta allnokkur átök. Það hefur þegar komið fram í mótmælum ýmissa aðila, ekki síst iðnrekenda.

Þá kem ég að því hvernig unnið var að þeim breytingum sem þetta frv. boðar. Þar kemur fram að hæstv. fjmrh. skipaði nefnd til að leita leiða til að mæta gagnrýni Eftirlitsstofnunar EFTA og sú nefnd kom með ýmsar tillögur. Hún lagði til að það yrði tekið upp magngjald það sem hér er verið að leggja til en jafnframt var lögð til hækkun á virðisaukaskatti.

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins sem birtist fimmtudaginn 4. apríl var farið í gegnum þetta mál og m.a. rætt við fjmrh. og fleiri. Þar kom fram að í ríkisstjórninni mætti sú tillaga að hækka virðisaukaskattinn mikilli andstöðu og var í rauninni hafnað. Ég er svo sem ekki hissa á því. Eins og fram kom í máli hæstv. fjmrh. er virðisaukaskattur mjög hár hér. Samt sem áður verður að horfa á hann í tengslum við aðra skattlagningu hér á landi. Þeir lögðu jafnframt til að matvara sem enn væri í efra þrepi virðisaukaskattsins eins og sælgæti, gos og kex yrði lækkuð niður í neðra þrepið en þrepið jafnframt hækkað um 1%, úr 14 upp í 15%. Þetta er umdeilanlegt og á fundi sem efh.- og viðskn. var boðuð til af hálfu Samtaka iðnaðarins voru þeir m.a. að rökstyðja þessar tillögur sínar og fannst ekki öllum mjög sannfærandi þegar þeir voru að rekja samkeppnistöðu sælgætis og goss andspænis mjólk en nýjustu rannsóknir virðast leiða í ljós æ meiri hollustu mjólkur. Meðal annars er nýbúið að benda á að hugsanlega dragi neysla mjólkur úr brjóstakrabbameini. Þetta er afar athyglisvert og kemur inn á neyslupólitík ríkisins, manneldisstefnu og fleira slíkt. En iðnrekendur líta á það sem röskun á samkeppnisstöðu hvernig búið er að landbúnaðarvörum hér.

Niðurstaðan varð sem sagt sú að hér er farin þessi leið að innheimta magngjöld, þ.e. tiltekna fjárhæð fyrir hvert kg eða hvern lítra af gjaldskyldri vöru og hins vegar sem tiltekið hlutfall af verðmæti gjaldskyldrar vöru. Í greinargerð frv. er farið yfir þær leiðir sem stóðu til boða og því lýst hvers vegna niðurstaðan varð að fara þessa leið.

Ég get tekið undir það með þeim þingmönnum sem hér hafa talað að þetta er umdeilanlegt og hv. efh.- og viðskn. þarf að skoða mjög rækilega hvort aðrar leiðir séu færar eða hvað þetta þýðir, hvaða afleiðingar þessi leið hefur og hvernig muni ganga að framkvæma þessa gjaldtöku. Það er ekki gott að átta sig á því.

Það kemur fram í frv. að þessi leið mun valda því að nokkrar vörutegundir lækka í verði og það er góðra gjalda vert. Það má auðvitað spyrja sig að því hvort sú lækkun leiði til aukinnar neyslu og þar með til meiri tekna sem að einhverju leyti komi þá á móti þessu tekjutapi þannig að það verði ekki eins mikið og reiknað er með. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. fjmrh. hvort menn reikni inn í þessa tölu aukna neyslu. Það hefur oft verið bent á að það sé miklu nær að reyna að lækka tolla, lækka verðlag og ná inn auknum tekjum með aukinni sölu.

Að lokum vil ég koma að því atriði sem er til umræðu á eftir sem er endurgreiðslan á virðisaukaskatti af byggingarvinnu. Það kemur fram í mótmælum atvinnulífsins að þeir horfa á þetta mjög gagnrýnum augum og þetta er auðvitað mjög umdeilanlegt mál og umdeilanleg aðferð að... (Gripið fram í: Þau eru, bæði málin, í umræðu núna.) Nú, var mælt fyrir báðum? Það fór algerlega fram hjá mér. Það er þá eins gott að ræða þetta, ég þakka þm. ábendinguna. Ég brá mér frá þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir málinu. (Fjmrh.: Það skýrir ýmislegt.) Það skýrir ekki mjög margt, ekki nema það að mér var ekki ljóst að málin væru bæði til umræðu. Það breytir engu en ég vil setja mjög stórt spurningarmerki við þessa aðferð. Við vitum öll að það er mikið um skattsvik í byggingariðnaði og ekki síst því sem snýr að viðgerðum á heimilum og ýmsu slíku. Ég hygg að sú leið sem hér er farin muni einmitt valda því að skattsvik og svört starfsemi aukist eins og bent hefur verið á. Ég held að þetta sé mjög umdeilanleg leið sem hæstv. fjmrh. er að leggja til og að hér sé verið að ýta undir svarta atvinnustarfsemi sem auðvitað er of mikil þótt erfitt sé að áætla hversu mikil hún er.

Það hefur verið bent á að þetta muni valda hækkun á byggingarvísitölu og í viðtali í Morgunblaðinu segir Sveinn Hannesson framkvæmdastjóri að þetta muni líklega leiða til 3--3,5% hækkunar á byggingarvísitölu. Við vitum hvaða áhrif það hefur á allt okkar kerfi þannig að þetta er mál sem þarf að skoða mjög rækilega, þ.e. annars vegar tryggingagjaldið og hins vegar þessa breytingu á virðisaukaskattinum. Ég vil sem sagt gagnrýna það mjög að þessi leið sé farin en auðvitað er mér ljóst að á einhvern hátt verður ríkið að ná þessum tekjum inn þótt kannski megi benda á að ríkisstjórnin hefur hrósað sér mjög af efnahagsbata og allt sé á réttri leið þannig að þetta jafnar sig kannski upp að einhverju leyti. Aðalatriðið er að við aðgerðir og breytingar eins og þessar verða menn að átta sig á afleiðingunum, hvað þær hafa í för með sér og hvað þær þýða. Það er verr af stað farið en heima setið ef þær breytingar og þær leiðir sem ríkisstjórnin er að fara til tekjuöflunar valda því að skattsvik og svarti markaðurinn vex og að það sé verið að leggja álögur á atvinnulífið án þess að tekið sé tillit til stöðu þess. Það er skattlagning sem er ekki af hinu góða. Væri þá ekki nær að hækka aftur tekjuskattinn á atvinnulífið um eins og 1% eða hvað sem þyrfti til þess að ná þessari tölu? Ég væri frekar til í að fara þá leið, þar er þó tekið tillit til stöðu fyrirtækjanna.