Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 18:45:33 (4585)

1996-04-11 18:45:33# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[18:45]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun taka þátt í umræðum síðar, en ég tel ástæðu til þess að koma að tveimur atriðum sem hv. þm. nefndi. Í fyrsta lagi liggur það í augum uppi að lækkun vörunnar og meiri neysla af þeim sökum breytir engu um tekjur ríkissjóðs einfaldlega vegna þess að samtals breytist kaupmátturinn ekki, þ.e. kaupmáttur ráðstöfunartekna þegar allt er samanlagt. Það er jafnmikið tekið út og kemur inn í hagkerfið. Dæmið er gert upp á núlli þannig að það á ekki að breyta neinu.

Í öðru lagi man ég að sjálfsögðu vel eftir því þegar við vorum að ræða í aðdraganda EES-samningsins um tolla og vörugjöld. Og ég kannast vel við það að fjmrn. og þar á meðal sá sem hér stendur, sagði: Það stenst EES-samninginn að breyta tollum í vörugjöld. Um það snerist málið þá. Það voru stórkaupmenn sem sögðu: Það stenst ekki. Það er bannað að leggja á tolla eða ígildi tolla. En fjmrn. svaraði því til að tollar væru aflagðir, vörugjöld upp tekin og það er grundvallaratriði í vörugjöldum að ekki sé gerður munur á innflutningi og innlendri framleiðslu. Þetta var svarið. Þetta svar stendur enn. Það sem síðar hefur komið í ljós og er athugasemd ESA nú, er að það er ekki heimilt að nota áætlaða álagningu á innflutning eða heildsöluálagningu á innflutning og það er ekki heimilt að nota mismunandi reglur við greiðslufrest. Það er það sem þeir eru að kæra en ekki hitt sem var til umræðu í upphafi um það hvort mætti breyta tollum í vörugjöld.

Þetta vildi ég láta koma fram á þessu stigi málsins.