Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 19:04:53 (4590)

1996-04-11 19:04:53# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[19:04]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þann skilning sem hv. þm. hafa sýnt á því að nauðsynlegt er að afgreiða þetta mál á yfirstandandi þingi ef nokkur kostur er. Eins heyri ég á hv. þm. að þeir skilja að það hefur verið nokkrum erfiðleikum bundið að finna þær tillögur sem mest samstaða er um í málinu.

Hv. þm. Ágúst Einarsson spurði: Af hverju var ekki farið eftir tillögu nefndarinnar? Ég held að það sé nauðsynlegt að menn hafi það á hreinu hvernig málið þróaðist. Hinn 10. júlí er skipuð nefnd. Þessi nefnd starfar og ég veit að hún safnaði upplýsingum. Það voru reyndar hinar og þessar mögulegar og ómögulegar tillögur hjá nefndarmönnum. Loksins 10. febrúar skilaði hún niðurstöðum. Þær niðurstöður snerust ekki um deilumálið við ESA, heldur var þar tekið á miklu fleiri og stærri þáttum. Þeir sem hafa kynnt sér niðurstöðuna sjá að þar var verið að tala um milljarða sveiflur í fjármagni.

Þegar þessi skýrsla lá fyrir, ræddi ég við fulltrúa Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins. Í þeim viðtölum kom í ljós að Alþýðusambandið sætti sig ekki við niðurstöðu nefndarinnar. Þeir báru fyrir sig að ef neðra þrepið í virðisaukaskattinum yrði hækkað úr 14 í 15%, teldu þeir það svik á samningum. Ég mótmælti því. Ég tel þetta ekki vera svik á samningum en taldi að það væri ekki þess virði að keyra málið í gegn, ekki síst vegna þess að hækkunin á neðra þrepinu var ekki nauðsynleg vegna ESA-málsins. Í framhaldi af því var málið rætt og menn höfðu skilning á því að það væri óæskilegt að fara gegn hugmyndum Alþýðusambandsins. Fulltrúar Vinnuveitendasambandsins, iðnrekenda ... (Gripið fram í: Það var í þessu máli, ekki í öðrum málum.) Í þessu máli sérstaklega. Nei, nei, þetta er ekki algild yfirlýsing. Það stóð þannig á því eins og ég var að segja að í raun og veru var verið að reyna að ná utan um fleiri þætti en þá sem ESA-málið snerist um. Þess vegna eru kannski ekki rök fyrir því á þessari stundu að gera svo veigamiklar breytingar á skattamálunum. Það yrði að bíða betri tíma.

Í framhaldi af þessu ræddu aðilar vinnumarkaðarins sem svo eru kallaðir og fulltrúar ráðuneytisins óformlega saman og eftir nokkurt þóf fæddist hugmynd sem menn töldu að þeir gætu látið yfir sig ganga, þ.e. að fara þá leið sem hér er farið að öðru leyti en því að fjármagna lækkunina á vörugjöldunum með því að hækka efra þrepið um hálft stig, en það gefur tæplega 800 millj. Á þeirri stundu var þessum aðilum ljóst að ekki var ljóst hvort ríkisstjórnin mundi samþykkja þessa niðurstöðu, enda heyri ég að ef svo hefði orðið, þá hefði það hlotið gífurlega gagnrýni hérna af hálfu hv. stjórnarandstæðinga eins og fram hefur komið í þeirra máli. Það var ekki neinn stuðningur við þetta af hálfu Alþýðusambandsins en skilningur á því að einhvern veginn þyrfti að leysa málið.

Niðurstaðan varð því sú að leita enn á ný eftir nýrri tillögu um fjármögnun. Þá var farið í það að taka á endurgreiðslu á virðisaukaskattinum. Nú ræða menn um það eins og það sé einhver ný tillaga sem ríkisstjórninni hafi dottið í hug og hafi ekki verið á borðunum áður. Ég vil taka það sérstaklega fram að í tillögum nefndarinnar sem iðnrekendur skrifuðu undir er gert ráð fyrir því að ekki einungis 40% endurgreiðslunnar falli niður heldur að öll endurgreiðslan falli niður. (KÁ: Hóta að koma með aðrar aðgerðir.) Nei, það er misskilningur sem þeir hafa verið að segja og geta ekki staðið við að það kemur lauslega fram í textanum að þeir vilji að það sé tekið á þessum vanda um frádrátt vegna byggingarframkvæmda, í tekjuskattinum. En það er hvergi gert ráð fyrir því að það eigi að bæta ríkissjóði það upp. Ég vek aðeins athygli á því að það var ekki verið að búa til nýjar tillögur, heldur var efniviðurinn sóttur í tillögu iðnrekenda og stórkaupmanna ásamt tillögum fulltrúa ráðuneytisins. (SvG: Hann er jafnvitlaus fyrir það.) Það má vel vera. En ég heyri að hv. þm. Svavar Gestsson, sem er sérstakur talsmaður Vinnuveitendasambandsins við þessa umræðu, hefur þó haldið þessum rökum fram.

Ég er að lýsa sögunni m.a. vegna þess að það sem Félag ísl. iðnrekenda kallar víðtækt samkomulag er ekki nefndarniðurstaðan, heldur þær viðræður sem fóru fram í framhaldi af 10. febrúar og þar til í byrjun marsmánaðar.

Hv. þm. Ágúst Einarsson gagnrýndi magngjöldin réttilega út frá því sjónarmiði að það er hætta á því að innkaup verslana t.d. verði óhagstæðari. Þá spyrja menn: Var ríkisstjórnin að gera tillögu um þetta? Þetta eru návæmlega sömu tillögurnar og lágu fyrir bæði í því sem iðnrekendur kalla víðtækt samkomulag og einnig í upphaflegu tillögunum. Þar er meira að segja enn þá meiri áhersla lögð á magngjöldin og hefði riðlað verðhlutföllunum meira en gert er ráð fyrir í þessum tillögum. Þetta er því ekki eitthvað sem ríkisstjórnin fann upp. Þetta kemur úr tillögum hópsins og var hluti af þessu víðtæka samkomulagi sem íslenskir iðnrekendur eru sífellt að benda á.

Þá talaði hv. þm. um tekjuöflunina, um virðisaukaskattinn á byggingarstað og benti á að iðnrekendur hefðu reiknað það út að þetta hefði 3--3,5% áhrif á vísitöluna. Ég hef ekki reiknað þetta út og hv. þm. hafði ekki reiknað þetta út --- en það kom fram að einhver hafði misskilið þetta --- heldur eru þetta útreikningar Félags iðnrekenda. Það er Sveinn Hannesson sem hefur haldið þessu fram. Ég ætla ekki að rengja þessa útreikninga. Ég hef ekki prófað þá.

Þá verða menn að hafa það í huga að ýmislegt lækkar á móti, ekki samsvarandi og ekki í fyrri áfanganum eins mikið og í þeim seinni. En ég minni á að málning, lagnaefni, einangrun og fleira lækkar (SvG: Kveikjarar.) upp í þennan byggingarkostnað Nei, við notum ekki kveikjara til þess að byggja. En af því að ég veit að hv. þm. er gamall niðurrifsmaður úr Neskaupstað, hann vann við að rífa hús þar, þá get ég vel fallst á að það er hugsanlegt að nota kveikjara við þá iðju (SvG: Þú segir það.) en ekki við uppbyggingarstarfsemina. Og þar að auki munu húsbyggjendur eins og aðrir njóta lækkunarinnar. En það er rétt sem fólst í spurningu hv. þm. að þetta eru ekki nákvæmlega sömu aðilarnir. Það jafnast enn meira þegar að síðari hlutanum kemur því að þá verður hann fjármagnaður með tryggingagjöldum sem ekki bitna á húseigendum að sama skapi því að samkeppnisiðnaðurinn er í neðra þrepinu en hinn iðnaðurinn ekki.

Loks ræddi hv. þm. um eftirlitið og minntist á Vatnsberamálið í því sambandi. Þetta mál snýr einmitt öfugt við Vatnsberamálið. Vandinn í Vatnsberamálinu er vandi virðisaukaskattsins, svona barnasjúkdómur virðisaukaskattsins að menn svindla með því að fá greiddan út innskattinn. Hér er ekkert um slíkt að ræða þannig að ef menn fara í svarta atvinnustarfsemi og gefa ekki upp virðisaukaskattinn, þá fá menn engar endurgreiðslur því að það sést enginn virðisaukaskattur. Málið horfir því akkúrat öfugt við. Hættan í þessu máli er sú sem hefur komið fram að menn ráða sig til vinnu og gefa ekki upp vinnuna og svindla síðan á tekjuskattinum. Það er stóra vandamálið í sambandi við skattsvikin. Og þá verða menn að meta hvort þessi 60% afsláttur dugi til þess að menn vilji gefa upp vinnuna vegna þess að þá eiga húsbyggjendur tækifæri á því að geta fengið þetta endurgreitt. Um það snýst þetta mál.

[19:15]

Þá spurði hv. þm. um síðari áfangann og tryggingagjaldið. Í því sambandi vil ég segja að ríkisstjórnin hefur samþykkt að undirbúa málið. Í því felst eins og ég skil þetta að við eigum að undirbúa það að samræma tryggingagjald allra atvinnugreina. Eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson minntist á hefur það verið reynt áður. Reyndar var það í upphaflega frv. en var strikað út af þinginu á sínum tíma í upphafi árs 1990 þegar þetta mál var til umræðu og öllum þessum gjöldum var steypt inn í tryggingagjaldið. Ég held að það hafi verið þá frekar en fjórum árum áður. Þetta þýðir miðað við ástandið eins og það er í dag að tryggingagjaldið yrði þegar breytingin hefur átt sér stað 5,5%, þ.e. efri flokkurinn myndi lækka og sá neðri myndi hækka. Við reiknum með að þetta taki talsverðan tíma og það þurfi aðlögunartíma. Þetta getur þurft nokkur ár. Ég geri mér ljósa grein fyrir því að þetta verður erfitt t.d. í sjávarútveginum og landbúnaðinum. Í landbúnaðinum myndi þetta koma út í vöruverðinu, sjávarútvegurinn yrði væntanlega að bera þetta sjálfur ef ekki kæmi til gengisbreytingar. En ég minni á að þetta er kannski leið sem a.m.k. þeir sem eru hrifnir af veiðileyfagjaldi gætu stutt því þarna mundu a.m.k. jafnast skatturinn á atvinnugreinar en það er úrelt að mínu viti og flestra þeirra sem hér hafa talað að gera mun á skatthlutföllum eftir atvinnugreinum. Þetta mál þarf auðvitað að skoða ofan í kjölinn en þetta er hugmyndin og ef við þurfum að sækja 350 millj. þegar sameiningin á sér stað þýðir það 0,2% hækkun þannig að virðisaukaskatturinn væri líklega 5,7. Þetta eru lauslegir útreikningar mínir á þessu.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson ræddi nokkuð þessi sömu efni og reyndar gerðu flestir hv. þm. það aðrir en hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir að gerast talsmenn Félags iðnrekenda og Vinnuveitendasambandsins. (Gripið fram í: Er það eitthvað verra?) Nei, það er ekki verra nema síður sé og batnandi mönnum er best að lifa í þeim efnum. Þá er sagt að það sé verið að ýta undir skattsvikin með því að fara þessa leið. Hv. þm. Svavar Gestsson sagði það líka. En ég minni á að ef við hefðum hækkað virðisaukaskattinn eins og niðurstöður bentu til áður þá er það líka til þess að auka skattsvikin. Það liggur fyrir í öllum niðurstöðum skattsvikanefnda að hærri hlutföll í skattinum leiða til meiri skattsvika. Menn verða því að sjá frammi fyrir hvaða vali ríkisstjórnin stóð.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson ræddi síðan um alþjóðlega þróun í sköttun. Ég hafði svarað því í minni upphafsræðu mjög rækilega að íslenska skattkerfið lítur öðruvísi út en skattkerfi nágrannalandanna og það er þess vegna beinlínis rangt að halda því fram að við séum að fara einhverja öfuga leið. Ef hægt er að halda einhverju fram þá erum við að fara þá leið að samræma íslenska skattkerfið skattkerfi nágranna-, viðskipta- og samkeppnislandanna þegar við förum þá leið sem lögð er til í frv. og þá leið sem fyrirhuguð er í seinni áfanga málsins.

Hv. þm. Svavar Gestsson ræddi síðan um gildistökuna. Ég hygg að það sé vísara að láta gildistökuna verða fyrr ekki síst vegna þeirrar gagnrýni sem kemur úr röðum ESA. Ég býst við því að í þessu efni sé eðlilegast að láta gildistökuna koma inn á miðju ári og ég held að það sé ekki vandamál vegna skattheimtunnar.

Ég minni á aftur sem ég hef reyndar sagt tvívegis í málflutningi mínum að hækkun tryggingagjaldsins er ekki neitt sem þarf að hafa áhyggjur af ef við berum saman íslenska skattkerfið og það erlenda. Loks vil ég mótmæla því sem kom fram hjá hv. þm. að það sé verið að gera þetta kerfi miklu flóknara en það er í dag. Það er hlægilegt að bera það á borð eins og iðnrekendur gera að magngjöldin sem eru krónur séu einhverjir gjaldflokkar. Vitanlega er mjög auðvelt þegar um sams konar vöru er að ræða að reikna það út að þegar sama krónutala er í hverjum gjaldflokki fyrir sig. Það er auðvitað út í bláinn að tala um 17 flokka. Það er verið að fækka flokkunum en það er rétt að það er mismunandi krónutala eftir ákveðnum vörutegundum og það á ekki að flækjast mjög mikið fyrir a.m.k. vönum ,,forretningsmönnum`` eins og ég veit að iðnrekendur og fulltrúar í Vinnuveitendasambandinu eru.

Virðulegi forseti. Loks um pípur og kveikjara. Eina ástæðan fyrir því að það er verið að láta slíkt og filmur hverfa út úr þessu er að þessi varningur hefur átt undir högg að sækja hér og er mikið keyptur til að mynda fríhöfnum. Mönnum þótti eðlilegast að hverfa frá vörugjöldum á vörum sem kannski seljast minna hér á landi en annars staðar. (KÁ: Hætta að reykja pípu.) Já.