Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 19:25:49 (4593)

1996-04-11 19:25:49# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[19:25]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til að spyrja hver niðurstaða þessarar umræðu sé. Hæstv. fjmrh. segir um þessar tillögur: Þetta er ekki frá mér komið. Þetta voru ekki mínar tillögur, þetta eru tillögur frá ýmsum aðilum sem hafa sagt skoðun sína, að vísu ekki niðurstaða nefndarinnar. Sú niðurstaða að draga t.d. úr endurgreiðslu á virðisaukaskatti er þó að verulegu leyti tillaga nefndarinnar. Þetta er ekkert frá mér komið, þetta er allt annarra manna mál. Síðan segir hann: Stjórnarandstaðan sem er að gagnrýna niðurstöðuna er talsmaður vinnuveitenda sem, eftir því sem hann segir sjálfur, hæstv. fjmrh., sögðu honum að svona skyldi þetta vera. Svona er niðurstaðan í þessu. Það er ástæða til þess að spyrja: Hverjar eru tillögur hæstv. fjmrh.? Hefur hann engar tillögur í málinu? Hann segir og það er örvænting í röddinni: Eftir þessar umræður hljóta menn að skilja frammi fyrir hvaða vali ríkisstjórnin stóð. Stóð hún frammi fyrir nokkru vali? Átti hún nokkurra kosta völ nema hlýða einhverjum hagsmunaaðilum sem sögðu: Svona á að gera þetta. Eins og stundum er sagt við hæstv. fjmrh. að svona eigi ekki að gera hlutina eru menn líka farnir að segja: Svona á að gera hlutina. Stóð hún ekki frammi fyrir neinu vali? Hafði hæstv. fjmrh. ekkert um málið að segja? Hafði hann engar tillögur fram að færa? Hvarflaði ekki að honum að það hefði verið skynsamlegra að fara aðrar leiðir? Hefur hann engar tillögur fram að færa um sparnað í ríkisútgjöldum til þess að mæta 400--450 millj.? Það kom fram í máli hans að hann er ekki allt of bjartsýnn á að honum takist nokkurn tímann að koma fram samræmingu á tryggingagjaldinu. Hann er farinn að segja: Ja, ég geri ráð fyrir því að það taki nokkuð mörg ár. Hann sagði að við erfiða aðila væri að fást í sjávarútvegi og landbúnaði og hann sagði ekki alla söguna um það hvernig því verður tekið í þingflokkum framsóknarmanna og framsóknarmanna í Sjálfstfl. Og að því er varðar hina alþjóðlegu þróun erum við að breyta skattkerfinu í átt til hinnar alþjóðlegu þróunar. Má ég rifja upp að árið 1987 þegar við lögðum upp með skattkerfisbreytingu mikla vorum við vissulega að einfalda skattkerfið. Öfugt við það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði þá bar það árangur. Þá var tekjuskattur hér í einu þrepi 29,5% og útsvar í 6%, staðgreiðslan í 35% í staðinn fyrir nú 42% og 47%. Þá var tollkerfið tekið í allsherjarendurskoðun og engin vörugjöld inni í þeim neyslusköttum. Þá var komið fram með frv. um virðisaukaskatt í einu þrepi með breiðum stofni án undanþága og 22%. Við höfum því miður að mörgu leyti verið að bora göt á þetta einfalda og skilvirka kerfi og gera það miklu lakara með allra handa plástrum og bótum sem hafa ekki bætt það.