Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 19:28:40 (4594)

1996-04-11 19:28:40# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[19:28]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig ég á að svara þessari ræðu. Það er ljóst og ætlun mín var að það kæmi mjög vel fram í ræðum áðan að tillögur ríkisstjórnarinnar, mínar tillögur, tillögur fjmrh. eru fengnar úr smiðju undirbúningsaðilanna. Þær eru ekki nákvæmlega eins og tillögurnar þar en efniviðurinn var allur til í þessar tillögur. Við förum styttra, við gerum það í tveimur áföngum og við förum ekki sömu leið og endanlega var í samkomulaginu sem lá fyrir í mars. Við notum aðra leið sem var líka sótt í smiðju þessara sömu aðila. Það er alveg rétt að stundum er hyggilegt að hinkra við og ég veit að hv. þm. þekkir það úr sínum fyrri störfum. Að láta mál þróast, ekki síst erfið mál eins og við erum að fást við hér og sjá síðan í lokin hvernig hægt er að draga saman einhverja niðurstöðu sem sem flestir vilja bera ábyrgð á þótt enginn sé kannski ánægður með hana. Það er held ég hygginna manna háttur og ég skal viðurkenna að ég beið nokkuð lengi með að lýsa yfir skoðun minni á þessu máli af því að mér var ljóst að ég yrði að styðja niðurstöðuna þegar hún kæmi fram.

[19:30]

Við höfum oft lent í þessu áður. Ég og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson tókum þátt í því, m.a. að lækka matarskattinn og börðumst fyrir því sama þótt við hefðum kannski nokkrum árum áðum haldið hinu gagnstæða fram. Þannig er nú pólitíkin að menn verða stundum að gera meira en þeir fyrst vilja. (Gripið fram í: Fleira en gott þykir.) Já, fleira en gott þykir eins og hér er kallað fram í. Þetta var erfitt mál að fást við og ég vonast til að þessi niðurstaða fái afgreiðslu þótt mér sé ljóst að það eru ekki allir jafnánægðir með hana.

Varðandi skatta sem hv. þm. var að tala um í lok ræðu sinnar vil ég geta þess að skattar hafa heldur lækkað frá því að við áttum í samstarfi í fyrri ríkisstjórn. Það var að vísu vegna ákvarðana sem þá voru teknar því hann má ekki gleyma því þegar hann ræðir um tekjuskattinn að það var samþykkt að draga frá 4% framlög í lífeyrissjóð og það jafngildir hlutfallslækkun á tekjuskattinum. Því má ekki hv. þm. gleyma því hann tók þátt í þeirri ákvörðun sem er mikilvæg fyrir skattborgara þessa lands.