Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 19:37:47 (4598)

1996-04-11 19:37:47# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[19:37]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið mjög sterklega undir þau orð sem hv. þm. Kristín Ásgeirsdóttir hefur látið hér falla. Það er auðvitað ekkert annað en rakið hneyksli þegar við stöndum í umræðum um þjóðþrifamál dag eftir dag án þess að það sjáist hér svo mikið sem hvítur hrafn úr liði stjórnarinnar. Sérstaklega vegna þess að það kemur fyrir aftur og aftur, m.a. í dag, að ráðherrar beina hinum og þessum óskum til nefndarmanna. Auðvitað er það svo að stjórnarandstæðingar geta flutt þessar óskir ráðherranna til nefndarinnar og nefndarmenn geta líka lesið umræðurnar sem hér fara fram. En þessi umræða, 1. umr., er til þess að menn geti komið sjónarmiðum á framfæri, menn geti skipst á skoðunum við ráðherra og aðrir en þeir sem eiga sæti í fagnefndunum sem fjalla um málið geti komið sínum athugasemdum að. En hér er ekki nokkur maður úr stjórnarliðinu. Þetta er ekki bara farsakennt, þetta er orðið til skammar fyrir þingið. Ég hygg, herra forseti, að það sé óhjákvæmilegt að á næstu dögum ræði forsetadæmið þessa þróun mála. Þetta er allt annað en var uppi á teningnum á síðasta kjörtímabili. Þótt ég sé ekki mjög gamall þingmaður þá er ég hér á fimmta ári mínu og ég hef aldrei séð það gerast fyrr að hér er ekki einn einasti maður úr stjórnarliðinu. Hér mæta stjórnarandstæðingar vel og koma undirbúnir til leiks en stjórnarliðunum virðist nægja að þiggja laun sín, sem oft á tíðum eru ansi há, en leggja enga vinnu á móti. Þess í stað eru það þingmenn stjórnarandstöðunnar sem vinna verkin. Svo kemur stjórnarliðið og óskar eftir góðri samvinnu og að töluðum orðum kvarta þeir undan því í fjölmiðlum að það sé ekki nægilega góð samvinna af hálfu stjórnarandstöðunnar. Það er auðvitað ekki nokkrum manni bjóðandi að hlusta á svona. Það er engum manni og allra síst þjóðinni bjóðandi að hafa ríkisstjórn sem hagar sér svona.