Fundarsókn stjórnarþingmanna

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 10:36:19 (4604)

1996-04-12 10:36:19# 120. lþ. 117.91 fundur 240#B fundarsókn stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), JBH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[10:36]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég vil í örfáum orðum taka undir með hv. 11. þm. Reykn., Ágústi Einarssyni, út af þessu máli. Ég held að það sé eðlileg ósk sem hann ber fram um það að forsetar þings og formenn þingflokka ræði þetta mál. Þetta var óvenjulegur dagur að því leyti að hér var um mikinn fjölda mála að ræða, alls sjö mál og mörg þeirra hafa mikil og víðtæk áhrif í okkar atvinnu- og efnahagslífi og þjóðlífi. Við vorum að ræða um tekju- og eignarskatta, um nauðasamninga, greiðsluvanda heimila, um þjónustusamninga og hagræðingu í ríkisrekstri, um fjáröflun til vegagerðar, um tollalög, um vörugjöld, um virðisaukaskatt og í öllum slíkum málum svara þingmenn stjórnarliða með fjarveru sinni. Þeir sýna málinu nákvæmlega engan áhuga, ekki einu sinni að lágmarki, þeir sem eiga sæti í nefndum, þrátt fyrir þá staðreynd t.d. að umræðan sem slík var afar málefnaleg og að mörgu leyti stefnumarkandi og þrátt fyrir þá staðreynd að hæstv. fjmrh. beindi í sínum svörum ábendingum til þingnefnda um að taka mörg álitamál til athugunar, en af hálfu stjórnarliða var enginn einasti maður til þess að veita því viðtöku eða sýna umræðunum nokkurn áhuga eða taka nokkurn þátt í þeim. Það er einfaldlega spurning um það fyrir virðulegan forseta, hvort þetta samrýmist starfsreglum þingsins. Ef svo er ekki, þá ber að taka á málinu og gera hér á einhverja bragarbót.