Fundarsókn stjórnarþingmanna

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 10:38:10 (4605)

1996-04-12 10:38:10# 120. lþ. 117.91 fundur 240#B fundarsókn stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[10:38]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa fallið um vinnubrögð stjórnarflokkanna. Þau eru slæm. Í fjarveru þingmanna stjórnarflokka í allan gærdag birtist fyrst og fremst lítilsvirðing við Alþingi og þingmannsstarfið og það verk sem þessir hv. þm. eru kosnir til að gegna.

Í þeim umræðum sem fóru fram í gær var enginn þingmaður stjórnarflokkanna úr efh.- og viðskn. viðstaddur langleiðina allan daginn. Samt sem áður var það þannig, eins og fram kom hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, að aftur og aftur beindi hæstv. fjmrh., sem tók myndarlega þátt í umræðunum, verkefnum og ábendingum til hv. þingnefndar. Það var enginn hér í salnum af hálfu stjórnarflokkanna til að taka mark á því sem fjmrh. beindi til þingnefndarinnar. Ég verð að segja alveg eins og er miðað við þá reynslu sem ég hef af þessum störfum, þá held ég að það hafi ekki gerst mjög lengi að þingmenn í starfsnefndum sýni verkefnunum eins mikið alvöruleysi og mér finnst koma fram af hálfu þingmanna stjórnarflokkanna í vetur. Og þetta alvöruleysi náði hápunkti í gær.

Ég held að það sé nauðsynlegt, hæstv. forseti, að þetta mál verði rætt og þær ábendingar, sem hér koma fram af okkar hálfu, verði teknar af alvöru og í fullri vinsemd. Við beinum því til forustu þingsins að hún taki á þessum máli. Hér er um sanngjarna ósk að ræða af okkar hálfu, sem er borin fram vegna þess að við viljum að Alþingi Íslendinga vandi sig við þau mál sem hér eru til meðferðar, en menn kasti ekki einlægt höndunum til þessara mála sem hér eru á borðum eins og hverra annarra pappírssnepla sem menn venjulega henda í ruslakörfu.