Fundarsókn stjórnarþingmanna

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 10:46:40 (4609)

1996-04-12 10:46:40# 120. lþ. 117.91 fundur 240#B fundarsókn stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[10:46]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég stend við öll þau orð sem ég sagði áðan um vinnubrögð. Ég er ekki að gera kröfu til þess að allt stjórnarliðið sitji í þingsalnum. Ég gat sérstaklega um að mér fyndist eðlilegt að a.m.k. einn, tveir og síðan nefndarmenn einhverjir væru viðstaddir. Sjónvörp koma ekki í staðinn fyrir þetta, hv. þm. Guðjón Guðmundsson. Hann veit það mætavel. Ég veit það hins vegar að hv. þm. er vandur að virðingu sinni og vill störfum þingsins vel og hann á að taka undir það eins og hv. formaður þingflokks Framsfl. gerði hér áðan sem ætlar að taka málið upp og betrumbæta sinn eigin þingflokk. Það er vel.

Hins vegar vil ég benda á það að þessi vinnubrögð ganga ekki. Þetta var málefnaleg umræða sem hér fór fram. Það var enginn viðstaddur til að hlusta á ábendingar og ég stend við það að menn sinni ekki vinnu sinni sem hér um ræðir.

Ég spyr þingheim: Hvar er hv. formaður efh.- og viðskn. sem var ekki neitt hér í gær nema í upphafi þingfundar? Hvar er hann núna? Og það er ekki í fyrsta skipti þegar verið er að fjalla um mál fjmrn., maðurinn sem á að leiða starfið í nefndinni, og getur vel verið að maðurinn sé fjarstaddur. Ekki ætla ég að ráðast á hann fyrir það. Þá eru það bara aðrir stjórnarliðar sem koma til aðstoðar við það, þar á meðal hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sem á sæti í þessari sömu nefnd og var einungis í upphafi fundarins, eða þingmenn Sjálfstfl. í efh.- og viðskn. sem sáust ekki í gær. Við erum að tala um virðingu Alþingis, herra forseti. Þetta er ekki stjórnarandstaða gegn stjórn. Ég vil virðingu Alþingis mikla og forseti Alþingis er minn foreti. Hann er ekki forseti ríkisstjórnarinnar. Ég vil að við tökum höndum saman um að auka virðingu Alþingis og það verður m.a. gert með því að breyta vinnubrögðum við umræðu eins og farið hefur fram síðustu daga. Ég heiti því að leggja mitt fram til þess að það megi verða og ég vonast til þess að aðrir þingmenn geri hið sama.