Fundarsókn stjórnarþingmanna

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 10:48:38 (4610)

1996-04-12 10:48:38# 120. lþ. 117.91 fundur 240#B fundarsókn stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), GHH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[10:48]

Geir H. Haarde:

Virðulegi forseti. Ég fylgdist með umræðum í gær á skrifstofu minni fyrir milligöngu sjónvarpstækis. Ég get staðfest það og tekið undir það að umræðurnar voru málefnalegar og þær verða örugglega að miklu gagni í vinnu efh.- og viðskn. þegar hún tekur til við að fjalla um þessi mál.

Ég vil segja það vegna þess að hér var nefndur til sögunnar tiltekinn þingmaður, formaður efh.- og viðskn., ég held að við vitum það öll í salnum að það eru fáir þingmenn sem sinna störfum sínum jafn vel og af jafnmikilli samviskusemi og hann þó að hann hafi ekki verið hér í gær og þó að hann sé ekki staddur í salnum í dag.

Það eru engar reglur um það að tilteknum þingmönnum beri að sitja þingfundi á sérstökum tímum umfram aðra. Ég tek hins vegar undir að það getur verið æskilegt og það er æskilegt að menn hafi aðstöðu til þess að fylgjast með umræðum í málum sem munu koma til þingnefnda þar sem þeir sitja. Af ýmsum ástæðum er það þó ekki alltaf hægt. En menn geta kynnt sér mál eftir umræðurnar. Menn geta kynnt sér þær, menn geta fengið samantektir um það sem fram hefur komið.

Auðvitað er það þannig fyrir stjórnarflokka að það er ráðherra málsins sem er í forsvari fyrir viðkomandi frv. og stjórnarandstaðan á í sjálfu sér enga sérstaka kröfu á því að einhver tiltekinn þingmaður eða þingmenn séu viðstaddir umræðuna. Hins vegar er það rétt að það er æskilegt að nefndarmenn séu viðstaddir og auðvitað er það almennt æskilegt að sem flestir þingmenn séu viðstaddir sem oftast. Um það þurfum við kannski ekki að deila.

Þessi umræða kemur mér svolítið á óvart. Ég verð að segja alveg eins og er. Það er ekki hefðbundið að menn kvarti undan því að þingmenn úr öðrum flokkum heldur en sínum eigin sitji hér ekki þingfundi. Það á hver þingflokkur við sig að sjálfsögðu. Hv. málshefjandi sagði það hér áðan: Mönnum er skylt að sitja þingfundi og sinna störfum sínum. Það kemur mér svolítið á óvart að heyra það frá þessum hv. þm. og öðrum þeim sem höfðu forgöngu um það að ganga úr þingsalnum í atkvæðagreiðslu rétt fyrir páskana. Það var að sýna þinginu virðingarleysi. Og ég segi um ummæli hv. þm. að þessu leyti: Ja, svei.