Fundarsókn stjórnarþingmanna

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 10:51:16 (4611)

1996-04-12 10:51:16# 120. lþ. 117.91 fundur 240#B fundarsókn stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), JBH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[10:51]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er greinilegt að það var ekki að ástæðulausu að þessi umræða var tekin upp. Hv. þm. Geir Haarde, formaður þingflokks Sjálfstfl., og hv. 4. þm. Vesturl. höfðu uppi þessi rök: Það er sjónvarp á skrifstofum manna og menn geta fylgist með umræðum. Þingfundir eru óþarfir og það er enginn mælikvarði á störf þingmanna hvort menn sæki þingfundi.

Nú má vel vera að það tækniundur sé orðið að þingfundir séu óþarfir og við getum haldið okkur á skrifstofum og reyndar haldið fundi tæknilega séð sem bara sjónvarpsfundi og þar með sé Alþingi orðið að þessu fjarþingi sem minnst var á. En það er þá ástæða til að forseti þingsins taki eftir því og kannski ástæða til þess að fara þá að breyta vinnubrögðum með formlegum hætti ef menn ætla að taka þessa umræðu alvarlega.

Á það var minnst að formaður efh.- og viðskn. væri vel vinnandi þingmaður og ég tek undir það. Hitt er líka jafnrétt að hann hefur lítið sést í þingsölum í vetur þannig að það er kannski enginn mælikvarði á það. Kannski vinna þeir best sem eru fjarverandi. En þá er spurningin þessi: Ég nefndi að þetta voru sjö mál. Þau vörðuðu t.d. greiðsluvanda heimilanna á Íslandi. Gervallur Framsfl. gerði það að stærsta máli kosningabaráttunnar sl. vor. Það var enginn framsóknarmaður sem hlustaði á þá umræðu. (VS: Formaður þingflokksins var í þingsalnum.) Hann var það rétt í upphafi umræðunnar. Það er verið að ræða um skattamál, t.d. virðisaukaskatt eða breytingar á vörugjaldi sem almennt var talið að mundu leiða til vísitöluhækkana og verðlagshækkana. Er þetta mál sem varðar bara einstaka menn? Við erum að sjálfsögðu ekki að gera þá kröfu að það sé setið í hverju sæti og allir þingmenn ævinlega sitji í þingsal, fjarri fer mér að gera þá kröfu. En við erum að gera þá kröfu að þeir þingmenn sem eiga sæti í viðkomandi nefnd og jafnframt þeir þingmenn sem telja sig hafa sérstakan áhuga á tilteknum umræðuefnum og þau eru t.d., og vísa ég því nú til landbyggðarþingmanna, fjáröflun til vegagerðar. Enginn stjórnarliði til þess að ræða um þá hluti, skattapólitík, endurskipulagning tollkerfisins o.s.frv. Þetta er mál sem þingforsetar og formenn þingflokka verða að taka upp, sérstaklega að gefnu tilefni þessarar umræðu um hvort eigi að breyta vinnubrögðum á Alþingi og hafa það framvegis sem fjarskiptaþing.