Lögreglulög

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 11:03:02 (4615)

1996-04-12 11:03:02# 120. lþ. 117.8 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[11:03]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til lögreglulaga sem lagt hefur verið fram á þskj. 783. Frv. til lögreglulaga var lagt fram á hinu háa Alþingi árið 1994, á síðari hluta 117. löggjafarþings, en hefur nú verið tekið til rækilegrar endurskoðunar og er lagt fram öðru sinni. Mörg ákvæði frumvarpsins eru efnislega samhljóða eldri lagaákvæðum eða staðfesting á gildandi ólögfestri réttarframkvæmd.

Lögreglulögum er ætlað að koma í stað laga um Rannsóknarlögreglu ríkisins, nr. 108/1976, og laga um lögreglumenn, nr. 56/1972, en snerta auk þess fleiri lög á réttarvörslusviðinu. Í tengslum við frv. til lögreglulaga hefur einnig verið lagt fram frv. til breytinga á lögum um meðferð opinberra mála, á þskj. 782.

Á árinu 1992 komu til framkvæmda einhverjar umfangsmestu kerfisbreytingar á dómstólaskipulagi og réttarfari í landinu. Ég held að flestir séu sammála um að þær breytingar hafi tekist með miklum ágætum og er það ekki síst að þakka samstöðu þeirra aðila sem þar áttu hlut að máli, dómara, lögmanna og þeirra sem sitja hér á hinu háa Alþingi og eins hinna sem sjá um sókn sakamála. Fullyrða má að festa og jafnvægi sé komin á í hinu nýja dómstólakerfi. Þá hefur málatími í Hæstarétti styst verulega í kjölfar fjölgunar dómara. Með nokkrum sanni má segja að málefni lögreglunnar og e.t.v. ákæruvaldsins hafi setið nokkuð á hakanum á síðustu árum. Verkefni lögreglu og ákæruvalds aukast hins vegar stöðugt og auknar kröfur eru gerðar til að brot séu upplýst hratt og örugglega. Segja má að þessi tvö frumvörp séu framhald af breytingunum á dómstólakerfinu. Með þeim er ætlunin að ná fram eftirfarandi markmiðum í íslenska réttarvörslukerfinu:

Að breyta skipulagi æðstu stjórnar lögreglunnar í landinu með því að koma á fót embætti ríkislögreglustjóra.

Að gera rannsókn afbrota hraðari og skilvirkari með því að einfalda feril mála á rannsóknarstigi og fela lögreglustjórum ákæruvald í fleiri brotaflokkum þannig að allur þorri sakamála verði rannsakaður undir stjórn þess lögreglustjóra sem semur ákæru í máli og sækir það fyrir héraðsdómi.

Að festa í lög skýrari reglur um framkvæmd lögreglustarfa.

Að setja skýrari reglur um réttindi og skyldur lögreglumanna.

Við samningu upphaflegs frv. og endurskoðun þess hefur víða verið leitað fanga svo sem í norrænni löggjöf um lögreglumálefni. Einnig var tekið mið af athugasemdum fjölmargra aðila sem send voru drög að frv. og hugmyndum sem fram hafa komið á fundum með lögreglustjórum og lögreglumönnum. Við samningu frumvarps þessa var enn fremur tekið mið af lögregluyfirlýsingu Evrópuráðsins frá 8. maí 1979. Þá var þess gætt að ákvæði frumvarpsins samræmdust ákvæðum þeirra alþjóðasamninga sem Ísland hefur gerst aðili að.

Helstu nýmæli í frumvarpinu eru þessi:

Sú grundvallarbreyting verði gerð á skipulagi lögreglunnar og æðstu stjórn hennar að komið verði á fót embætti ríkislögreglustjóra er fari með yfirstjórn lögreglu ríkisins í umboði dómsmálaráðherra. Ríkislögreglustjóraembættinu er ætlað að taka við ýmsum verkefnum sem fram til þessa hafa heyrt undir löggæsluskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, Rannsóknarlögreglu ríkisins og að litlu leyti lögreglustjórann í Reykjavík.

Við embætti ríkislögreglustjóra verði starfrækt rannsóknardeild í skatta- og efnahagsbrotamálum og stoðdeild sérhæfðra rannsóknarmanna til að aðstoða einstök lögregluembætti við rannsókir erfiðra brotamála.

Við embætti ríkislögreglustjóra verði starfrækt rannsóknarstofa til að sinna skjalarannsóknum, fingrafararannsóknum og slíkum tæknilegum rannsóknum. Tæknideild sem þjóni öllu landinu verði við embætti lögreglustjórans í Reykjavík til að sinna eða aðstoða við rannsóknir á vettvangi og aðrar slíkar rannsóknir.

Við embætti lögreglustjórans í Reykjavík verði skipaður varalögreglustjóri.

Lögfest verði ákvæði um starfssvæði lögreglumanna, þar á meðal heimild dómsmálaráðherra til að ákveða að hluti lögregluliðs skuli gegna lögreglustörfum alls staðar á landinu. Með þessu er ætlað að tryggja nauðsynlegan hreyfanleika lögreglunnar.

Rannsóknir meginþorra mála verði fluttar til lögreglustjóra í héraði.

Landinu verði skipt í tíu rannsóknarumdæmi og sérstakar rannsóknardeildir starfræktar við eitt lögregluembætti í hverju rannsóknarumdæmi. Lögreglumenn í rannsóknardeildum rannsaki eða aðstoði við rannsókn á stærri brotum í umdæmi rannsóknardeildarinnar undir stjórn lögreglustjóra á hlutaðeigandi embætti.

Lögfesting ákvæða um samstarfsnefndir lögreglu og sveitarfélaga og samvinnu lögreglu við önnur stjórnvöld.

Lögfest ákvæði um skyldur lögreglumanna, valdbeitingarheimildir, handtökuheimildir, leit á mönnum og önnur afskipti af borgurunum.

Lögfesting reglna um meðferð kæra á hendur lögreglumönnum vegna ætlaðra refsiverðra brota við framkvæmd lögreglustarfa.

Breytingar á skipulagi Lögregluskóla ríkisins.

Þá eru í frv. nokkur nýmæli sem eru til þess fallin að bæta stöðu kvenna innan lögreglunnar. Má þarhelst nefna breytingar á ákvæðum um inntöku nema í lögregluskólann. Nýlega hefur verið komið á fót starfshópi til að kanna stöðu kvenna innan lögreglunnar og gera tillögur að úrbótum á þeim sviðum þar sem talin verður þörf á að bæta stöðu kvenna innan lögreglu ríkisins. Starfshópnum er einnig ætlað að gera tillögur um aðgerðir sem leitt geti til fjölgunar kvenna í lögreglu ríkisins. Þess má vænta að tillögur vinnuhópsins muni hafa áhrif á framkvæmd þessara laga og setningu reglugerða á grundvelli þeirra.

Frv. mun hafa víðtæk áhrif á skipulag löggæslu í landinu. Rannsóknarlögregla ríkisins verður lögð niður, embætti ríkislögreglustjóra tekur við hluta af starfsemi löggæsluskrifstofu dómsmrn., lögreglurannsóknir Rannsóknarlögreglu ríkisins færast til ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans í Reykjavík og annarra lögreglustjóra. Útlendingaeftirlitið verður fært undir stjórn ríkislögreglustjóra. Betri nýting starfsliðs og minni hætta á tvíverknaði vegna nánari samvinnu almennra lögreglumanna og rannsóknarmanna innan sama embættis og samvinnu við ákærendur sem haft geta áhrif á að rannsókn þróist með tilliti til ákærumöguleika. Gert er ráð fyrir að fjöldi stöðugilda haldist sem næst óbreyttur og kostnaður við löggæslu hækki óverulega, en að sú hagræðing sem vonir standa til að náist komi fram í betri og markvissari löggæslu og hraðari afgreiðslu brotamála og rannsóknar á ákærustigi.

Það er álit flestra sem starfa að löggæslumálum í landinu að tímabært sé orðið að koma á fót embætti ríkislögreglustjóra sem hafi m.a. með höndum samræmingu og eftirlit með framkvæmd löggæslu í landinu. Þó stofnun slíks embættis þurfi ekki sjálfkrafa að hafa það í för með sér að Rannsóknarlögregla ríkisins verði lögð niður er það lagt til í frv. þar sem ekki var talið rétt að fjölga embættum á löggæslusviðinu. Óumdeilt er að stofnun Rannsóknarlögreglu ríkisins árið 1976 var mikið framfaraspor sem leitt hefur til aukinnar fagmennsku og vandaðri vinnubragða við rannsókn opinberra mála. Hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins hefur orðið til mikil og góð fagþekking og jafnframt sú sérhæfing sem nauðsynleg er til að upplýsa og rannsaka hinar fjölbreyttustu gerðir afbrota í sífellt flóknara samfélagi.

Á þeim 20 árum sem Rannsóknarlögregla ríkisins hefur starfað hefur menntun lögreglumanna tekið stórstígum framförum og byggist uppbygging lögreglunnar á því að allir lögreglumenn geti tekist á við flest algengustu rannsóknarverkefni. Á sama tíma hefur hin almenna lögregla eflst að þekkingu og tækjabúnaði.

Í frv. er sem fyrr segir lagt til að Rannsóknarlögregla ríkisins verði lögð niður og verkefni hennar færð til ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranna. Erfiðustu rannsóknarverkefnin, sem að flestra mati eru skatta- og efnahagsbrotin, verða falin sérstakri deild við embætti ríkislögreglustjóra en við það embætti mun auk þess verða starfrækt stoðdeild sérhæfðra rannsóknarmanna til aðstoðar í einstökum lögregluliðum, einkum þeim fámennari, við erfiðustu rannsóknir.

Sú þekking og reynsla sem til staðar er hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins býr fyrst og fremst í starfsmönnunum sjálfum. Með frv. er ekki stefnt að fækkun lögreglumanna eða annarra starfsmanna heldur flutningi stöðugilda til ríkislögreglustjóra og rannsóknardeilda lögregluembættanna. Þeir starfsmenn sem flytja munu starfsvettvang sinn frá Rannsóknarlögreglu ríkisins koma til með að flytja með sér alla þekkingu sína og miðla henni til starfsmanna á nýjum vinnustöðum. Röskun á daglegum störfum ætti því ekki að vera teljandi.

Með eflingu sérstakrar rannsóknardeildar við tíu lögegluembætti er ætlað að tryggja að til staðar séu í hverju kjördæmi sérhæfðir rannsóknarmenn sem færir séu um að fást við rannsóknir flestra tegunda brota, en ef með þarf er opin leið að óska eftir aðstoð frá stoðdeild ríkislögreglustjóra eða sérhæfðari rannsóknarmönnum frá öðrum lögregluembættum. Markmiðið með slíkum rannsóknardeildum er þó ekki að reisa múra milli rannsóknarlögreglumanna og almennra lögreglumanna. Þvert á móti er æskilegt að allir lögreglumenn í lögregluliði vinni að því sameiginlega markmiði að koma í veg fyrir brot, upplýsa brot og rannsaka þau af kostgæfni. Með starfrækslu slíkrar rannsóknardeildar við 10 embætti er einnig tekið mið af því að af 13 í 27 lögregluumdæmum starfa fimm lögreglumenn eða færri og eðli málsins samkvæmt eru þar ekki tök á þeirri sérhæfingu sem nauðsynleg er til að tryggja farsæla rannsókn flókinna brotamála. Rannsóknardeildunum er m.a. ætlað að bæta úr þessu. Frv. hefur því í för með sér eflingu rannsóknardeilda utan höfuðborgarsvæðisins.

Þar sem stærsti hluti rannsóknarverkefna Rannsóknarlögreglu ríkisins varða brot sem framin eru í umdæmi lögreglustjórans í Reykjavík mun meginþunginn af lögreglurannsóknunum færast þangað. Ljóst er að endurskipuleggja þarf starfsemi embættisins að verulegu leyti og búa svo um hnútana að það verði í stakk búið að taka við nýjum verkefnum. Nýtt embætti varalögreglustjóra og heimild til skipunar saksóknara við embættið er liður í þeirri viðleitni.

Gengið hefur verið úr skugga um að húsakost lögregluembættanna þurfi ekki að auka vegna þeirra breytinga sem frv. hefur í för með sér. Sérstök áhersla er lögð á menntunarmál lögreglumanna í frv. Ætlunin er að inntaka nema í skólann verði með nýju sniði og skólinn verði opnari en nú er raunin. Þá er aukin áhersla lögð á framhaldsmenntun lögreglumanna.

Herra forseti. Ég hef í stórum dráttum gert grein fyrir efni og markmiðum frv. en erfitt er að gera svo viðamiklu frv. tæmandi skil. Ég vísa til ítarlegra athugasemda með frv. Eins og ég nefndi í upphafi fylgir þessu frumvarpi frv. til laga um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála sem á samleið með þeim skipulagsbreytingum sem hér er verið að leggja til í þeim tilgangi að efla yfirstjórn löggæslunnar í landinu og einfalda og hraða rannsókn opinberra mála.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.