Lögreglulög

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 12:47:03 (4622)

1996-04-12 12:47:03# 120. lþ. 117.8 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[12:47]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og einkanlega fyrir það að mér sýnist að hér komi fram glöggur skilningur á nauðsyn þeirra kerfisbreytinga sem hér er verið að gera. Aðrar ályktanir verða ekki dregnar af umræðunni en að góð samstaða sé um meginmarkmið og stefnu frv.

Hitt kemur ekki á óvart þótt um einstök atriði vakni upp spurningar eða komi fram skiptar skoðanir. Um ýmis þeirra atriða hlýtur hv. allshn. að fjalla og skoða í ljósi þeirra athugasemda sem hér hafa komið fram og ugglaust eiga eftir að koma fram í meðferð nefndarinnar á frv.

Hv. 12. þm. Reykv. bað um mat mitt á því hvort ég teldi að hér væri komið fram með nægjanlega skýrum hætti skipulag fyrir starfsemi lögreglunnar. Það er mitt mat að svo sé. Hv. þm. spurði einnig um það hvort með nægilga skýrum hætti væri ráð fyrir því gert í frv. að ríkislögreglustjóri hefði með höndum ákæruvald varðandi skatta- og efnahagsbrot og svipuð fyrirspurn kom fram frá hv. 13. þm. Reykv. Ég lít svo á að skipulagsbreyting af þessu tagi sé skýrt afmörkuð í þeim frumvörpum sem hér liggja fyrir og bendi á í því sambandi athugasemdir við frv. sem kemur til umræðu síðar á dagskránni um meðferð opinberra mála, en í athugasemdum við 4. gr. þess frv. segir svo:

,,Þar sem skatta- og efnahagsbrot eru að uppistöðu auðgunarbrot og sérrefsilagabrot, svo sem skattalagabrot, fellur þessi brotaflokkur að stærstum hluta undir ákæruvald lögreglustjóra. Lagt er til að ríkislögreglustjóra verði falið ákæruvald í skatta- og efnahagsmálum en samkvæmt 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins er dómsmálaráðherra heimilt að skipa sérstakan saksóknara við embætti ríkislögreglustjóra til að annast saksókn og málflutning slíkra mála.``

Þegar frumvörpin eru skoðuð í heild tel ég að þetta sé markað í þeim með alveg skýrum hætti.

Hér hafa nokkrir hv. þingmenn, hv. 12. þm. Reykv., hv. 19. þm. Reykv. og hv. 9. þm. Reykv. minnst á stöðu kvenna innan lögreglunnar og eins og fram kemur í athugasemdum með frv. tel ég að umfjöllun um þau efni sé mjög nauðsynleg. Þegar lögreglukonur komu á minn fund til að ræða um úrlausnir á þessu sviði varð það afráðið okkar í millum að koma á fót þeim starfshópi sem hér hefur verið gerður að umtalsefni og við munum reyna að kappkosta að hann geti hafið formleg störf sem fyrst og lokið störfum sem fyrst en niðurstöður þess starfshóps munu um margt móta þau viðbrögð sem nauðsynleg kunna að vera talin. Hugsanlega geta komið þar til einhver lagaákvæði en ég hygg þó að í frekari atriðum verði þar um að ræða reglugerðir og stjórnvaldsfyrirmæli af ýmsu tagi þótt ég ætli ekki að útiloka að til einhverrar lagasetningar þurfi að koma í því efni.

Hér hafa einnig nokkrir þingmenn minnst á það ákvæði frv. sem fjallar um störf lögreglumanna utan vinnutíma. Eins og hv. þm. er kunnugt gilda almennar reglur um það hvernig opinberum starfsmönnum er skylt að rækja vinnuskyldur sínar og hvaða heimildir eru til að vinna aukastörf utan vinnutíma. Það þótti eðlilegt að setja skýrari ákvæði um þetta í lögreglulög. En vissulega er það svo að hér geta verið ýmis álitaefni og þjóðfélag okkar er sérstakt eins og hér hefur verið bent á. Það er ekki alveg gefið að fyrirmyndir í þessu efni annars staðar frá, jafnvel þó að við förum ekki lengra en til Norðurlandanna, eigi endilega við hér. Ég tel því ekki óeðlilegt að hv. þingnefnd skoði þetta mál frekar í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið.

Þá var að því spurt hvers vegna ákvæði 15. gr. væri sett inn í lögin ef almennar heimildir væru í raun fyrir hendi. Sjónarmiðið sem fram kemur í athugasemdum er fyrst og fremst það að styrkja lagagrundvöllinn fyrir aðgerðum af því tagi sem þar er vitnað til. Það eru ekki nein sérstök tilefni til þessa.

Hér hafa einnig nokkrir hv. þingmenn minnst á Lögregluskólann og sett fram þau sjónarmið að það geti verið eðlilegt að tengja hann almenna skólakerfinu. Það eru sjónarmið sem vert er að skoða. En ég tek undir það sjónarmið sem ég hygg að hafi komið fram hjá hv. 15. þm. Reykv. að það eru ekki síst lögreglumennirnir sjálfir sem hafa sýnt Lögregluskólanum mikla ræktarsemi og ýtt mjög á um það að menn stæðu vörð um menntun lögreglumanna og reyndu að efla hana. Ég tel fullkomlega eðlilegt að menn íhugi þessi álitamál sem hér hafa verið nefnd varðandi tengingu Lögregluskólans við almenna skólakerfið en ítreka að í því efni tel ég eðlilegt að haft sé samráð við lögreglumennina.

Um mat á stöðugildum er það grundvallaratriði varðandi þessa skipulagsbreytingu að það er ekki verið að leggja til að neinu marki fjölgun stöðugilda. Þvert á móti er verið að stefna að því að ná fram meiri skilvirkni með skipulagsbreytingum. Það verður svo að vera mat á hverjum tíma hver þörf er fyrir aukna löggæslu. Ég bendi á í þessu sambandi að víða er verið að huga að endurskipulagningu í lögreglumálum. Til að mynda í Danmörku þar sem menn eru að reyna að ná fram með skipulagsbreytingum og án fjölgunar starfsmanna meiri skilvirkni í löggæslustarfinu. Það er okkar von að með þessum breytingum verði það unnt. En ugglaust þarf að huga þar að ýmsum fleiri atriðum sem ekki lúta beint að lagasetningu, innra skipulagi einstakra lögregluembætta og þar fram eftir götunum.

Varðandi spurningu um það hvort ákveðið hefði verið skipulag á því samstarfi sem verið er að fjalla um í 11. gr. frv. hafa engar ákvarðanir verið teknar þar um. En það verður eitt af hlutverkum yfirstjórnar lögreglunnar samkvæmt þessu nýja frv. að móta samstarfsreglur á þessu sviði og ég tek undir það með hv. þm. að það er mjög æskilegt að slíkt samstarf sé í föstu formi þannig að líkur séu á að það skili árangri.

Hér hefur verið vikið að því að frv. komi seint fram og eins að einstakir hópar hafi ekki fengið nægjanlegt svigrúm til þess að gefa umsagnir um það áður en það kom hingað í þingið. Hér er um að ræða endurskoðun á frv. sem hefur áður verið lagt fram fyrir Alþingi og það hefur vitaskuld kostað allmikla vinnu því að hér hefur verið um vandasamt og mjög flókið verkefni að ræða. Í fyrri nefndinni sem skipuð var áttu lögreglumenn engan fulltrúa og ég taldi eftir á að það hefði verið misráðið. Þess vegna varð það að ráði þegar skipuð var þriggja manna nefnd til að yfirfara frv. og skila því í nýjum búningi að formaður Landssamtaka lögreglumanna átti sæti í þeim hópi og athugasemdir úr þeirra röðum áttu því greiðan aðgang á vinnutímanum meðan verið var að vinna að endurgerð frv.

Þá var að því spurt hvernig þetta frv. rímaði við það frv. sem ríkisstjórnin hefur flutt um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Því er auðvitað til að svara að þetta frv. er samið og lagt fram í ríkisstjórn á grundvelli gildandi laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og af tæknilegum ástæðum er ekki hægt að gera það með öðrum hætti. Það verður svo að ráðast eftir framvindu þessara mála í þinginu hvort þeirra verður afgreitt á undan og hvernig einstök ákvæði taka mið af þeim lögum kunna að breytast. Það verður eitt af verkefnum hv. allshn. að líta til þess.

Athugasemdir komu fram um það hvort ríkislögreglustjórar eigi að rannsaka brot lögreglumanna í starfi. Það getur verið álitamál og er eðlilegt að hv. þingnefnd skoði þau sjónarmið sem sett eru fram sem gagnrýni á tillöguna sem gerð er í þessu frv.

Varðandi spurningar sem fram hafa komið frá a.m.k. tveimur ef ekki þremur hv. þingmönnum um samspil lögreglu og björgunaraðila í landinu er rétt að það eru ekki ákvæði í frv. um það efni. Það er hins vegar viðfangsefni sem nauðsynlegt er að taka á og finna lausn á. Það er nokkur sérstaða hjá okkur hvað við byggjum í ríkum mæli á samtökum björgunaraðila, frjálsum samtökum slysavarnafélaganna, Landsbjargar og fleiri aðila í björgunarmálum. Það er satt best að segja svo að varðandi samspil lögreglu og þessara aðila eru ekki skýrar línur og það er eitt af þeim atriðum sem við þurfum að takast á við. En ég taldi ekki rétt að tefja framgöngu þeirra miklu skipulagsbreytinga sem hér eru þótt verkefni af þessu tagi væru ekki að fullu leyst. Það hlýtur reyndar ávallt að vera svo að það eru alltaf einhver mál á þessu sviði sem ekki eru að fullu leyst og menn verða að koma að síðar.

Varðandi spurningu sem hér hefur komið fram um hvaða merkingu 2. mgr. 9. gr. hafi er þar einvörðungu verið að vísa til þess að í einstökum tilvikum getur verið nauðsynlegt að ráða sérfræðinga, til að mynda endurskoðendur, til rannsóknar mála. Það er verið að opna svigrúm til þess sem ég held að sé alveg nauðsynlegt til að gera þann þátt í rannsóknum mála skilvirkari en verið hefur, enda hefur komið fram í þessum umræðum og reyndar fyrr í vetur í umræðum í þinginu mikil áhersla af hálfu þingmanna á að bæta þann þátt í starfi lögreglunnar.

Loks var varpað fram spurningu um þýðingu 31. gr. frv. en sú grein lýtur einvörðungu að því að lögreglumenn mega hvorki fara í verkfall né taka þátt í verkfallsboðun eins og þar segir. Í þessari grein felst ekki á neinn hátt önnur takmörkun á félagafrelsi lögreglumanna eða afskiptum þeirra af kjaramálum.

Ég vil að lokum ítreka, herra forseti, þakklæti mitt til þeirra hv. þm. sem lýst hafa yfir stuðningi við meginmarkmið frv. og líka þeirra sem gert hafa athugasemdir sem allar eru málefnalegar og flestar hljóta að koma til skoðunar hjá hv. allshn.