Lögreglulög

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 13:06:30 (4625)

1996-04-12 13:06:30# 120. lþ. 117.8 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[13:06]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo að e.t.v. hefur það verið einhverjum tilviljunum háð hvernig starfsmannafjöldi hefur ráðist hjá einstökum lögregluembættum og aðstæður hafa verið mismunandi frá einu umdæmi til annars þannig að til að mynda má finna nokkurn mismun í fjölda lögreglumanna miðað við íbúafjölda. En það getur skýrst af ýmsum öðrum ástæðum. Aðalatriðið er þó það að hér er verið að gera tillögur um skipulagsbreytingar. Þær eiga að leiða til aukinnar skilvirkni, ekki síst að því er varðar rannsóknir brotamála. Það er svo alltaf sjálfstætt mat, burt séð frá þessum skipulagsbreytingum, hvort það þarf að fjölga í lögregluliði ríkisins eða ekki. En þessar skipulagsbreytingar sem hér er verið að leggja til ganga út frá því að um verði að ræða mjög óverulegar breytingar á starfsmannafjölda.

Varðandi spurningu hv. þm. um það hvort að þeim málum muni fjölga sem muni sæta opinberri ákæru ef ég skil hv. þm. rétt, þá er ógerningur að segja fyrir um það á þessu stigi málsins.