Lögreglulög

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 13:08:09 (4626)

1996-04-12 13:08:09# 120. lþ. 117.8 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[13:08]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í máli ráðherrans að þessi faglega úttekt sem ég hef spurst fyrir um hefur ekki farið fram. Ráðherrann hæstv. viðurkennir að það hafi kannski verið tilviljunum háð hvernig stöðugildunum hafi verið skipt. Við erum að fjalla um skipulagsbreytingu sem felur í sér mikla tilfærslu á stöðugildum milli embætta. Við erum að leggja niður Rannsóknarlögreglu ríkisins, skipta þeim verkefnum sem þar eru t.d. milli lögreglustjóraembættanna, ekki síst lögreglustjóraembættisins í Reykjavík og ríkislögreglustjóraembættisins. Það má ekki vera tilviljunum háð hvernig skiptingin á sér stað í stöðugildum milli þessara embætta. Meginmarkmiðið með frv. er að auka skilvirkni innan lögreglunnar og hraða meðferð mála og skilvirknin byggist auðvitað á því að stöðugildunum sé skynsamlega skipt milli embættanna eftir þeim verkefnum sem hin ýmsu embætti eiga að hafa. Það gengur því auðvitað ekki, virðulegi forseti, að þetta sé tilviljunum háð. Ég er ekki að tala um að fjölga stöðugildum, virðulegi forseti, heldur það hvernig stöðugildin skiptast eftir þessa miklu skipulagsbreytingu. Ég held að það sé nauðsynlegt, virðulegi forseti, meðan málið er til meðferðar hjá hv. allshn. að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að þetta faglega mat verði gert á því, og þá í samráði við lögregluyfirvöld og þá sem best til þekkja, hvort þessi skipting á stöðugildum sé skynsamleg með tilliti til þess markmiðs sem sett er í frv., þ.e. að auka skilvirkni og hraða málsmeðferð. Og ég spyr: Væri ráðherrann tilbúinn að fallast á það að slík fagleg úttekt yrði gerð meðan málið er til meðferðar hjá hv. allshn.? Ég er sannfærð um að eftir því verður kallað í hv. nefnd.