Meðferð opinberra mála

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 13:53:33 (4628)

1996-04-12 13:53:33# 120. lþ. 117.9 fundur 450. mál: #A meðferð opinberra mála# (ákæruvald) frv. 84/1996, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[13:53]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála. Ég hef áður vikið að því að samhliða frv. til laga um lögreglumenn sem var á dagskrá fyrr á þessum fundi er nauðsyn breytinga á V. kafla laga um meðferð opinberra mála þar sem mælt er fyrir um fyrirkomulag ákæruvaldsins.

Með þessu frv. er leitast við að ná fram nauðsynlegum breytingum á lögum um meðferð opinberra mála og til að ná fram þeim markmiðum sem stefnt er að með frv. til lögreglulaga, þ.e. að gera rannsóknir afbrota hraðari og skilvikari. Því markmiði má ná með því að einfalda feril mála á rannsóknar- og ákærustigi.

Með frumvarpinu er ætlunin að færa ákæruvald til lögreglustjóra, þar á meðal ríkislögreglustjóra, í ríkari mæli en áður. Rökin eru einkum þau að ákæruvald lögreglustjóra í smærri málum hafi reynst vel. Verði frumvarp til lögreglulaga lögfest færast rannsóknir flestra brotamála frá Rannsóknarlögreglu ríkisins til lögreglustjóra. Með því að fela lögreglustjórum ákæruvald í ríkari mæli, hverjum í sínu umdæmi, verður rannsókn og saksókn fyrir flest algengustu brotin í höndum sama embættis sem spara mun vinnu lögreglumanna og lögfræðinga í réttarvörslukerfinu í heild. Sá ákærandi sem gefa mun út ákæru í máli og sækja það fyrir héraðsdómi getur fylgst með máli frá upphafi og eftir atvikum haft áhrif á gang rannsóknarinnar. Ákvarðanir um hvort rannsóknarniðurstöður séu líklegar til að meintur brotamaður verði sakfelldur ættu að liggja fyrr fyrir þannig að ekki sé eytt óþarfa vinnu í mál sem litlar líkur eru á að sekt sannist í.

Með breytingunum ætti að nást fram meiri hraði í meðferð mála. Mál þar sem ákærði gengst við sakargiftum og brot þykja upplýst að fullu ættu þannig í ríkari mæli að geta gengið fyrr til dóms en áður. Sparnaður ætti að nást fram þar sem boðunum sakborninga og vitna vegna skýrslutöku hjá lögreglu ætti að fækka verulega. Þá eru líkur á að framburður ákærðu og vitna fyrir dómi verði markvissari þar sem atburðir eru enn í fersku minni manna. Við það að einfalda og stytta rannsóknar- og ákæruferil þeirra mála sem játning liggur fyrir í ætti að gefast betri tími að sinna flóknari rannsóknarverkefnum.

Helstu nýmæli í frv. eru þessi:

1. Lagt er til að lögreglustjórum verði falið ákæruvald við hlið ríkissaksóknara í stað þess að lögreglustjórar fari með ákæruvald á grundvelli almennra fyrirmæla ríkissaksóknara. Um það vísast til athugasemda með 1. gr. frv.

2. Lagt er til að dómsmrh. verði veitt heimild til að skipa saksóknara við einstök embætti lögreglustjóra, þar á meðal embætti ríkislögreglustjóra til að annast saksókn og málflutning í umboði lögreglustjóra.

3. Ákæruvald ríkissaksóknara er skilgreint með nýjum hætti. Samkvæmt 3. gr. frv. er ríkissaksóknara falið að höfða opinber mál vegna brota gegn flestum ákvæðum almennra hegningarlaga sem talin eru upp í 3. mgr. 27. gr., þar á meðal alvarlegustu brotunum svo sem landráðum, stórfelldum fíkniefnabrotum, manndrápi, stórfelldum líkamsmeiðingum, kynferðisafbrotum, ráni og fjárkúgun.

4. Lögreglustjórum er skv. 4. gr. frv. falið að höfða önnur opinber mál en ríkissaksóknari höfðar. Undan ákæruvaldi ríkissaksóknara eru þannig skilin brot gegn 17 ákvæðum almennra hegningarlaga en meðal þeirra eru algengustu brotin svo sem skjalafals, minni háttar líkamsmeiðingar, húsbrot, þjófnaður, fjárdráttur, fjársvik, eignaspjöll og nytjastuldur.

5. Loks verður lögreglustjórum skv. 4. mgr. 113. gr. laga um meðferð opinberra mála heimilað að falla frá saksókn en slíka ákvörðun getur sá sem ekki vill við hana una kært til ríkissaksóknara skv. 2. mgr. 114. gr. Þá getur ríkissaksóknari að eigin frumkvæði tekið slíka ákvörðun til endurskoðunar og ákveðið að höfða mál eða lagt fyrir lögreglustjóra að gera það. Um þetta vísast til 3. mgr. 4. gr. frv. sem breytir 3. mgr. 28. gr. laganna. 8. gr. frv. breytir 4. mgr. 113. gr. og 9. gr. frv. bætir nýrri mgr. við 114. gr. sem verður þá 2. mgr.

Herra forseti. Ég hef nú í stórum dráttum gert grein fyrir efni og markmiðum frv. þessa. Eins og ég hef áður nefnt er með frv. leitast við að ná fram nauðsynlegum breytingum á lögum um meðferð opinberra mála til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með frv. til lögreglulaga, þ.e. að gera rannsóknir lögbrota hraðari og skilvirkari. Því markmiði má ná með því að einfalda feril mála og rannsóknar á ákærustigi og fela lögreglustjórum ákæruvald í flestum brotaflokkum þannig að allur þorri sakamála verði rannsakaður undir stjórn þess lögreglustjóra sem ákærir í máli og sækir það fyrir héraðsdómi. Þessi tvö mál sem hér hafa verið á dagskrá, frv. að nýjum lögreglulögum og frv. um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála eru þannig ein heild og hluti af þeim skipulagsbreytingum sem lagt er til að gera í þeim tilgangi sem ég hef hér lýst.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.