Umferðarlög

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 13:59:22 (4629)

1996-04-12 13:59:22# 120. lþ. 117.10 fundur 463. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[13:59]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þær breytingar sem hér er verið að leggja til á umferðarlögum lúta einkum að aðlögun að tilskipun Evrópusambandsins um ökuskírteini og fleiri breytingar er tengjast gildistöku nýrra vegalaga.

Frv. gerir ráð fyrir því að af ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins leiðir að breyta þarf skilgreiningu umferðarlaganna. Á léttu bifhjóli þarf að kveða á um gildi ökuskírteina útgefinna í EES-löndum. Þá er kveðið á um það í þessu frv. að breyta heitum þjóðvega eða skilgreiningu á þjóðvegum í samræmi við þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar á vegalögum í þessu efni.

[14:00]

Þá eru í frv. breytingar sem lúta að réttindum til að stjórna bifreið og fela í sér að þeir sem hafa rétt til að stjórna bifreið hafi rétt til að stjórna léttu bifhjóli. Lagt er til að 4. mgr. 55. gr. verði breytt þannig að enginn megi stjórna torfærutæki nema hafa gilt ökuskírteini til að mega stjórna bifreið. Í þessu felst að lágmarksaldur til að stjórna torfærutæki verður 17 ár í stað 15. Þá er lagt til að gerðar verði breytingar á 113. gr. þannig að dómsmrh. verði veitt heimild til að ákveða í reglugerð nánari skipun Umferðarráðs en að Umferðarráði eiga aðild ýmis hagsmuna- og áhugasamtök um umferðarmál og þykir eðlilegt að hafa heimild til þess að taka nýja aðila inn í ráðið og eins að fella þá út sem hafa hætt störfum án þess að til sérstakra lagabreytinga þurfi að koma.

Loks er lagt til að lögfest verði heimild til þess að skipa sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa og ráðherra verði fengið rýmra vald um fjölgun nefndarmanna og um skipun og skipulag nefndarinnar að öðru leyti.

Herra forseti. Ég hef í aðalatriðum gert grein fyrir efni þessa frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.