Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 14:02:37 (4630)

1996-04-12 14:02:37# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:02]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það frv. sem liggur fyrir um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða lýtur fyrst og fremst að því að gera breytingar á þeim ákvæðum sem í gildi eru um veiðistjórnun smábáta.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að um veiðistjórnun smábáta hafa lengi staðið deilur bæði innan þings og utan og á tveimur síðustu þingum hafa verið gerðar breytingar á fyrirkomulagi þessarar veiðistjórnunar, fyrst og fremst með málamiðlunum innan þingsins en án þess að tekist hafi samstaða með þeim sem stunda þessa atvinnu. Ég gerði það að tillögu minni á landsfundi smábátaeigenda í október á síðasta ári að stjórnvöld og fulltrúar smábátaeigenda kæmu saman til þess að freista þess að ná einhverri sátt um veiðistjórnunarreglur þessa hluta íslenska flotans. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það ferli en þær viðræður hafa staðið yfir frá því í nóvember þangað til nú fyrir skömmu. Niðurstaðan er það frv. sem hér liggur fyrir. Það má segja að höfuðbreytingin sem þetta frv. felur í sér sé í því fólgin að það aflamark sem smábátum er ákvarðað samkvæmt gildandi lögum upp á 21.500 lestir er núna hlutfallstengt við heildaraflamark á hverjum tíma. Það felur í sér óbreytt hlutfall af heildaraflanum frá því sem aflamarkið er í dag, þ.e. 13,9%. Hins vegar er fyrirséð að þorskafli mun fara að aukast á næstu árum á nýjan leik og þessi hlutfallstenging felur þá í sér að smábátarnir munu halda því hlutfalli sem þeir hafa í dag í stað þess að það hefði farið að rýrna ef lögum yrði ekki breytt. Hlutfall annarra eða aflahlutdeild annarra helst óbreytt en vitaskuld hefur það nokkur áhrif á aflamarkið að smábátarnir fá sinn hlut tengdan við heildaraflamarkið.

Þá er gert ráð fyrir því að fastir banndagar þessara báta verði felldir úr gildi og einvörðungu verði stuðst við fjölda leyfðra sóknardaga á hverju ári. Þeir eru 84 fyrir handfærabáta en allnokkru færri fyrir þá báta sem róa með línu. Það er svo áfram gert ráð fyrir því að heildarveiði þeirra sem eru á sóknardagakerfinu verði stjórnað með leiðréttingu ári seinna þannig að fari veiði þeirra fram úr heildarhlutdeildinni sem kemur í hlut sóknardagabátanna þá fækkar róðrardögunum að sama skapi á næsta fiskveiðiári. Heimild verður veitt til þess að geyma 20% afla á milli ára með sama hætti og í aflamarkskerfinu. Veiðitímabil smábátanna eru afnumin og veiðitímabilið verður þannig eitt fiskveiðiár eins og í almenna fiskveiðiflotanum. Þá er gert ráð fyrir breytingum á skilgreiningu róðrardags sem í gildandi lögum er miðað við almanaksdag en verður nú miðað við 24 klst. að vali þeirra sem í róður fara.

Að minni hyggju er mjög mikilvægt að samstaða varð milli ráðuneytisins og smábátaeigenda að greina á milli handfærabáta og línubáta í þeim tillögum sem hér liggja fyrir og hver róðrardagur báts sem fiskar á línu reiknast þannig 1,35 miðað við vetrarveiði og 1,9 miðað við sumarveiði. Róðrardagar þessara báta, sem hafa miklu meiri sóknarmöguleika, verða þess vegna talsvert færri og aukin sókn þeirra kemur ekki til með að hafa áhrif á veiðimöguleika þeirra báta sem einvörðungu stunda handfæraveiðar og hefur ekki áhrif á fjölda veiðidaga þeirra.

Þá er gert ráð fyrir því að fram til 1. sept. verði veittur sérstakur úreldingarstyrkur upp að hámarki 80% og er flutt sérstakt frv. sem kemur til umfjöllunar síðar á þessum fundi er lýtur að breytingum á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Þá er gert ráð fyrir því að sá hluti krókabátaflotans, sem veiðir á þorskaflahámarki, geti framselt þorskaflahámarkið með ákveðnum skilyrðum þannig að það verði allt flutt af einum bát og veiðileyfi hans falli niður en þorskaflahámarkið má hins vegar flytja á fleiri báta. Þá er opnað fyrir það að þessir bátar geta leigt til sín aflamark innan fiskveiðiársins frá aflamarksflotanum.

Herra forseti. Ég hef gert í meginatriðum grein fyrir þeim breytingum á fiskveiðistjórnarlögunum sem lúta að veiðum smábáta og legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.