Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 15:21:50 (4635)

1996-04-12 15:21:50# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[15:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Annaðhvort er ég eða hv. þm. Tómas Ingi Olrich á alvarlegum villigötum í hugsun og röksemdafærslu um þetta frv. Ég skil frv. svo að í því sé gert ráð fyrir að það sé engin óvissa lengur um hvað smábátarnir veiða mikið þannig að frv. styrki aflamarkskerfið. Lítum aðeins á þetta nánar:

Krókabátum er núna skipt í tvo hópa. Annars vegar þá sem eru á þorskaflahámarki. Þeir veiða ekki meira en sitt hámark vegna þess að þá eru þeir teknir úr umferð af hæstv. sjútvrh. Hins vegar eru það þeir sem eru á sóknardagakerfinu. Þeir eru 680 og mega veiða 6.800 tonn. Með öðrum orðum það er mikill minni hluti magnsins sem þessir veiða. Það eru bara þeir sem geta farið umfram sett mark. Ef þessi litli hluti flotans fer umfram þessi 6.800 tonn þá kemur til framkvæmdar regla sem fækkar sóknardögunum fiskveiðiárið 1997--1998. Með öðrum orðum hlýtur að vera hægt að fallast á það að hættan á umframveiði sé miklu minni heldur en áður og í öðru lagi að það séu tæki til þess að draga úr henni. Því hlýtur niðurstaðan að vera sú að núna eru veiðar smábátanna komnar inn í kerfið þannig að aflamarkskerfið er talsvert styrkara en áður. Hvernig getur þá hv. þm. komið hér og sagt að tengingin á milli heildaraflamarks smábátanna annars vegar og heildarkvótans í þorski yfir árið hins vegar leiði til þess að kerfið veikist? Það er rökfræðileg fjarstæða.