Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 15:23:46 (4636)

1996-04-12 15:23:46# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[15:23]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla mér ekki að reyna að leiða hv. þm. Össur Skarphéðinsson í sannleikann um þetta mál. Hann hefur verið mjög skorinorður talsmaður krókabátanna og hann fagnar þessu frv. vegna þess að það kemur í einu og öllu til móts við þeirra kröfur. Í einu og öllu. Og það gengur beinlínis á hagsmuni þeirra sem hafa leikið eftir reglum um aflahlutdeildarkerfið. Það er í raun og veru styrkt aflahlutdeildarkerfi en það er ekki gamla aflahlutdeildarkerfið það er nýtt hlutdeildarkerfi þar sem sumir fá beina aðild að aukningu aflans en öðrum er gert að bera niðurskurðinn þegar hann kemur, bæði liðinn niðurskurð og framtíðarniðurskurð. Þetta er bara ekki það aflahlutdeildarkerfi sem við höfum verið að tala hér um. Það er nýtt kerfi. Ég er ekki hissa á því þótt hv. þm. fagni þessu vegna þess að það kemur í einu og öllu heim og saman við hans sjónarmið sem hafa nú ekki beint verið stuðningssjónarmið við aflahlutdeildarkerfið eða aflamarkskerfið ef ég man rétt.