Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 15:27:24 (4638)

1996-04-12 15:27:24# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[15:27]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegur forseta. Rökfræðilega stendur mín skýring á þessu nákvæmlega. En ég heyri það í tveimur ræðum að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er ónæmur fyrir þessum rökum. Ég hef bent honum á að hér sé verið að búa til nýtt aflamarkskerfi þar sem eru inni tveir flokkar og annar verður að þola niðurskurðinn þegar þar að kemur og hefur þolað hann hingað til en hinir eru settir í verndað umhverfi gagnvart þessu. Þetta virðist hv. þm. ekki hafa skilið. Það kemur hins vegar í ljós skilningur hans á því að innan aflamarksskipanna eru vissulega einhver skip sem ekki geta nýtt sér þá möguleika að fara á fjarlæg mið og þá opnar þingmaðurinn á það væntanlega að það þurfi eitthvað að krukka í kerfið til að bjarga þeim. Það er alveg rétt að eftir því sem menn ganga nær þessum aflamarksskipum --- og það er verið að ganga enn þá nær þeim vegna þess að það er verið að minnka hlutdeild þeirra í aukningu aflans --- þá þarf að grípa til fleiri pólitískra aðgerða til að lagfæra stöðu eins útgerðarhóps í dag og annars á morgun og við erum þess vegna eins og ég sagði í ræðu minni áðan að fjarlægjast kerfi þar sem fyrirtækjunum er stjórnað á eigin forsendum, á rekstrarforsendum og við erum að nálgast pólitísk afskipti af rekstri sjávarútvegsins í heild og það er leið sem ég ætlaði ekki að við myndum fara undir stjórn hæstv. sjútvrh. og þeirrar ríkisstjórnar sem hér er nú.