Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 15:28:54 (4639)

1996-04-12 15:28:54# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[15:28]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Mér finnst á þeim orðaskiptum sem hér fóru fram síðast að við séum óðum að nálgast kjarna þessa máls. Það er vel. Ég held að það sé löngu tímabært að það fari fram um það raunveruleg umræða hér í þinginu hvernig menn líta til aflamarkskerfisins. Hvort menn horfa eingöngu á það sem stjórntæki til að ná tökum á veiðunum eða hvort menn horfa til þess sem stjórntækis sem við getum nýtt okkur við efnahagsstjórn.

Í upphafi máls míns vil ég rifja upp það sem hæstv. sjútvrh. sagði í viðtali í Ríkisútvarpinu 19. mars sl. þegar hann var að ræða mikilvægi þess að samkomulag hefði náðst á milli ráðuneytisins og Landssambands smábátaeigenda. Þar greinir hæstv. ráðherra frá því að núgildandi lög hafi verið samþykkt í fyrra eftir mikil hrossakaup í þinginu. Orðrétt segir ráðherrann: ,,Núgildandi lög voru samþykkt í fyrra eftir mikil hrossakaup í þinginu.``

Það er mikilvægt, herra forseti, að upplýsa hver þessi hrossakaup voru og við hverja þau voru gerð. Það er ekki síst mikilvægt fyrir okkur í sjútvn. að við áttum okkur á því hvernig kaupin gerast hjá stjórnarflokkunum og jafnvel á milli þeirra þegar verið er að ráða jafnmikilvægum málum og stjórn fiskveiða. Var Seljavallasjóðurinn, það að gera hv. þm. Egil Jónsson, varaformann landbn. þingsins og formann stjórnar Byggðastofnunar, ábyrgan fyrir úthlutun 500 lesta af þorski, t.d. hluti af þeim hrossakaupum? Hvað kom þá á móti? Hvað fékk ráðherrann eða ríkisstjórnin í sinn hlut eða stuðning við hvað? Hvers virði voru þær 500 lestir? Af því að ég minnist á þennan ágæta sjóð þá væri fróðlegt að þinginu bærust upplýsingar um það hverjar hafa verið forsendur þeirra úthlutana sem gerðar hafa verið af hálfu stjórnar Byggðastofnunar á grundvelli þessa ákvæðis laganna. En ég geri mér grein fyrir því að svo merkilegt sem það er þá get ég ekki beint þeirri fyrirspurn til hæstv. sjútvrh., heldur verð ég að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., og gæti t.d. gert það í óundirbúnum fyrirspurnum hér á mánudaginn.

En áfram með hrossakaupin. Var sú einbeitta andstaða, sem kom fram gegn róðrardagakerfinu og var varin tæknilegum rökum á þeim tíma, var sú afstaða e.t.v. líka byggð á hrossakaupum við einhverja hagsmunaaðila, vini ráðherrans eða ríkisstjórnarinnar? Eða sú mikla miðstýringarárátta varðandi stærð þeirra skipa sem eru á aflamarki eða fá úthlutað ákveðnum veiðiheimildum og birtist í frv. frá í vor þar sem sóknar- og flotastýringarmenn höfðu greinilega náð að gera kaup, líklega hrossakaup á máli ráðherrans, eða hvað?

Í því frv. sem hér liggur fyrir er í ýmsum atriðum komið til móts við þá gagnrýni sem stjórnarandstaðan hafði uppi sl. vor þegar hrossakaupafrv. ráðherrans var hér til umfjöllunar. Þar vil ég fyrst nefna 1. gr. sem lýtur að endurnýjun báta vegna sjótjóns. Mér finnst líka ástæða til að fagna því að nú skuli róðrardagakerfið eða sóknardagakerfið komið á hiklaust og án tímabila og gott til þess að vita að tæknilegar hindranir skuli ekki lengur byrgja stjórnarliðum sýn þannig að menn geti þá sjálfir ráðið því hvenær þeir nýta róðrardagana sína. Mér finnst líka jákvætt að menn skuli aftur geta valið um kerfi, hvort þeir vilja vera á þorskaflahámarki með kostum þess og göllum, og kem ég nánar að því síðar, eða kjósa róðrardaga. Og þá ekki síður hitt sem er jákvætt og virkilegt framfararspor: að greint skuli á milli þess hvort menn hyggjast stunda veiðar bæði með línu og handfærum eða einungis með handfærum og þannig viðurkenndur sá munur sem er á veiðigetu þessara veiðarfæra og reynt að ná utan um þau afköst sem geta verið hjá hörðustu línuveiðurunum. Það hefði betur verið gert fyrr því sú mikla aflaaukning sem orðið hefur hjá smábátum á örfáum árum stafar fyrst og fremst af aukningu hraðskreiðra báta, nýrra báta inn í kerfið sem í raun var galopið, báta sem róa með línu og jafnvel á vöktum, báta sem stundum eru kallaðir hraðfiskibátar.

Ég vænti þess að þeir sem sitja á hinu háa Alþingi geri sér grein fyrir því að breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, breytingar sem leiða til flutnings á veiðiheimildum eða hlutdeildar í afla, geta bæði haft áhrif á búsetuþróunina í landinu og samsetningu fiskveiðiflotans. Sú þróun sem orðið hefur varðandi fjölgun og síaukna hlutdeild smábáta í heildarþorskaflanum, krókabáta, er lýsandi dæmi um þetta. Ef litið er til þeirrar þróunar kemur í ljós að hlutdeild krókabáta í þorskaflanum samkvæmt upplýsingum Fiskistofu hefur aukist frá því að vera 5,6% almanaksárið 1991 í rúmlega 20% á síðasta almanaksári. Þetta gerist vegna þess stjórnkerfis sem smábátarnir búa við og er annað en stærri bátar og togarar eða aflamarksbátar sem líka eru smábátar hafa búið við og á sama tíma þurft að sæta miklum niðurskurði vegna fastrar hlutdeildar sinnar.

Krókabátarnir búa við sóknarmark þar sem hver veiðir sem betur getur þegar veiða má og því þarf að stjórna þeim veiðum bæði með því að setja hömlur við endurnýjun bátanna og hvenær menn mega róa. Stjórnkerfi veiðanna ræður fiskveiðiarðinum að stórum hluta og því er það svo mikilvægt fyrir okkur Íslendinga sem lítum á auðlindina hafið sem undirstöðu búsetu og velferðar í landinu að vandað sé til verka þegar ákvarðað er hvaða stjórnkerfi er notað þegar farið er fram með breytingar þannig að þær breytingar sem ráðist er í verði a.m.k. ekki til að rýra lífskjör þjóðarinnar.

Einhvern tímann verður væntanlega gerð úttekt á eignamyndun í kjölfar stjórnunar og veiða í sjávarútvegi og ekki er vafamál að þá mun ýmislegt fróðlegt koma fram. Eins og það hvernig breytingar á lögum og reglugerðum höfðu áhrif á það verðmætamat sem var í gangi á hverjum tíma.

Hagsmunaárekstrar í sjávarútvegi eru auðvitað vegna þess að tekist er á um gríðarleg verðmæti. Ef við skoðum verðmæti þeirrar aflahlutdeildar í þorski sem smábátar hafa verið að fá vegna laga og reglugerða á undanförnum árum auk þess að mega veiða aðrar tegundir frjálst þá sjáum við best hvílíkir hagsmunir eru hér á ferðinni. Ef við miðum við árið 1991 eins og ég gerði áðan þegar aflahlutdeild krókabáta var 5,6% í þorski þá mundi sú hlutdeild gefa þeim 8.600 tonn í dag, ef hún hefði verið föst eins og aðrir hafa þurft að búa við en ekki 21.500 tonn eins og nú er miðað við sem gólf í þeirri hlutdeild sem stendur til að lögleiða upp á 13,9%. Þá skulum við líta á verðmætin. Mismunur 8.600 tonna, sem hlutdeildin 1991 hefði gefið ef kerfi smábáta hefði ekki verið opið fyrir aukningu, og þeirra 21.500 tonna sem nú er verið að miða við sem gólf og er miðað við yfirstandandi fiskveiðiár 13,9%, er á milli 12.000 og 13.000 tonn. Ef við reiknum miðað við það gangverð sem er á varanlegum aflaheimildum, því hér er ríkisvaldið að úthluta varanlegum aflaheimildum, ef við reiknum miðað við það gangverð sem er á varanlegum aflaheimildum í þorski sem mér er sagt að sé nú rúmlega 500 kr., þá erum við að tala hér um u.þ.b. 6,5 milljarða. Þessi verðmæti hafa ekki orðið til af sjálfu sér og þau eru auðvitað tekin af öðrum, m.a. aflamarkssmábátum. Og svo eru menn hissa á því að allir skuli ekki vera elskusáttir, en ég verð að segja, herra forseti, það hefur verið fundað og ályktað af minna tilefni.

Það var líka athyglisvert að þegar fulltrúar þeirra sem eiga aflamarksbáta eða togara, sem hafa þurft að sæta miklum niðurskurði í þorski undanfarin ár eins og áður hefur komið fram, þegar þeir lýstu því yfir að þetta ákvæði samkomulags ráðherra og Landssambands smábátaeigenda gæti orðið til þess að þeir endurmætu stuðning sinn við núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, hið lokaða kvótakerfi sem þeir búa við, þá svaraði ráðherrann því til einhvern veginn þannig að það væri ómögulegt eða út í hött því að hitt kerfið, sóknarmarkið, þetta sem smábátarnir búa við, krókabátarnir, væri svo vont að það væri meginforsenda óánægju þeirra. Það voru sérkennileg rök. Því að ef sannfæring ráðherrans er sú að það sé stjórnkerfið sem smábátarnir búa við sem er meginforsenda óánægju þeirra af hverju kemur hann þá ekki með frv. til breytinga þar á og er þannig samkvæmur sjálfum sér? Eða er enn verið í hrossakaupunum? Heldur hæstv. ráðherra að hann geti mikið oftar gripið til þess ráðs til að lina óánægju smábátaeigenda, sem hann telur stafa af óánægju með kerfið, með því að auka afla þeirra á kostnað hinna sem eru í hinu kerfinu? Það held ég ekki og vísa þar til viðbragða þeirra sem nú telja sig svikna.

En þá aftur að þeim breytingum sem frv. boðar. Ég nefndi áðan að samkvæmt frv. geta menn valið aftur. Í vor eftir að hrossakaupalögin voru sett völdu menn á milli þorskaflahámarks og viðbótarbanndaga. Þá kom í ljós að mun fleiri völdu þorskaflahámarkið en búist hafði verið við. Ég get vel ímyndað mér að mun fleiri muni kjósa það nú við endurvalið. Jafnvel þótt skikkanleg mynd sé að komast á róðrardaga og handfæramenn geti eftir þessa lagabreytingu verið eitthvað öruggari með sína stöðu þá er það nú svo að þorskaflahámarkshópurinn kemur afar vel út úr því sem hér er lagt til. Hann fær líklega verðmætustu möguleikana í þessu frv. Ég minni á það, herra forseti, að þessi hópur, þorskaflahámarkshópurinn, sem nú telur u.þ.b. 400 báta sem taka í sinn hlut meira en 2/3 þess potts sem krókabátar mega veiða úr, er eini hópurinn sem fær úthlutun úr Seljavallasjóðnum. Þetta er eini hópurinn sem situr að 500 tonnunum. Þannig er það. En nú kemur inn ákvæði um það að þeir megi selja frá sér hámarkið þó aðeins sé innan hópsins. Og það kemur líka inn að til þeirra má flytja aflamark í þorski úr hinu kerfinu, þ.e. aflamarkskerfinu. Þannig má, ef frv. verður að lögum, flytja aflamark frá aflamarksbátum og togurum til krókabáta innan árs en ekki í hina áttina, þ.e. frá smábátum á þorskaflahámarki til stærri báta og togara eða báta á aflamarki. Það má ekki í þá áttina. Þannig má segja að undirstrikuð sé sú áhersla sem fram kemur í samkomulagi ráðherrans við Landssamband smábátaeigenda að ýta enn undir það að æ stærri hluti þorskaflans verði tekinn með æ smærri bátum á sóknarmarki. Það virðist vera sú pólitík sem hér er verið að boða. Það er auðvitað ákveðin pólitík. Ég harma að ráðherrann --- nú, hann er þarna, hann er væntanlega að hlusta á mál mitt, ég treysti því. --- Það væri æskilegt að ráðherrann styddi þess vegna þessa niðurstöðu sína betri efnahagslegum rökum en þegar hafa komið fram. Sem sé: Telur ráðherrann að það sé efnahagslega farsælla fyrir okkur að æ stærri hluti þorskveiðinnar fari fram á smábátum á sóknarmarki? Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fáum svör við þessari spurningu. Það er kannski ekki hægt að svara henni hér og nú en alla vega að hv. nefnd fái þá þessar upplýsingar til að fjalla um þær vegna þess að útgerð er ekki bara rómantík, útgerð er bláköld alvara vegna þess að við erum hér að tala um nýtingu okkar undirstöðuauðlindar. Það er ekki sama efnahagslega hvernig sú nýting fer fram. Þess vegna verða menn þegar farið er fram með stefnumarkandi breytingar af þessari stærð að styðja sitt mál efnahagslegum rökum.

Byggðapólitísku rökin þekki ég þannig að ráðherrann þarf ekki að tíunda þau. Ég geri ráð fyrir að þeir sem horfa til hinna byggðapólitísku raka fyrst og fremst átti sig á því að þessir bátar landa fremur öðrum á fiskmörkuðum þannig að það er engin trygging fyrir því að sá fiskur sem þeir veiða sé unninn í heimabyggð eins og það er kallað og einnig hitt að þessir bátar eru hreyfanlegir. Þeir fara á milli verstöðva eftir því hvar fiskurinn gefur sig. Þannig eiga hin byggðapólitísku rök við í sumu tilliti en þau eru ekki það sem gildir í þessu máli númer eitt, tvö og þrjú eins og mér heyrist á sumum.

En vegna þess að hér er um efnahagsmál að ræða þá verður líka fróðlegt að fylgjast með breytingum á virði þessara báta og smábátanna almennt ef frv. verður að lögum. Með hrossakaupalögunum í vor var klúbbnum lokað. Og nú á að lögfesta aflahlutdeild og opna fyrir framsal. Auðvitað veldur þetta breytingum á virði bátanna og frv. til breytinga á lögum um Þróunarsjóðinn bæði hjálpar þar til og undirstrikar í raun það sem hér er verið að tala um.

Herra forseti. Ég óska eftir hinum efnahagslegu rökum og ég vænti þess að hv. sjútvn. fái að meta málið einnig í því ljósi því ég tel að það sé afar mikilvægt að við horfum til þeirra þegar verið er að fjalla um tillögur af því tagi sem hér liggja fyrir.

[15:45]

Áður en ég lýk máli mínu langar mig til að víkja að því sem menn hafa komið að enda þótt það sé ekki beint á dagskrá hér, þ.e. spurningunni um það hvort auka eigi þorskkvótann á yfirstandandi fiskveiðiári. Mér sýnist reyndar að ákveðnir aðilar séu búnir að sigla málinu í það far að hæstv. ráðherrann komist ekki undan því að auka þorskveiðikvótann. Ég verð hins vegar að segja að það uppboð sem farið hefur fram af hálfu stjórnarliða í þessu máli og það frumhlaup sem þeir hafa sýnt hefur komið mér afar sérkennilega fyrir sjónir. Ég hlustaði á það í fréttum Ríkisútvarps í gærkvöldi að hv. þm. Hjálmar Árnason bauð upp á 10 þús. tonn til sérvalinna báta og togara. Ég hlýt að spyrja: Má vænta þess að þingmaðurinn komi með brtt. á lögunum til að þessi hugmynd hans megi rúmast innan þeirra? Því þetta er hugmynd þeirrar gerðar að hún rúmast ekki innan laganna eins og þau eru í dag. Og þrátt fyrir allt og allt þá byggja þau jú á ákveðnu jafnræði hvað varðar aflamarksbáta og skip. En það eru þau sem hv. þm. var fyrst og fremst að tala um. Hann á tvo kosti sýnist mér. Það er annaðhvort að það verði sérgreint í lögunum hvernig þessu verður úthlutað með einhvers konar bráðabirgðaákvæði ellegar að fela Seljavallasjóðnum að sjá um úthlutun á þessu og væri það verðugt verkefni. En hér er sem sagt verið að efna til uppboðs með hugmyndir og búa til loforð sem að mínu mati eru fyllilega innstæðulaus og ómerkileg sem því nemur ef þeim er ekki fylgt eftir með þeim myndugleik sem mér sýnist að stjórnarþingmenn einir hafi hér nokkra stöðu til að gera þannig að við hljótum að bíða eftir því að þessi brtt. komi fram. Sömuleiðis sýnist mér að þessi hv. þm. ásamt fleirum séu að sameinast í því að ekki sé síðan óeðlilegt að bæta við 40--50 þús. tonnum. Ég er ekki að amast við því en eins og ég segi hef ég ekki enn heyrt hæstv. ráðherrann taka undir þetta en mér sýnist að verið sé að tefla honum í þá stöðu --- ekki af hálfu stjórnarandstöðunnar því hún hefur nú verið spök í þessu máli, nei, af hálfu stjórnarliða sjálfra, að hann eigi ekki margs annars úrkosti en að auka við. Það er í rauninni mjög merkileg staða hér inni.