Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 16:22:41 (4653)

1996-04-12 16:22:41# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:22]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég árétta að mér finnst billegt að skáka í þessu skjólinu. Það er kannski skrýtið en mér finnst það og ég hygg að það finnist fleirum. Það er ráðherrann sem ræður þó að hann sé í sama flokki. Svona er þetta.

En aðeins aftur að Þróunarsjóðnum og því að menn hafi verið búnir að reikna út hver áhrifin yrðu og þess vegna væri óhætt að fara í frekari lagabreytingar. Ég spyr: Var búið að reikna út hver áhrifin yrðu þegar þetta kerfi hefði breyst með þeim hætti sem nú er verið að gera, þ.e. að föst hlutdeild væri komin til? Var búið að reikna það út miðað við það? Eða var búið að reikna út miðað við það að flytja mætti aflamark af aflamarksbátunum yfir á þorskaflamarksbátana? Var það líka búið? Voru menn búnir að sjá fyrir hvernig þessi lög mundu virka? Ég leyfi mér að efast um það. Þess vegna endurtek ég það sem ég sagði áðan. Þetta er fljótræði, þetta er ótímabært og það hefði verið nær að sjá það fyrir hvernig lögin um Þróunarsjóðinn, sem við settum fyrir jólin, koma til með að hafa áhrif á stærð flotans áður en menn rjúka til í það að búa til nýjar tálbeitur inn í kerfið sem gera í rauninni ekkert annað en hamla því að flotinn minnki eins og menn höfðu þó gert áætlanir um.