Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 16:24:00 (4654)

1996-04-12 16:24:00# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:24]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og þingheimi er vonandi kunnugt varð að gera breytingar á lögunum um Þróunarsjóðinn aftur í haust vegna þess að menn sáu að þær lagabreytingar sem við gerðum á vorþinginu voru ekki nægjanlegar til þess að þarna yrði á sú ásókn til þess að nýta sér Þróunarsjóðinn sem menn höfðu vænst. Þá gerðu menn bara breytingar á því og það gekk nokkuð þokkalega fyrir sig í þinginu. Það var samþykkt hér og þótti eðlilegt.

Ég veit ekki, herra forseti, af hverju það ætti að vera óeðlilegt sjái menn það að einhver breyting sem þeir hafa gert nær ekki ætlunarverki sínu að aðlaga sig þá því sem þeir vita að er betra. Það gerðum við í haust þegar við fluttum aftur brtt. um Þróunarsjóðinn.

Herra forseti. Ég get ekkert billegt séð við það þó að tveir sjálfstæðismenn hafi mismunandi skoðun á því hvernig meta eigi líffræði hafsins. Ég sé ekkert billegt við það.