Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 16:25:05 (4655)

1996-04-12 16:25:05# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, LB
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:25]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Í upphafi míns máls lýsi því yfir að ég er þessu frv. gersamlega andvígur. Ég held að í gegnum tíðina hafi aflamarkskerfið virkilega sannað að þetta er sennilega skásta kerfið sem við búum við og getum búið við. Helstu röksemdafærslur nú um stundir eru þær að m.a. vegna aflamarkskerfisins séu stofnarnir að taka við sér. Ég tel því að sá gerningur sem hér á að hafa frammi sé í raun ekkert annað en að það er verið að opna á það kerfi sem hingað til hefur reynst okkur nokkuð vel og hefur bæði hvað varðar friðun á þorski og eins hvað varðar hagkvæmni í útgerð gert það að verkum að það hefur sífellt verið að sanna sig.

Það er grundvallaratriði í rekstri fyrirtækja að menn viti hvert rekstrarumhverfi þeirra er þannig að þeir geti gert áætlanir a.m.k. viku fram í tímann. Hér er verið að opna kerfið, það er verið að taka inn í það fleiri aðila og eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson orðaði það ágætlega áðan. (Gripið fram í.) Það er ekki nema ár síðan hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir að búið væri að loka kerfinu við 20 þús. tonn ríflega. Það er ekki lokaðra en svo að tæpu ári seinna er búið að opna það aftur þannig að ef menn ætla að gera út á þá atvinnugrein sem hefur haldið okkur uppi í gegnum aldirnar og vita aldrei nokkurn tíma hvernig rekstrarumhverfið muni verða frá ári til árs er alveg ljóst að slíkur rekstur getur ekki gengið.

Það hefur verið einkenni á aflamarkskerfinu að það hefur eiginlega verið sátt um ósættið vegna þess að það sama hefur gengið yfir alla og þrátt fyrir að aflamarkskerfið sé kannski skásta kerfið sem við höfum er það langt frá því að vera fullkomið. Það hefur verið sátt um ósættið sökum þess að það hefur falist í því ákveðið réttlæti. Það sama hefur gengið yfir alla. Þegar skorið hefur verið niður þá hefur sami niðurskurður átt sér stað hjá öllum. En í frv. er verið að ívilna stórkostlega á kostnað annarra aflamarksbáta og togara þeim aðilum sem hafa hingað til ekki virt neitt samkomulag og skilaboðin hljóta að vera sú að menn eigi að nýta sér hverja einustu glufu sem gefst í lögunum, nýta sér öll tækifæri til þess að fara fram hjá lögunum því að þeim mun á efsta degi umbunað verða. Það er ekki neitt annað sem hér á í hlut.

Við getum tekið dæmi. Ég er með töflu um hlutdeild 10 brúttólesta báta í heildarafla á þorski frá viðmiðunarárunum til og með 1995. Hlutdeildin 1980--1983 er um það bil 3,80%, en 1994--1995 er hún 19,94%. Á sama tíma hefur þróun Húnarastarinnar verið sú að á viðmiðunarárunum 1980--1983 var meðalafli hennar 626 tonn, fór niður í 409 árið 1984 eftir að kvótakerfinu var komið á og er í dag 134 tonn. Á sama tíma hefur hlutdeild þessara 10 brúttórúmlesta báta og minni aukist úr 3,80% í 21,94% og svo segir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að þó að rými fyrir aðra hafi verið þrengt sé ekki frá neinum tekið. Það er kannski tekið úr hafinu því að það virðist ekki vera tekið frá neinum. Það er nákvæmlega á þessum forsendum sem ég er andvígur frv. því að hér er ekki verið að gera neitt annað en að mismuna mönnum.

Það frv. sem hér liggur fyrir gerir ekkert annað en að kerfið er opnað. Fleiri aðilar eru teknir inn í kerfið og í raun og veru er það kerfi, sem menn treystu á að væri tryggt fyrir rekstrarumhverfið, opnað og því geta menn ekki treyst því lengur. Með þeim rökum að þar sem búið er að opna kerfið tel ég að þegar til aukningar á aflaheimildum komi að nýju beri að veita þeim heimildum til þeirra skipa sem hvað verst hafa farið út úr skerðingunni. Það er alveg ljóst að það er þegar búið að opna kerfið og menn geta ekki lengur treyst því að eitt gangi yfir alla. Því á sú aukning sem nú verður vonandi að fara á þau skip sem hvað verst hafa orðið úti í skerðingunni.

[16:30]

Þessi mismunun er næsta grímulaus og, með leyfi forseta, ætla ég að lesa nokkrar línur upp úr athugasemdum við lagafrv. þetta. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Landssamband smábátaeigenda lagði í viðræðum við ráðuneytið áherslu á að auka þyrfti veiðiheimildir krókabáta bæði með því að hækka 21.500 lesta viðmiðunina og á að nauðsynlegt væri að hlutfallstengja aflann miðað við ákvarðaðan heildarafla í þorski. Ráðuneytið taldi ekki mögulegt að skerða aðra útgerðarhópa frekar til þess að auka veiðiheimildir krókabátahópsins miðað við óbreyttan heildarafla ...``

Hvort þetta þýðir að ef heildarafla verði breytt sé heimilt að skerða aðra útgerðarhópa frekar, um það skal ég ekki segja. En þessi mismunun er ekki duldari en svo að hún kemur skýrt fram í greinargerð með frv.

Það kom líka fram í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að það mætti vænta þess að krókabátum fækkaði á komandi árum. Þrátt fyrir það er kveðið á um í frv. að aflahlutdeild krókabáta skuli aldrei fara niður fyrir 21.500 tonn. Ég velti því fyrir mér ef það gengur eftir sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði og þeir yrðu kannski ekki nema 300--400 og þorskkvótinn ykist til mikilla muna væri ekki algalið að eiga einn slíkan bát því að á meðan bátunum fækkar eykst kvótinn. Sá kvóti sem er á hverjum báti verður þá það mikill að það er mjög vænlegt að verða útgerðarmaður á krókabáti.

Virðulegi forseti. Ég hef komið því að sem ég ætlaði að segja um þetta mál og orðlengi það ekki frekar.