Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 16:49:35 (4657)

1996-04-12 16:49:35# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:49]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu hefur að vísu vakið mikla athygli þingmanna, eins og sjá má í þingsölum, jafnvel þeirra sem kvörtuðu í morgun um að stundum væri þunnt setinn bekkurinn en sjást ekki núna. Við verðum þó að halda að þeir sitji yfir sjónvarpi sínu eða séu annars staðar að þingstörfum með einhverjum hætti. (Gripið fram í: Eru það menn úr þessum fagnefndum sem við erum að tala um sem fjalla um þetta mál, sem saknað er?) Hv. þm. getur litið um salinn sjálfur og aðgætt hvort hér eru allir úr viðkomandi fagnefnd eða þeim fagnefndum sem hugsanlega vilja leggja orð í belg um þetta mál.

Við höfum öll í höndunum vel stíluð bréf og erindi frá þeim sem í þjóðfélaginu telja sig málið varða. Hér hafa verið fluttar úr ræðustól upplýsingar sem við öll höfum séð í þeim gögnum sem varða veiðar krókabátanna á undanförnum árum og á yfirstandandi fiskveiðiári. Vel að merkja, herra forseti, þá sýnist mér í því sem fram hefur komið í máli stjórnarandstæðinga birtast ólíkar skoðanir á frv., ólík sjónarmið til þess hver hlutur krókaveiðibáta skuli vera í sjávarútvegi. Sjálfsagt liggur þar að baki mismunandi mat á því hversu mikilvægir þeir séu í atvinnustarfsemi. Fyrir örstuttri stundu lýsti einn hv. þm. hversu mikil atvinnusköpun er fólgin í starfi landróðrabátanna sem veiða innan aflamarkskerfisins. Það eru ekki margir mánuðir síðan hann flutti svipaða ræðu um atvinnusköpun krókabátanna.

Það er svolítið skondið, herra forseti, að heyra niðurstöðu umræðu sem varð um málefni krókabáta á síðasta vori lýst sem svo að með því hafi stjórnarliðið farið nokkra leið að því marki að hætta við að afleggja krókabáta og með þessum tillögum séu þeir endanlega að snúa við. Ég held að það hafi komið skýrt fram fyrir ári síðan eða svo, herra forseti, í umræðum sem þá urðu að þingmenn í sjútvn. og þingmenn yfirleitt voru sammála um að leiðin væri sú að gefa krókaveiðimönnum sambærileg kjör og öðrum sjómönnum á Íslandsmiðum. Þ.e. sambærileg réttindi til að haga veiðum sínum eftir sjónarmiðum hagkvæmni og öryggis og sambærilegar skyldur til að taka þátt í að vernda fiskstofna sem þess þurfa við og byggja upp arðinn af fiskimiðunum til frambúðar. En það verður að segjast eins og er, herra forseti, að þar hefur ekki gengið jafnt yfir alla vegna þess að lögin um stjórn fiskveiða gera mönnum ekki sama kostinn. Það hafa aldrei gert það. Allt frá upphafi og í meira en áratug hafa verið göt í kerfinu viljandi sett, eða a.m.k. með fullri vitund og vilja þingmanna, til þess að gefa mönnum færi á að koma sér upp krókabát. Ég er sannfærður um það, herra forseti, að menn hafa þar gengið um með glýju í augum yfir því hvað það væri fallegt að sjá litla, vélarlitla, afllitla, burðarlitla báta tosast með handfæri (Gripið fram í: Svona rómantík.) út á djúpi eða á grunnslóð. (Gripið fram í: Við sólarlag.) Já, sjálfsagt við gullroðið sólarlag. Ég geri mér ekki í hugarlund, herra forseti, að enginn hafi bent þingmönnum á þeim tíma eða útvegsmönnum sem tóku þá þátt í að móta kerfið og hafa alla tíð síðan lýst yfir stuðningi við það þar til nú, á þá sprengju sem í þessu lá. Það hefur a.m.k. komið oft og skýrlega fram í þeim umræðum sem ég hef tekið þátt í hér á fáum umliðnum árum um stjórnkerfi fiskveiða að í þeim heimildum sem lögin gefa þessum flota liggur sprengja sem er sífellt að stækka og þeim mun lengra sem líður verður sprengingin öflugri og gígurinn stærri. Við höfum séð þetta í tölum því að þrátt fyrir nokkrar breytingar sem gerðar hafa verið á lögunum og varða veiðar krókabátanna, hafa þeir samt sem áður sífellt farið margfalt fram úr áætluðum afla, þrátt fyrir að þessi viðmiðunarmörk hafi sífellt verið aukin. Það verður þó að segjast, herra forseti, að þær breytingar sem voru gerðar á sl. vori eru í fyrsta sinn frá því að þessi lög voru mótuð að skila þó þeim árangri að þeir fara ekki margfalt fram úr þessum viðmiðunum.

Þessar tillögur sem liggja fyrir ganga svipaða leið, herra forseti. Meginefni þeirra eru þau atriði í breytingunum frá sl. vori sem mestar umræður urðu um og einmitt þau atriði hafa skilað þessu sem ég lýsti. Ég sé þess vegna í þessum tillögum, herra forseti, líkindi til þess að krókabátar og krókaveiðimenn muni starfa eftir lögunum um stjórn fiskveiðar líkt og aðrir sjómenn á Íslandsmiðum. Þeir hafa ekki gert það til þessa. Þeim var opnað gat sem þeir eðlilega nýttu sér. Fjölgun krókabátanna hafa þeir á stundum lýst sem nýsköpun í atvinnulífi á Íslandi. Ég held að við séum smám saman að sjá að svo er ekki. Það er ekki nýjung að fjölga litlum og aflvana bátum. Arðsemin af rekstri hinna stórvirkari atvinnutækja sem hafa tæknilega burði og fyrirtækjanna sem hafa fjárhagslega burði skilar fjármunum sem geta staðið undir nýjungum því þær kosta bæði fé og fyrirhöfn.

Stjórnendur stóru skipanna sem nú stunda veiðar á úthafinu og stjórnendur fyrirtækjanna hafa fært verulegar fórnir í fé og fyrirhöfn til að öðlast þekkingu og að ná árangri í þeim veiðum. Það er lítil fórn í því að feta í annarra fótspor en það hafa menn helst gert á heimamiðum. Það eru ekki smæstu bátarnir sem hafa þó farið á stað með nýjungar í veiðum á grunnslóð. Það eru hins vegar smáskip og aflvana og hafa starfað eftir ákvæðum aflamarkskerfisins sem hafa haslað sér völl til að veiða aðrar tegundir sem eru utan ákvæða laganna um stjórn fiskveiða. Ég tel að þeir menn hafi þar sýnt ekki aðeins okkur heldur öðrum hvaða möguleika menn hafa ef þeir feta ekki einungis í spor annarra.

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnast skiljanlegar raddir útvegsmanna sem alla tíð hafa unað við ákvæði laganna um stjórn fiskveiða og una við ákvörðun stjórnvalda og framkvæmdarvaldsins um aflamörk (Gripið fram í: Og niðurskurð.) já, um niðurskurð. Það sem þeir hafa gengið í gegnum, sumir hverjir án þess að hafa nánast nokkrar aðrar útgönguleiðir, er svo mikill samdráttur í aflaheimildum að ef við berum saman við viðmiðunarár þessara laga þegar þau voru fyrst sett, þá eru heimildir bátanna núna u.þ.b. 1/3. Menn hafa síðan þróað sérveiðar og þær hafa aukist á þessum tíma og flestar byrjað með tilraunum skipstjóra og útgerðarmanna. Þar sem þeir hafa fundið sér nýja tekjumöguleika með sérveiðum þá eru helstir möguleikar stóru skipanna að fara út á dýpri mið. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að mér hefur sýnst að hafi þessir menn ekki haft tækifæri til að hasla sér nýjan völl, finna áður óþekkta stofna eða áður ónýtta stofna og fara á önnur og þá oftast fjarlægari mið, þá hafa allir aðrir en krókaveiðimenn unað lakari lífskjörum en áður. Krókaveiðimenn hafa meira að segja hrósað sér af því að á sama tíma hafi þeir aukið veiðarnar. Mér finnst það ekki skemmtileg röksemd þegar ég lít til þess að í fyrsta lagi eru ekki allir smábátamenn á Íslandsmiðum krókakarlar. Síður en svo. Það þarf ekki annað en líta til þeirra þó þeir séu ekki fjölmennastir sjómanna á Íslandsmiðum til að sjá hvaða mismunun hefur ríkt í kerfinu. Ég verð að segja við hv. þm. sem stóð hér áðan og ræddi um að nú væri verið að mismuna, að mér finnst að hann ætti að taka undir þessar tillögur vegna þess að þær eru þó alvarleg tilraun til að ljúka slíkri mismunun og fá fram reglur um veiðar krókaveiðimanna sem eru sambærilegar og veiðar annarra sjómanna á Íslandsmiðum. Þær eru ekki eins, en niðurstaðan ef okkur tekst sæmilega til, eru sambærileg réttindi og sambærilegar skyldur. Þá geta menn talað um hver hafi náð bestum árangri.

Herra forseti. Ég tel að við eigum að hlusta eftir þeim röddum sem gagnrýna hvernig tillögurnar urðu til. Má vera að þar komi líka fram ábendingar um það sem betur mætti fara í þessum tillögum. En ég tel miklu skipta og nokkru til þess fórnandi að krókaveiðimenn verði tilbúnir að una við leikreglur og ákvarðanir um veiðimörk hvort sem við köllum það þorskaflahámark, aflaheimildir, aflahlutfall eða annað, að þeir verði tilbúnir að una sambærilegum ákvörðunum og sömu leikreglum og gilda um aðra sjómenn. Þeir hafa ekki gert það til þessa en með því að eiga aðild að gerð þessara tillagna hafa þeir tekið á þeim ábyrgð. Auðvitað hljóta þeir að verða tilbúnir að taka ábyrgð á þeim í framkvæmd ef/og þegar þær verða að lögum.

Herra forseti. Ég tel að við eigum að taka þessu frv. vel og vinna hið besta úr niðurstöðum sem þar koma fram. Mér finnst skipta miklu máli að það stjórnkerfi sem þó hefur reynst okkur skást af öllum slæmum kostum verði fest í sessi og nái yfir allan fiskveiðiflotann innan lögsögunnar. Og ég endurtek að mér finnst nokkru til þess fórnandi.

[17:00]

Niðurstaðan er hins vegar sú að ef þessi ákvæði verða að lögum, verða viðmiðunarmörk afla krókabátanna minni en þeir hafa verið að veiða. Þeir verða sem sé í raun fyrir skerðingum. Á síðasta fiskveiðiári var viðmiðun þeirra 21.500 lestir en aflinn var nærri 40 þús. lestir. Segið mér svo að þetta séu tillögur um að auka heimildir þeirra. (StG: Og á að miða við það?) Ég er ekki að segja það, hv. þm. (StG: Það sem við náum út úr því.)

Herra forseti. Ég er að taka undir að það verði settar sambærilegar leikreglur yfir veiðar krókabátanna og annarra. (Gripið fram í: Nei, þú ert að verðlauna þá fyrir það sem þeir fóru fram yfir.) Nei. (Gripið fram í: Það er það sem þú ert að segja.) Nei, hv. þm. Ég tel að það sé ekki verið að verðlauna þá með því. Ég segi hins vegar eins og ég sagði í fyrra. Þá lögðu ýmsir hv. þm., þar á meðal þingmenn í hv. sjútvn., til eftir mikla umræðu í þingsölum að veita þeim 10 þúsund tonna meiri afla um leið og aðrir voru skornir niður. Ég tók ekki undir þá tillögu, hv. þm. En þá lýstum við yfir í lok umræðunnar að við teldum rétt að þessi viðmiðun yrði bundin í lögum með sambærilegum hætti og aðrar viðmiðanir. Ég er tilbúinn að standa við það. Auðvitað er það álitaefni. En við þingmenn verðum líka að standa undir því verki sem ég tel að þingið hafi unnið, þ.e. að skilja eftir ákvæði í lögunum ár eftir ár þannig að öðruvísi gat ekki farið en krókaveiðimenn nýttu sér þær heimildir til að fjölga bátum, auka veiðar, auka sóknarþunga og ná þannig meiri afla. Ég get ekki sagt að það séu aðrir Íslendingar en þingmenn ábyrgir fyrir slíkum lögum eða öðrum. Við erum löggjafarvaldið.

Ég tel, herra forseti, að við eigum að fara þá leið sem hér er lögð til í meginatriðum og koma á sambærilegum reglum yfir veiðar allra fiskiskipa á Íslandsmiðum.