Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 17:03:15 (4658)

1996-04-12 17:03:15# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, JBH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:03]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Setjum nú svo að útlendingur sem skildi þó íslenskt mál og hefði fylgst með umræðum um fiskveiðistjórnun Íslendinga á seinasta vorþingi eða á umliðnum árum álpaðist hingað upp á pallana til að hlusta á þær umræður sem fram færu núna, þá spyr ég sjálfan mig: Skyldi honum ekki fara líkt og mér þegar hann legði við hlustir að hann undraðist það nokkuð hvernig búið væri að skipa hlutverkum í þessari umræðu? Ég heyri ekki betur heldur en öllum hlutverkum sé öfugt skipað við það sem var.

Hér leggur hæstv. sjútvrh. fram frv. eftir að hafa verið kallaður til og réttað yfir honum á Austfjörðum og kannski víðar og er nú raunverulega hylltur sem hetja trillukarla og smábátamanna og réttir þeim frelsisskrá úr föðurhendi. Hæstv. sjútvrh. sem hefur marga fjöruna sopið af þeirra hálfu hlýtur að hafa verið hugsað til þess að þegar hann stóð hérna á tröppunum í vor og óvígur floti trillukarla sigldi inn á flóann og menn óðu að honum með steyttan hnefann, báru upp á hann og hans menn loforðin frá því fyrir kosningar og hermdu upp á þá vanefndirnar og svikin. Honum var náttúrlega tregt tungu að hræra sér til varnar. Þessi maður sem var skotspónn allra frjálsra trillukarla á sl. vori og hefur lengi verið er nú orðinn hetja þeirra sem höfðu hann að skotspæni fyrr.

Sá sem hefur af ýmsum mönnum í alvöru verið kallaður sjútvrh. Íslands í sl. 16 ár, Kristján Ragnarsson í LÍÚ, gefur út fréttabréf sem mætti nú kallast Neyðarópið. Formaður eða framkvæmdastjóri LÍÚ, hvort sem hann er, þessi hugmyndafræðingur aflamarkshlutdeildarkerfisins segir: ,,Það eru alger griðrof í þjóðfélaginu``. Þessi hetja trillukarla sem hér situr á stóli hæstv. sjútvrh. hefur rofið grið á stórútgerðinni í landinu og öllum rekstrarlega þenkjandi aflamarkssinnum. Hann fer fram með yfirboð og ævintýramennsku og hann er raunverulega búinn að svíkja aflamarkskerfið sem er upphaf og endir trúarbragðanna hjá þessum aðilum. Hann er umskiptingur og það er ekki bara það að hér sé boðað til stríðs í þessu herópi heldur er þar sagt að ef þessu verður síðan fylgt eftir með þeim hætti við ákvörðun um auknar aflaheimildir að það verði ekki farið aftur á rétta braut aflahlutdeildarkerfisins, þá er sko ekki stríð, þá er kjarnorkustyrjöld frá LÍÚ á hendur þessum talsmanni trillukarla, Þorsteini Pálssyni, hæstv. sjútvrh.

Síðan koma þingmenn Sjálfstfl. og einkum og sér í lagi hugmyndafræðingurinn af Norðurl. e., hv. þm. Tómas Ingi Olrich, sem hafði tekið nokkurn tíma áður en hann tók trú á aflamarkshlutdeildarkerfið en var orðinn fullnuma í því í fyrra, og segir: Hér hafa gerst undur og stórtíðindi. Hæstv. ráðherra sem kenndi Tómasi Inga fúndamentalismann, þ.e. þessi trúarbrögð, á sínum tíma, hefur nú snúið við blaðinu, skilið hv. þm. einan eftir. Og hann kemst að þeirri niðurstöðu að hæstv. sjútvrh. hafi rift aflahlutdeildarkerfinu, hann sé kominn með nýtt kerfi. Og hann sér ekki betur en þetta byggi á geðþóttaákvörðunum, lýðskrumi og atkvæðaveiðum. Og hér með sé aflamarkshlutdeildarkerfið í fullkominni óvissu.

Reyndar er það svo að þeir sem tóku trúna á kerfið segja núna: Fremur en láta bjóða okkur svona framkomu leggjum við til að allur flotinn fari núna á sóknarmark sem hefur verið nákvæmlega eins og vísa mönnum lóðbeint í neðsta því að það hefur verið þvílík afneitun á grundvallaratriðum réttrar guðfræði í sjávarútvegsmálum að það er að líkja því við hið versta og lægsta. Inn í þennan kór umskiptinganna sem nú hafa allir hlaupið frá sínum hlutverkum blandast svo pínulítil frétt í Mogganum í dag. Hæstv. forsrh. er nú kominn með skoðun á þessum málum og sagði í gærkvöldi að sér virtist óhætt að auka þorskveiðikvóta á þessu fiskveiðiári. Það vill svo til að lög og reglur gera ráð fyrir því að fagráðherra í ríkisstjórn hans, hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson, taki um þetta ákvörðun eigi seinna en á mánudag. Það á bara við um þorsk og hann er sá eini aðili sem getur tekið ákvarðanir um aukningu á þessu ári. Neðar í þessari sömu Moggafrétt er rætt við fagráðherrann, Þorstein Pálsson sjútvrh., sem segir að niðurstöður rannsókna bendi til þess að kvótinn verði aukinn á næsta fiskveiðiári en hún gefi ekki tilefni til aukningar á þessu ári.

Hæstv. forsrh. hefur m.a. það hlutverk ef upp kemur ágreiningur milli svokallaðra fagráðherra að þá á hann að skera úr. Stundum gerir hann það, stundum ekki. En það er ekki vitað til þess að það sé nokkur ágreiningur milli fagráðherra í þessu máli. Það er alveg skýrt samkvæmt reglu um Stjórnarráðið og verkaskiptingu í Stjórnarráði að ákvörðunin er hæstv. sjútvrh. Það er hæstv. sjútvrh. sem fer með þetta ákvörðunarvald. Hann getur kosið að hafa samráð við ríkisstjórn ef hann svo óskar en það er hann sem hefur þetta vald. Og það eru engir aðrir fagráðherrar sem hafa einhverja faglega skoðun á því lögum og reglum samkvæmt

Þetta minnir okkur á að það er ekki langt síðan hæstv. fjmrh. lagði fram frv. um breytingar á lífeyrisréttindum. Hann hafði gert það í bróðurlegu samkomulagi við þingflokkinn sinn, þennan merka þingflokk sjálfstæðismanna og við samstarfsflokkinn. Það hafði farið í gegnum ríkisstjórn, það lá hér fyrir Alþingi og hæstv. fjmrh. taldi að hann væri að tala í nafni ríkisstjórnarinnar. En af því að málið reyndist óvinsælt og það vakti andspyrnu og andstöðu kom þar að að hæstv. forsrh. sagði: Nei, þetta frv. verður dregið til baka. Og meira að segja á fundi með aðilum vinnumarkaðarins þar sem þeir voru að færa sín rök áréttar hæstv. forsrh. að þetta mál verði dregið til baka og það verði engin áunnin réttindi tekin af né heldur verði því breytt að menn geti ekki treyst því að þeir hafi þau réttindi sem þeir töldu sig mega vænta að óbreyttum reglum. Og að viðstöddum hæstv. fjmrh. segir hæstv. forsrh.: ,,Þeir sem ekki una þessari ákvörðun minni geta bara farið.``

Þarna var ekki verið að úrskurða í neinu ágreiningsmáli milli fagráðherra vegna þess að það var ekkert ágreiningsmál uppi. Þetta hafði allt saman verið samþykkt. Nú er spurning út frá því leikriti sem leikið hefur verið á þessu síðdegi og allir í öfugum hlutverkum: Hvernig er það ef við hugsum fram til mánudagsins? Hér er hæstv. sjútvrh. Hann á að taka þýðingarmikla ákvörðun um veiðiheimildir á þessu ári. Hæstv. forsrh. er búnn að kveða upp salómonsdóminn um hvað honum beri að gera. Hæstv. sjútvrh. er búinn að segja að vísindaleg rök bendi ekki til þess og að ekki séu rök fyrir því að auka aflaheimildir á þessu ári. Nú spyr ég og nú spyr þingheimur: Hvað gerist á mánudag? Gildir lögmálið sem hæstv. forsrh. hefur verið að venja þessa ríkisstjórn á: Þegar ég hef talað geta aðrir þagað eða tekið pokann sinn? Verður hæstv. sjútvrh., sem ég sé að er horfinn úr salnum, horfinn alveg úr stólnum nk. mánudag? Það er spurningin. Það er alveg ljóst ef hér er rétt eftir haft að forsrh. er búinn að tilkynna hvaða ákvörðun hann eigi að taka. Hæstv. sjútvrh. er búinn að segja að það séu engin efni til slíkra ákvarðana og þá er lögmál hæstv. forsrh.: Þeir sem ekki hlýða mér geta bara farið. Ég er fullviss um að hann hefur ekki kynnt sér málið en það er sama. Og þá er svo komið fyrir hæstv. sjútvrh. sem stýrði hinum viðteknu trúarbrögðum í sjávarútvegsmálum, var a.m.k. yfirbiskup aflamarkshlutdeildarkerfisins og hafði fullt umboð stórútgerðarinnar í LÍÚ til þess að flytja þennan boðskap, að í fyrsta lagi er þingflokkur Sjálfstfl. eða áhrifamiklir menn í honum farnir að koma í bakið á honum gagnvart stjfrv. og forsrh. er búinn að gefa honum vísbendingu um að hann verði kannski ekki lengur í stólnum nk. mánudag. Það er helst að hann fái einhvern stuðning frá Alþfl. og sumum þingmönnum Framsfl.

Ég byrjaði þessa ræðu á því að segja: Hvernig mundi útlendingur sem hefði fylgst með sjávarútvegsumræðunni á undanförnum árum og í vor bregðast við þegar hann heyrir hvernig hlutverkum hefði verið skipt? Hér er öllu snúið öfugt sem gilt hefur um þessa umræðu hingað til. Og má meira að segja bæta því við að það bar við meira að segja hjá þeim eina flokki á Alþingi Íslendinga sem hefur ekki látið stjórnast af hagsmunum í þessu máli til eða frá að það vottaði fyrir því að boðskapurinn um frelsi trillukarla fengi ekki alveg ótvíræðan stuðning hjá einum ræðumanni áðan, svo öllu sé til skila haldið.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég geri hæstv. sjútvrh. ekki neinn grikk eða verði til þess að hann verði valtari í sessi þegar kemur fram á mánudaginn þótt ég lýsi því yfir að ég er tiltölulega ásáttur við þetta frv. hans. Ég tel satt að segja að þar sé nokkuð skynsamlega að verki staðið, bæði út frá bæjardyrum hæstv. sjútvrh. séð, þ.e. út frá sjónarmiðum þess sem vill festa í sessi aflamarkskerfið og sjónarmiðum okkar hinna sem höfum gagnrýnt það en gagnrýnt það fyrst og fremst á einum forsendum: Nefnilega þeim að aflamarkskerfi sem byggir á geðþóttaákvörðunum stjórnvalda um ókeypis úthlutun á nýtingu auðlindarinnar fái að sjálfsögðu ekki staðist til lengdar. Það er alveg þýðingarlaust að tala um kosti aflamarkskerfisins í samanburði við sóknarmark, tíunda það að harmkvælin hafa smám saman farið að skila árangri, afkoma þeirra fyrirtækja sem á annað borð hafa spjarað sig í samkeppninni hefur batnað og aflaheimildir hafa færst til í auknum mæli, meiri samruni stærri fyrirtækja, hagkvæmari rekstrareiningar, nokkur vottur af almenningshlutabréfahlutdeild í þessum stóru fyrirtækjum. Það hefur ekki mikla þýðingu að segja: Þetta er að festa sig í sessi, ef það ástand heldur áfram sem verið hefur um smábátaveiðarnar hingað til vegna þess hvað þær hafa mikla þýðingu fyrir atvinnulífið í hinum smærri byggðarlögum, sjávarbyggðum um landið allt og þýðingu þeirra í atvinnusköpun í landinu.

[17:15]

Ég held að það sé rétt skilið hjá hæstv. sjútvrh. að honum bar skylda að efna loforð sem gefið var um að reyna að leysa þetta mál. Niðurstaðan sem varð á vorþinginu var klúður, hún var óframkvæmanleg, það vissu allir og ég lít svo á að hæstv. sjútvrh. sé að efna loforð sem gefið var um að reyna að leysa þetta mál með málamiðlun. Ég held að það sé skynsamlegt út frá hans bæjardyrum vegna þess að takist honum það er hann um leið að setja fram ákveðið agn fyrir þennan vaska hóp afreksmanna í sjómannastétt um það að þeir sætti sig við aflamarkskerfið og það tekur svolítinn tíma að það gerist. Út frá bæjardyrum og sjónarmiðum hæstv. sjútvrh., ef hann hugsar eitthvað fram í tímann, þá held ég að þetta sé skynsamlegt. Út frá mínum eigin bæjardyrum held ég að þetta sé skynsamlegt. Ég held að það sé skynsamlegt að reyna að skapa frið, að reyna að leysa þessar deilur og það er mín prívatsannfæring sem ég geri enga kröfu um að hæstv. sjútvrh. deili með mér. Ég er jafnsannfærður um að aflamarkskerfið mun aldrei festa sig í sessi á Íslandi fyrr en þar að kemur að menn greiða eðlilegt verð fyrir aflaheimildirnar. Sú orrusta mun líka vinnast þrátt fyrir tregðulögmálið þó það taki einhvern tíma í viðbót.

Það er hins vegar afspyrnuóskynsamlegt af yfirgenerálnum í LÍÚ að hóta kjarnorkustyrjöld, þ.e. sjálfum aðmírálnum í þessum óvíga flota, en það er stigmögnun, það er seinasta stig styrjaldarinnar sem er boðað á gulu síðunum út af þessu máli. Hver eru rök hans? Jú, hann segir: Menn okkar hafa lagt á sig harmkvæli og píslir, þ.e. miklar skerðingar þar sem trillubátakarlar hafa ekki orðið fyrir slíkum skerðingum. Ekki mjög mikilvæg rök. Rökin fyrir málinu eru þau að trillum hefur fjölgað mikið. Það er á ábyrgð stjórnvalda. Stjórnvöld geta ekki losað sig undan því að bera ábyrgð á því og bera ábyrgð á að leysa það mál. En hann hefur kannski efnislega rök fyrir sér í því að tilraunin til þess að fækka í þessum flota, þ.e. í gegnum Þróunarsjóðinn með hærri úreldingarstuðli, er óneitanlega á kostnað annarra. Að mínu mati er það hins vegar spurning um tæknilega útfærslu sem menn eiga að skoða í nefnd en það er ekki tilefni til kjarnorkustyrjaldar. Eftir að hafa velt fyrir mér þessum stórkostlegu hlutverkaskiptum sem hafa átt sér stað um leið og ég óska hæstv. sjútvrh. til hamingju með að vera orðin útnefnd hetja hafsins af Landssambandi smábátaeigenda óska ég honum líka til hamingju með það því að það mun auka mjög hróður hans að hafa komið sér í styrjöld við Kristján Ragnarsson því að hver sá sem fær styrjöld við Kristján Ragnarsson er á nokkuð réttu róli. Þetta er allt til bóta.

Spurningin er síðan bara um framtíð hæstv. sjútvrh. sem er hér á nokkuð réttu róli, hvort hann lifir af fram yfir mánudaginn. (TIO: Við gætum hugsað okkur það.) Við gætum nú hugsað okkur þegar hér er komið sögu að reyna að stuðla að því að hann lifði fram á þriðjudag eða miðvikudag.

Þó er eitt samningsatriði til í því: Það er þetta með týnda flotann sem nýframsóknarmennirnir á Reykjanesi voru að tala um áðan og dulmál þeirra, skildist varla hvaða þeir voru að meina. En meiningin var sú að það er búið að fara svo illa með vertíðarbátaflotann að nú þyrfti að bæta hag hans. Það er spurningin um úthlutunina sem á að verða, þ.e. auknar aflaheimildir á þessu ári sem eiga að ákveðast frá og með mánudeginum, hvort það á að vera innan aflamarkshlutdeildarkerfisins eða hvort það á enn að líta svo á að hópurinn hafi orðið fyrir miklum skerðingum og þarf að fá svolitla hjálparhönd vegna þess að stórútgerðin í LÍÚ er búin að kaupa til sín fjórðunginn af öllum þorskaflaheimildum eða með tilfærslum og vegna þess að það hefur orðið bylting í sjávarútvegi á Íslandi með úthafsveiðum, ekki bara Smuga, ekki bara síldarhaf, ekki bara Reykjaneshryggur, heldur Flæmski hatturinn og alþjóðavæðing sjávarútvegsins sem hefur sem betur fer gerst ótrúlega hratt á tiltölulega skömmum tíma. Ef aflamarkskerfið á að vera eitthvað á það að vera dínamískt. Það er ekki eitthvert fast niðurnjörvað mynstur. Við getum aldrei rekið sjávarútveg á þeim forsendum.

Annað. Þegar þeir segja: Við verðum að geta treyst því að úthlutun á aflaheimildum fram í tímann sé alltaf innan þessa kerfis. Þá eru þeir raunverulega að segja: Það er vegna þess að við eigum þetta. En í lögum um stjórnun fiskveiða segir: Þið eigið þetta ekki, herrar mínir. Í lögunum stendur líka: Jafnvel þótt Alþingi Íslendinga ákveði breytingar á stjórnun fiskveiða þá skal ríkið ekki verða skaðabótaskylt af því að þetta er ekki eign ykkar. Þetta er nýtingarréttur, þetta er ráðstöfunarréttur, þið fáið hann að vísu ókeypis. Það verður bráðum breyting á því. Þið þurfið að greiða fyrir hann vegna þess að markaðskraftarnir þurfa að koma þarna að verki. En þið getið ekki slegið því föstu að þetta sé ykkar eign.

Ef aflamarkskerfið og kostir þess eiga að vera eitthvað þá er það að það er dínamískt kerfi. Kostirnir eru þeir að þeim vegnar þar best sem spjara sig best. Það tekur langan tíma að koma því á. Það fær aldrei staðist til lengdar nema það sé friður um það. Þessi gjörningur er spor í þá átt. Það fær aldrei staðist til lengdar nema menn greiði fyrir aflaheimildirnar, það fer að koma. En það er aldrei hægt að slá því föstu og má aldrei slá því föstu að nýtingarrétturinn og umráðarétturinn sé eignarréttur. Þegar ég fer að heyra það eftir hlutverkaskiptin sem hér hafa átt sér stað að hæstv. sjútvrh. fer að taka undir með mér í því efni þá fer ég bara að verða nokkuð ánægður með framtíð sjávarútvegsstefnunnar.

En lokaorð mín eru þessi: Samkvæmt þeim nýja salómonsdómi Davíðs, hæstv. forsrh., að á mánudag eigi að auka aflaheimildir á þessu ári og samkvæmt þeirri yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. að það séu ekki vísindaleg rök fyrir því bið ég hv. þingheim að vera í viðbragðsstöðu á mánudag, hér hefur þokast nokkuð í rétta átt, hvort við þurfum ekki til þess að fullkomna leikritið úr því að griðrof hafa orðið með sjútvrn. og LÍÚ og griðrof með sumum þingmönnum Sjálfstfl. við hæstv. sjútvrh. en trillukarlar sem skömmuðu hann blóðugum skömmum í vor hafa nú tekið hann í sátt og gert hann að ,,hetju hafsins``, er þá ekki rétt að við reynum að slá skildi fyrir hann á mánudag, þriðjudag?