Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 17:37:38 (4661)

1996-04-12 17:37:38# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:37]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst athyglisvert að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson kemur ekki einu orði að því hvernig þetta kerfi kemur til með að virka, þar sem skip fiska hlið við hlið en búa ekki við svipaðar reglur heldur gagnólíkar reglur og gagnólík kjör. Hann hefur sjálfur hælt þessu kerfi og sagt að þetta væri til styrkingar aflamarkskerfinu og ég hef beðið hann að bregðast við því hvort að þetta kerfi geti yfirleitt gengið upp eins og það er hugsað. Ég ber brigður á það. Ef menn líta á þann sveigjanleika sem er fólginn í því að aflaheimildirnar eru seljanlegar þá er ég honum innilega sammála um að seljanlegar aflaheimildir eru eitt af grundvallaratriðunum í sambandi við aflahlutdeildarkerfið. En það er ekki verið að innleiða sömu lögmál hjá aflahámarksbátunum og hjá aflamarksbátum í þessum efnum.