Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 18:23:42 (4671)

1996-04-12 18:23:42# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[18:23]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ríkisstjórn Íslands tók þá ákvörðun að taka 25% af áætlaðri stofnstærð þorskstofnsins, en þó aldrei neðar en ákveðið mark. (Gripið fram í: Sem við njótum í ár.) Sem við njótum í ár. Þetta er því gólf sem við erum að veiða í dag. Ríkisstjórn Íslands getur sannarlega tekið slíka ákvörðun en það er góð ábending frá hv. þm. að við getum allt eins miðað við prósentur. Það er óþarfi að hafa þennan tonnafjölda. Að því leyti get ég verið honum sammála en ég vonast líka til þess að hann skilji það mætavel að það er misskilningur, mikill misskilningur að krókabátarnir samkvæmt þessu frv. séu ekki að færast upp og niður jafnt eins og önnur skip. Það er mikill misskilningur.

Herra forseti. Ég væri alveg tilbúinn til þess, af því að hv. þm. Pétur Blöndal er gæfusamur maður, að ræða í kyrrþey hver gæfi hverjum hvað.